Í umræðum á Alþingi í gær um aðlögunarferlið að ESB kom fram að umsóknin að ESB hafi verið á fölskum forsendum. ESB ætlast til þess að þau stjórnvöld sem sækja um aðild vilji gerast aðilar. Svo hafi ekki verið því Vinstri græn í ríkisstjórn voru á móti aðild og Samfylkingin vildi bara kíkja í pakkann. Það voru engin heilindi af neinu tagi á bak við umsóknina. En á meðan leitast var við að kíkja í pakkann létu Vinstri græn og Samfylking aðlögunina halda áfram af fullum krafti, skref fyrir skref var Ísland togað í átt að ESB.
Samt er þjóðin á móti aðild að ESB. En hún var ekki spurð álits í upphafi.
Það er því rétt hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra að það sé algjört ábyrgðarleysi að halda áfram með viðræður núna þegar báðir stjórnarflokkarnir eru auk þess á móti aðild að ESB.
Það er nefnilega gert ráð fyrir því að umsóknarríki stefni að aðild. Umræðurnar fara auk þess algjörlega fram á forsendum Evrópusambandsins. Auk þess hefur komið fram að umsóknarferlið hefur opnað á það að einstök ríki innan Evrópusambandsins hafa getað notað það til þess að ná fram eigin markmiðum í málum sem eru algerlega óskyld ferlinu, svo sem í makríldeilunni þar sem ESB-ríki hafa beitt sambandinu fyrir sig gegn Færeyingum og Íslendingum.