Washington D.C.
15. september 2013.
Til: Efnahags- og viðskiptanefndar
Frá: Gunnari Tómassyni, hagfræðingi
Efni: Leiðrétting húsnæðisskulda
1. Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 63/1985 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga segir m.a.
Frumvarpið nær einungis beint til lána byggingarsjóða ríkisins, en gert er ráð fyrir að sama tilhögun geti gilt um húsnæðislán annarra sjóða og stofnana eftir því sem um semst milli lántaka og lánveitanda. Það er því hins vegar ákvörðun viðkomandi lífeyrissjóða, banka og annarra sjóða og stofnana hvort greiðslujöfnun í samræmi við þetta frumvarp verður tekin upp þar, en lögð er áhersla á að slíkt samkomulag verði um lán til húsnæðismála.
2. 1. gr. laga nr. 63/1985 var svohljóðandi:
Tilgangur laga þessara er að jafna greiðslubyrði af verðtryggðum fasteignaveðlánum einstaklinga. Skal misgengi, sem orsakast af hækkun vísitölu neysluverðs eða annarrar viðmiðunarvísitölu lána umfram hækkun launa, ekki valda því að greiðslubyrði af lánum þyngist.
3. Fyrsta málsgrein 2. gr. laga nr. 63/1985 var svohljóðandi:
Lög þessi taka til verðtryggðra lána einstaklinga sem tryggð eru með veði í fasteignum hér á landi hjá opinberum lánastofnunum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum sem hafa starfsleyfi á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki hér á landi. Skal greiðslujöfnun beitt á öll slík lán nema lánþegi hafi sérstaklega óskað þess að vera undanþeginn greiðslujöfnun. Skilmálabreyting á lánasamningi vegna greiðslujöfnunar skal vera lánþega að kostnaðarlausu.
4. Með lögum nr. 59/2004 var eftirfarandi breyting gerð á lögum nr. 63/1985:
Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði laga þessara taka þó ekki til ÍLS-veðbréfa sem Íbúðalánasjóður veitir eða afgreiðir frá og með 1. júlí 2004.
5. Með lögum nr. 133/2008 var viðbótin felld niður, sbr. nýjan texta 1. mgr. 2. gr. laga nr. 63/1985:
Lög þessi taka til verðtryggðra lána einstaklinga sem tryggð eru með veði í fasteignum hér á landi hjá opinberum lánastofnunum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum sem hafa starfsleyfi á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki hér á landi óski lántakandi eftir greiðslujöfnun samkvæmt ákvæðum laganna. Skilmálabreyting á lánasamningi vegna óskar lántakanda um greiðslujöfnuð skal vera honum að kostnaðarlausu.
Umsögn
I. Af feitletruðu setningunni í lið 2. að ofan verður ekki annað ráðið en að hugtakið greiðslujöfnun skv. lögum nr. 63/1985 feli í sér að sérhver hækkun vísitölu neysluverðs eða annarrar viðmiðunarvísitölu, t.d. gengisvísitölu, umfram hækkun launa leiði til heimildar til greiðslujöfnunar sem lækkar greiðslubyrði um jafngildi þess hluta sem stafar af misgengi launa og viðmiðunarvísitalna.
II. Af niðurfellingu með lögum nr. 133/2008 á þeirri viðbót við 1. mgr. 2. gr. laga sem kveðið var á um í lögum nr. 59/2004 verður ekki annað ráðið en að lántakendur hafi átt rétt til slíkrar lækkunar á greiðslubyrði húsnæðisskulda heimilanna við Íbúðalánasjóð frá árslokum 2008.
***
Erindi mitt var sent í viðhengi við eftirfarandi bréf mitt til nefndarmanna:
Ágætu alþingismenn.
Í viðhengi er samantekt á ákveðnum ákvæðum laga nr. 63/1985 um um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.
Með lögum nr. 59/2004 var eftirfarandi setningu bætt við 1. mgr. 2. gr. laganna:
„Ákvæði laga þessara taka þó ekki til ÍLS-veðbréfa sem Íbúðalánasjóður veitir eða afgreiðir frá og með 1. júlí 2004.‟
Með lögum nr. 133/2008 var þessi viðbót felld úr 1. mgr. 2. gr. laga nr. 63/1985.
Í umsögn minni í lok samantektarinnar segir:
I. Af feitletruðu setningunni í lið 2. að ofan* verður ekki annað ráðið en að hugtakið greiðslujöfnun skv. lögum nr. 63/1985 feli í sér að sérhver hækkun vísitölu neysluverðs eða annarrar viðmiðunarvísitölu, t.d. gengisvísitölu, umfram hækkun launa leiði til heimildar til greiðslujöfnunar sem lækkar greiðslubyrði um jafngildi þess hluta sem stafar af misgengi launa og viðmiðunarvísitalna.
II. Af niðurfellingu með lögum nr. 133/2008 á þeirri viðbót við 1. mgr. 2. gr. laga sem kveðið var á um í lögum nr. 59/2004 verður ekki annað ráðið en að lántakendur hafi átt rétt til slíkrar lækkunar á greiðslubyrði húsnæðisskulda heimilanna við Íbúðalánasjóð frá árslokum 2008.
* Tilvitnaður texti er þessi:
„Skal misgengi, sem orsakast af hækkun vísitölu neysluverðs eða annarrar viðmiðunarvísitölu lána umfram hækkun launa, ekki valda því að greiðslubyrði af lánum þyngist.‟
Í fljótu bragði fann ég ekki neinar breytingar á lögum nr. 63/1985 eftir setningu laga nr. 133/2008 sem kynnu að breyta forsendum umsagnar minnar.
Liður II. í umsögn minni byggir á því að engar slíkar breytingar hafi verið gerðar.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur