Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og flokkar þeirra hafa sýnt mikinn styrk með því að taka ákveðið og örugglega á ESB-málinu. Umsóknin verður afturkölluð. Það er það eina rétta í stöðunni miðað við vilja þjóðarinnar gagnvart inngöngu og stefnu stjórnarflokkanna sem nýtur mikils meirihlutastuðnings.
Það eru nokkur atriði sem skipta miklu í þessu máli:
- Meirihlutavilji til aðildar er grundvallarforsenda umsóknarferlis. Hann vantar hjá almenningi og ríkisstjórnarflokkum.
- Skýrsla Hagfræðistofnunar sýnir meðal annars að það eru engar varanlegar undanþágur í boði í sjávarútvegi og landbúnaði. Engin fordæmi eru um slíkt. Sérlausnir eru hugsanlegar, en þá aðeins tímabundnar eða háðar ströngum skilyrðum og vilja ESB sem gæti breyst í framtíðinni.
- Aðeins var búið að loka 11 af 33 samningsköflum á 4 árum – allir erfiðustu kaflarnir eftir. Það átti bara að taka í mesta lagi 18 mánuði að klára ferlið sögðu Samfylkingin og Vinstri græn.
- Verulegir efnahagserfiðleikar eru í ESB með miklu atvinnuleysi. Litlum hagvexti er spáð í ESB á næstunni og myntsamstarfið hefur átt í verulegum erfiðleikum eins og sést á áhrifum þess á gífurlegt ójafnvægi í viðskiptum á milli evrulandanna. Fátækt er verulegt vandamál í Evrópu. Alls eiga 124 milljónir eða 25% mannfjöldans á hættu að lenda undir fátæktarmörkum og í félagslegri útskúfun. Sambærilegar hlutfallstölur eru miklu lægri á Íslandi. Sjá nánar hér.