Þriðjudagur 14.01.2014 - 13:33 - FB ummæli ()

Ótrúlegur málflutningur

Í dag hefur verið fjallað mikið um samtökin Open Europe og rannsóknir þeirra í kjölfar þess að utanríkisráðherra vitnaði í rannsóknir samtakana. En Open Europe er sjálfstæð hugsmiðja sem hefur skrifstofur í Brussel, London og Berlín, þeirra markmið er að gera Evrópusambandið betra fyrir fyrirtæki og auka viðskiptatækifæri. Evrópusinnar hafa í dag verið mjög uppteknir að því að gera lítið úr rannsóknum þessa samtaka, en þó á furðulegustu nótum.

„Mér finnst að ráðherrann ætti að biðjast afsökunar, þetta er það stór yfirsjón,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, formaður Já Íslands, samtök Evrópusinna á Íslandi, um ummæli Gunnars Braga Sveinssonar í fréttaskýringaþættinum Kastljósi í gær. 

Steindór heldur áfram:

Þessi fullyrðing er byggð á skýrslu samtaka sem heita Open Europe, frá árinu 2008. Samtökin berjast gegn aðild Bretlands að Evrópusambandinu.

Formaður Já Íslands, Steindór Valdimarsson, heldur því fram að Open Europe séu samtök gegn aðild Breta að Evrópusambandinu á vef Vísis í dag. Þarna opinberar formaður Já Íslands vanþekkingu sína á samtökunum, en honum væri lítið mál að kynna sér samtökin betur með því að kíkja á heimasíðu þeirra http://www.openeurope.org.uk. En eins og nefnt hefur verið er markmið Open Europe að koma á breytingum innan Evrópusambandsins. Spurning hvort honum Steindóri beri ekki að biðjast afsökunar á þessari stóru yfirsjón?

Á facebook síðu Já Íslands þora menn ekki að taka jafn sterkt til máls eins og formaðurinn í umfjöllun um Open Europe, en þar er rannsókn Open Europe meðal annars gagnrýnd á grundvelli þess að hún komi frá aðilum sem telja að Evrópusambandið þurfi að taka breytingum. Þetta er líklega furðulegasti málflutningur sem heyrst hefur fyrr og síðar. Eru félagsmenn Já Íslands sannfærðir um að aðeins Evrópusambandið í núverandi mynd sé gott og að allir sem vilja gera breytingar á því séu ómarktækir? Er Evrópusambandið í núverandi mynd fullkomið og þarfnast engra breytinga í þeirra augum?

Sú frétt var byggð á skýrslu frá breskum samtökum sem heita OpenEurope og hafa það að markmiði að berjast gegn Evrópusambandinu í núverandi mynd.

Sú afstaða sem birtist mönnum á facebook síðu Já Íslands mætti gefa til kynna viðhorf sem er í andstöðu við hverja einustu stjórnmálahreyfingu eða hagsmunasamtök sem eru að finna í Evrópu. Enda telja þau væntanlega öll að Evrópusambandið þurfi að taka einhverjum breytingum. Eða er viðhorf Já Íslands byggt á því að Open Europe talar fyrir öðrum breytingum en þeim sem þóknast Evrópusinnum á Íslandi?

Það er vitað mál að það eru einhverjir hérlendis sem eru hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu og það ber að virða það, en það er full mikið ofstæki að gera alla gagnrýni á starfsemi sambandsins tortryggilega og loka eyrum og augum fyrir mögulegum ágöllum Evrópusambandsins.

Umrædd rannsókn Open Europe er að finna á heimasíðu samtakna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur