Árni Páll Árnason hélt því fram, ranglega, í samtali við Heimi Karlsson á Bylgjunni rétt í þessu að í gjaldmiðlaskýrslu Seðlabankans frá haustinu 2012 væri bent á eina lausn í gjaldmiðlamálum. Þetta er ekki rétt hjá Árna Páli.
Nægir í því sambandi að benda á lokaorð seðlabankastjóra í fyrsta kafla skýrslunnar. Þar segir hann á síðu 68:
Ekki verða á þessu stigi dregnar einhlítar niðurstöður um það hvaða leið er best fyrir Íslendinga í gjaldmiðils- og gengismálum. Allar leiðir hafa bæði kosti og galla. Þótt mat á þeim byggist á tiltölulega traustum hagfræðilegum grunni er engin hagfræðileg forskrift að því hvernig vega á þessa kosti og galla saman til að fá skýra niðurstöðu. Auk þess er óvissa um hvernig þessir kostir og gallar þróast í framtíðinni. En þá þarf að hafa í huga að víða í ritinu er að finna niðurstöður sem benda til þess að val á gjaldmiðils- og gengisstefnu skipti e.t.v. minna máli fyrir efnahagslega velferð og stöðugleika en halda mætti ef tekið er mið af umræðunni um þessi mál. Dæmi um þetta er hvernig ríki komu út úr fjármálakreppunni (sjá kafla 16 og 17) og hversu hætt er við eignaverðsbólum innan og utan myntbandalags (sjá kafla 11). Þar kemur í ljós að stefnan í ríkisfjármálum, uppbygging og regluverk um fjármálakerfið og hvatar og möguleikar einkaaðila til lántöku skipta mun meira máli, að því er best verður séð af þeirri takmörkuðu reynslu sem fyrir liggur.
Enn fremur má minna á það sem segir á blaðsíðu 266 í skýrslunni:
Það er helst að skellir sem einkenna íslensku hagsveifluna eigi eitthvað sammerkt við skelli í Svíþjóð og Noregi. Tengslin við framboðs- og eftirspurnarskelli á evrusvæðinu eru hins vegar nánast engin. Þótt ætla megi að stór hluti sértækra eftirspurnarskella hverfi við inngöngu í myntbandalag, gæti kenningin um hagkvæm myntsvæði gefið til kynna að innlendar hagsveiflur myndu aukast við aðild að evrusvæðinu þar sem innlendir framboðsskellir virðast hafa lítil tengsl við sambærilega skelli á evrusvæðinu og reyndar á öðrum myntsvæðum líka. Aðlögun þjóðarbúsins án sveigjanlegs gengis gæti því orðið erfiðari en ella.
(Feitletrun neiesb.is)
Sem sagt: Út frá þessu hentar engan veginn fyrir Íslendinga að taka upp evru.
Hvers vegna er Árni Páll að halda stöðugt fram þeirri firru að skýrsla Seðlabankans hafi bent á evruna sem einu leiðina. Heldur hann að við það að endurtaka vitleysuna nógu oft þá fari fólk að trúa henni?