Nú liggur fyrir að þeir stjórnmálaflokkar vinna saman að myndun ríkisstjórnar á Íslandi sem eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekki að ganga í ESB og að stöðva beri viðræður um aðild að sambandinu. Þessi skoðun kemur skýrt fram í samþykktum æðstu stofnana flokkanna. Jafnframt eru þessir flokkar þeirrar skoðunar að ef það ætti á annað borð að halda viðræðum áfram þá yrði það ekki gert nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins segir: „Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Í flokksstjórnarsamþykkt Framsóknarflokksins segir: „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Af þessu er ljóst að ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynda saman ríkisstjórn þá verði viðræðum við ESB strax hætt með formlegum hætti. Jafnframt er ljóst að það er ekki vilji flokkanna að halda viðræðum áfram og því engin þörf á að láta að kjósa um framhaldsviðræður við ESB. Það má minna á að viðræður hófust án þess að þjóðin væri spurð og því þarf ekki aðkomu hennar heldur þegar viðræðunum er hætt. Það ætti hins vegar að vera sjálfsagt að meta hvernig viðræðurnar hafa farið fram til þessa og gefa út skýrslu um stöðuna.
Það er jafnframt ljóst að ESB í dag er allt annað samband en það sem ákveðið var að sækja um aðild að fyrir tæpum fjórum árum. Ennfremur er ljóst að æ fleiri sérfræðingar og stjórnmálamenn, að ekki sé minnst á sístækkandi hóp Evrópubúa, sem hafa efasemdir um að evru- og ESB-samstarfið muni skila þeim árangri sem til stóð. Margir ganga meira að segja svo langt, meðal annars sumir þeir sem stóðu að innleiðingu evrunnar, að segja að það verði að losa Evrópuríkin við höft evrunnar ef hagur jaðarþjóðanna eigi að geta vænkast. Það kann því margt að breytast í ESB og í evrusamstarfinu á næstu árum.
Eins og margar aðrar þjóðir standa Íslendingar nú frammi fyrir ýmsum vanda í efnahagsmálum sem leysa þarf úr. Það er brýn þörf á því að við einbeitum okkur við það verk, en látum ekki villuljós eins og ESB-aðild, evruvæðingu, eða aðildarviðræður tefja för okkar. Við þurfum að nýta þá krafta sem farið hafa í tímafrekar viðræður í annað og betra, nefnilega að vinna að lausn vandamála okkar hér og nú.