Í dag verður borinn til grafar, æskuvinur minn, Pétur Gunnarsson. Leiðir okkar lágu saman fyrst þegar Pétur kom í unglingadeildina í Hlíðaskóla snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Á þeim árum vorum við Pétur saman nánast alla daga ásamt nokkrum öðrum skólasystkinum, sem mynduðum hóp sem kenndur var við Krónusjoppuna við Lönguhlíð.
Öfugt við okkur hin í unglingahópnum var Pétur fróður og vel lesinn og eftir á að hyggja var óskiljanlegt að hann nennti að hanga með okkur. Pétur var skarpgreindur og góður námsmaður. Hann lauk stúdentsprófi frá MR og stofnaði fjölskyldu mjög ungur með Önnu Margréti Ólafsdóttur, sem var ein úr Krónuhópnum. Hugmyndir um langskólanám viku fyrir því merkilega verkefni.
Pétur starfaði lengst af sem blaðamaður. Ólíklegt er að margir andmæli þeirri fullyrðingu minni að hann hafi verið með allra bestu blaðamönnum sem við höfum átt. Þar skipti máli hin mikla og almenna þekking sem Pétur bjó yfir. Enginn blaðamaður var betri en Pétur þegar kom að viðkvæmri umfjöllun um lögreglu-og dómsmál. Vegna þekkingar sinnar og innsæis gat hann dregið fram sem skipti máli á hlutlausan og yfirvegaðan hátt. Ég held að Pétur hafi verið fróðari um lög og rétt en margir sem höfðu prófgráðuna.
Ég mun sakna Péturs og fróðlegu samtala okkar um þjóðfélagsmálin. Hann hafði alltaf mikið til málanna að leggja. Ég votta eiginkonu Péturs og vinkonu minni, Önnu Margréti, samúðar, sem og allri fjölskyldunni.
Rita ummæli