Í ljósi þeirrar þróunar sem átti sér stað allt síðasta kjörtímabil, þegar þáverandi stjórn klúðraði því tækifæri sem hún hafði á að koma Íslandi inn í ESB, og í ljósi síðustu kosninga og núverandi stjórnarsamstarfs er alveg ljóst að það er sjálfsögð og eðlileg krafa að stjórnarflokkarnir ljúki ferlinu formlega með því að draga umsóknina til baka með ályktun Alþingis.
Alþingi Íslendinga samþykkti 16. júlí 2009 þingsályktun sem var svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“
Alls greiddu að lokum 33 þingmenn þessari tillögu atkvæði sitt, 28 voru á móti og 2 sátu hjá. Hlynntir þessari tillögu voru allir 20 þingmenn Samfylkingar, 8 þingmenn Vinstri grænna, 3 þingmenn Framsóknarflokks, einn þingmaður Sjálfstæðisflokks og einn þingmaður Borgarahreyfingar. Á móti voru 14 þingmenn Sjálfstæðisflokks, 6 þingmenn Framsóknarflokks, 5 þingmenn Vinstri grænna og 3 þingmenn Borgarahreyfingarinnar. Tveir þingmenn sátu hjá, en þeir voru frá Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum.
Fram kom í umræðum um málið að hægt yrði að ljúka aðildarviðræðum á mjög stuttum tíma. Árni Páll Árnason, Baldur Þórhallsson og Jóhanna Sigurðardóttir töluðu um að hægt yrði að ljúka viðræðum á einu til tveimur árum.
Klofin ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gat ekki klárað verkið
Við vitum hvernig fór. Ríkisstjórnin var klofin í afstöðu sinni til umsóknarinnar. Nokkrir þingmenn yfirgáfu Vinstri græna meðal annars vegna þessa. Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra barðist á móti aðildinni og Ögmundur Jónasson ráðherra gerðist þessu ferli afhuga.
Fyrir ári síðan ákvað stjórnin að hægja á ferlinu að kröfu Vinstri grænna sem samþykktu á landsfundi sínum að gefa umsóknarferlinu ár til viðbótar. Þá vildi reyndar núverandi formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, að kosið yrði um framhald viðræðna en lenti í minnihluta með þá afstöðu. Nú er það ár að verða liðið og því eðlilegt að Vinstri grænir séu spurðir að því hvort þeir telji þetta umsóknarbrölt þá ekki orðið gott.
Stefna ríkisstjórnarflokkanna að hætta viðræðum og vera utan ESB
Fyrir kosningar móta flokkarnir stefnu sína í ESB-málunum. Hér skal einungis tilgreind stefna þeirra flokka sem mynduðu ríkisstjórn að kosningum loknum. Æðstu lýðræðissamkundur beggja flokka samþykktu sömu stefnu. Hún fólst í andstöðu við aðild að ESB, að viðræður við sambandið yrðu stöðvar og að þeim yrði ekki haldið áfram nema að undangengnum kosningum meðal þjóðarinnar um málið. Aðalatriðið í þessu er andstaðan við aðild að ESB. Af því leiddi að flokkarnir vildu stöðva viðræður. Það var einnig tengt fyrri umræðu um málið árið 2009 þegar farið var í viðræður án þess að þjóðin yrði spurð álits, að því var slegið föstu í samþykktum flokkanna að ekki yrði farið í viðræður nema þjóðin yrði spurð fyrst. Þetta ákvæði var eins konar varúðarákvæði um að þing eða stjórn gætu ekki haldið áfram viðræðum nema með því að spyrja þjóðina fyrst.
Samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var 21. til 24. febrúar 2013 um þennan málaflokk hósfst á þessum orðum: „Sjálfstæðisflokkurinn telur megintakmark utanríkisstefnu Íslands vera að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar…“. Síðar segir stuttu síðar að landsfundurinn „telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins 8. til 10 febrúar 2013 var svohljóðandi: „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Samfylkingin beið afhroð í kosningunum með sín stefnumið um ESB
Eins og sjá má á þessu er stefnan sem æðstu samkundur stjórnarflokkanna samþykktu í öllum meginatriðum hin sama. Flokkarnir gengu til kosninga á þessum grunni og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn náðu góðum meirihluta þingmanna og mynduðu ríkisstjórn. Samfylkingin sem hefur verið sá flokkur sem hafði það helst á stefnuskrá að ganga í ESB beið mikið afhroð í kosningunum. Auðvitað var kosið um fleiri mál, en það er ekki hægt að líta fram hjá þessu atriði.
Stjórnarsáttmálinn er alveg skýr um ESB
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er alveg skýr í þessum efnum. Þar segir: „Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Nú er búið að stíga fyrstu skrefin í þessum efnum. Það er búið að gera hlé á viðræðum við ESB og úttektin um viðræðurnar og um þróun mála innan sambandins er að verða tilbúin. Hún verður síðan lögð fyrir þingið til umfjöllunar og kynnt þjóðinni.
Það er ekki viðbúið að margt nýtt komi fram í skýrslunni um stöðu og möguleika Íslands í alþjóðlegu samstarfi eða hvað varðar gjaldmiðlamál. Fjölmargar aðrar skýrslur hafa verið skrifaðar um það, m.a. annars um 700 síðna skýrsla Seðlabanka Íslands fyrir rúmu ári. Búast má við nýjum upplýsingum í skýrslunni um þróun og stöðu viðræðnanna og svo um þróunina í ríkjum ESB. Þar hljóta að verða ítarlegar upplýsingar um hið gífurlega atvinnuleysi sem til staðar er m.a. vegna evrusamstarfsins. Þar hlýtur að vera ítarleg lýsing á því hvernig hagþróunin hefur verið sundurleit hvað varðar verðlag, viðskiptajöfnuð, skuldaþróun og atvinnu. Eins og allir vita hefur Evrópusambandinu mistekist þar það ætlunarverk sitt að stuðla að samleitni, þ.e. að vextir, verðbólga, atvinna og svo framvegis þróist í sömu og jákvæða átt innan sambandsins.
Það er rökrétt að Alþingi afturkalli þá ályktun sem hóf ferlið árið 2009
Að loknum umræðum um skýrsluna er aðeins ein rökrétt niðurstaða. Hún er sú að Alþingi samþykki að afturkalla þá umsókn sem send var á grundvelli klofinnar afstöðu þáverandi stjórnarflokka árið 2009 og í andstöðu við vilja þjóðarinnar um aðild. Það er eina rétta niðurstaðan.