Föstudagur 8.2.2019 - 11:01 - Rita ummæli

Lína.net

Óvenju oft að undanförnu á víð og dreif um höfuðborgina hef ég séð iðnaðarmenn hjá verktakafyrirtækjum að störfum við vinnu á húsþökum. Í allra veðra von. Og í mis stórum húsum og fjölbýlum.

Flestir þeirra voru ekki í öryggislínu við vinnu sína

Er þetta bara venjan í dag? Eru menn að hætta lífi sínu og limum fyrir þetta? Margir þessa hörkuduglegra manna eru kannski með 2000-2500 kall á tímann.

Ég hélt að þetta hefði bara átt við tímann í „gamla daga“ þar sem menn voru öllu frjálslegri og kærulausari og hugarfarið „það kemur ekkert fyrir mig“ var kannski ennþá meira notað.

Mér er þetta óskiljanlegt. Það er aldrei of varlega farið.

Vil skora á Vinnueftirlitið að athuga það alvarlega að gera gangskör í þessum málum

Flokkar: Blogg

Fimmtudagur 13.12.2018 - 12:49 - Rita ummæli

Boomerang

Þessi pistill minn fjallar ekki um kvikmyndina Boomerang með Eddie Murphy í aðalhlutverki frá árinu 1992.

Annars er mjög langt síðan ég sá hana. Þarf að fara að horfa á hana aftur. Rifja hana upp um jólin.

Ég ætla að skrifa aðeins um Instagram. Allmargir Íslendingar hafa verið á „Insta“ um allnokkurt skeið.

Sjálfur var ég svolítið lengi að byrja á Ínstagram. Þarf oft smá tíma til að gúddera svona dæmi.

Það var vitað að ég yrði aldrei sá besti þarna inni. En ég ákvað að reyna ekki að vera eins og allir hinir

Er nokkuð viss um að flestir hafa gaman af að skoða myndir og fylgjast með öðru fólki. Allavega langflestir. Það er í mannsins eðli að hafa gaman af náunganum.

Ég fór á fyrstu dögum mínum á forritinu að skoða „Explore“. Þ.e.a.s skoða myndir sem poppa upp af hinum og þessum aðgöngum

Veit ekki töluna á því hversu margar myndir ég hef séð á flugfreyjum sitja í hreyfli flugvélar, myndum af matardiskum, myndir þar sem viðkomandi horfir niður eða til hliðar, eða þá eins og hann viti ekki af því að það sé verið að smella af mynd. Allmargar „hlæjumyndir“ af vinkonuhópum einnig. Spurning hvort þær séu sviðsettar eða ekki. Vandi er um slíkt að spá.

Rosalega mikið líka af fáklæddu fólki á einhverri sólbaðsströnd á erlendum slóðum og svo einhver hálf dramatískur og söluvænlegur texti á ensku undir myndinni

Textarnir eru svo stundum ansi oft svipaðir margir hverjir

„Því ber að fagna“
„Allt upp á 10 hér“
„Þá sjaldan sem maður lyftir sér upp“
„Oft haft það verra“
„Ekki hafa áhyggjur af mér“
„Skrifstofa dagsins“

Ekki gleyma má commentunum undir einhverjum ægilegum selfie myndum

„Bestu mínar“
„Fallegasta mín“
„Gefðu okkur hinum séns“
„Whoop whoop“
„Fallegust og bestust“

Svo eru það Boomerang-ið þar sem stutt video spilast fram og tilbaka hratt. Er eitthvað þreyttara en það?

1) Verið að skála í drykkjum
2) Verið að hræra í einhverri skál við bakstur t.d
3) Verið að labba einhvers staðar
4) Verið að dansa einhvers staðar

Nei nei ég segi svona. Það verða allir að fá að hafa þetta eins og þeir vilja hafa það. Sem betur fer. Svo framarlega sem það skaðar ekki náungann. Og allt er þetta meinsaklaust á Instagram og ágætis dægrastytting

Flokkar: Blogg

Mánudagur 3.12.2018 - 09:13 - Rita ummæli

Þetta er eitthvað að ganga

Flest öll veikjumst við af flensum og fáum umgangspestir. Veturinn er tíminn þar sem þessar pestir eðlilega grassera út um hvippinn og hvappinn í miklum kulda og veðurfarsbreytingum.

Sjálfur fékk ég einhverja magakveisu um daginn og smá hitastækju

Hef annars sloppið að mestu. 7-9-13.

Verð þó að segja að mér þykir það pínu kómískt að það virðist farið að vera innbyggt í okkur flestum að koma með autómatíska línu á kaffistofum og á öðrum mannamótum að þegar rætt er um flensur og kvefpestur hjá sjálfum sér eða fólki í kringum sig að þá droppar þessi lína

Ég er meira að segja farinn að standa sjálfan mig að þessu

Já þetta er eitthvað að ganga!

Látið ykkur batna.

Flokkar: Blogg

Þriðjudagur 10.7.2018 - 12:58 - Lokað fyrir ummæli

Hvunndagshetjur

Ég var að keyra Sæbrautina í rólegheitum um daginn og í útvarpinu kom frétt um afhendingu fálkaorðunnar á Bessastöðum

Eins og alþjóð veit þá sæmir Forseti Íslands nokkra velvalda íslenska ríkisborgara tvisvar á ári – þann 1. janúar og 17. júní

Sérstök orðunefnd er sitjandi og hefur um það að segja hverjir eiga skilið fálkaorðuna. Þetta eru 6 manns samtals

Nákominn aðili í fjölskyldunni minni sem hefur marga fjöruna sopið segir alltaf þegar hann heyrir af þessari athöfn

„Já glæsilegt að verðlauna þetta fólk fyrir að mæta í vinnuna sína og sinna henni“

Þetta segir hann í einskærri kaldhæðni

Ég er eiginlega sammála honum. Mér finnst þessar fálkaorðu veitingar barns sins tíma

Það er mín skoðun. Óvinsæl skoðun ef til vill og kannski skrýtin að auki.

Með þessu er ég alls ekki að kasta rýrð á það fólk sem hefur hlotið fálkaorðu. Alls ekki og þvert á móti. Það fólk hefur gert mjög góða hluti og staðið sína pligt með miklum sóma. Það hefur gert eitthvað gott til samfélagsins.

En ég hef reynt að temja mér það að gera ekki mun á milli fólks sem er að gera sitthvora hlutina af alúð, vandvirkni og þekkingar- og fagmennsku. Bæði á jákvæðan, góðan og uppbyggilegan hátt

En hvað hefur maður sem fær riddarakross fyrir framlag sitt á sviði upplýsingatækni eitthvað framyfir mann sem vinnur kannski hjá borginni á skóflunni, tekur mesta leyti 1 veikindadag á ári, mætir alltaf á réttum tíma og síðastur heim og hefur unnið þar í 40 ár?

Fyrir mér er enginn munur þar á ferð. Ég ber virðingu fyrir öllu því sem fólk gerir. Bæjarstjóri eða götusópari. Báðir aðilar frá prik frá mér.

Stuttu eftir að ég heyrði þetta útvarpsefni í bílnum – þið munið um fálkaorðuveitingarnar þá kom ég við á bensínstöð og í sjoppu

Á bensínstöðinni afgreiddi maður mig sem var kominn vel yfir miðjan aldur, allur af vilja gerður og sýndi þvílíka þjónustulund að það var eins og ég væri nákominn ættingi hans

Í sjoppunni afgreiddi mig kona sem var um sextugt. Það var sama upp á teningunum – glaðværð, jákvæðni, brosmild og það var eins og hún væri gömul frænka úti á landi. Svo eftir að hún afgreiddi mig var kallað á hana að koma inn á lager og þangað arkaði hún inn hröðum skrefum

Það var eftir þessar 2 ferðir – á bensínstöð og sjoppu – sem þessi hugmynd mín um þennan ómerkilega greinarstúf minn kviknaði

Um allar þessar hvunndagshetjur þarna úti sem sýna kannski vinnustöðunum sínum tryggð og hollustu í áratugi og missa varla út dag og sinna öllum verkefnum hjá fyrirtækinu af kostgæfni og mikilli alúð

Aldrei fá þau verðlaunaskjöl né fálkaorðu/riddarakrossa fyrir sína vinnu og framlög á ýmsum sviðum. Í sumum tilvikum ekki einu sinni jólagjafir frá fyrirtækjunum sínum.

Áfram hvunndagshetjur!

Flokkar: Blogg

Höfundur

Davíð Már Kristinsson
Akureyskur Vesturbæingur. Starfsmaður Reykjavíkurborgar. Þjálfari. Leikari. Pistlahöfundur.
RSS straumur: RSS straumur