Í gær breyttust valdahlutföllin í ESB stóru ríkjunum í hag. Atkvæðavægi minnstu ríkjanna er nánast ekkert og ef Ísland yrði aðili að ESB yrði atkvæðavægið vart teljandi. Atkvæðavægi lítilla aðildarríkja ESB minnkaði um helming en vægi Þýskalands nær tvöfaldaðist við það að ákvæði Lissabon-sáttmálans tóku gildi.
Það fékk ekkert ríki að kjósa um Lissabon-sáttmálann í þjóðaratkvæði nema Írland. Írar höfnuðu sáttmálanum en voru svo látnir kjósa aftur, sögðu Já og fá aldrei að kjósa aftur. Þeir og fleiri smáríki í ESB hafa misst áhrif sín varanlega. Þeir hafa einnig misst neitunarvald sitt í hátt í 60 málaflokkum.
Þjóðverjar hafa ráðið miklu í ESB síðustu árin en nú eykst vald þeirra að mun. Þeir fara nú með sjötta hvert atkvæði í valdastofnunum ESB og geta með Frakklandi eða öðrum stórum ríkjum, svo sem Ítalíu, Bretlandi, Spáni eða Póllandi, ásamt öðrum taglhnýtingum ráðið flestu því sem þeir kæra sig um á vettvangi ESB, en ESB stefnir sem kunnugt er að því að verða stórt sambandsríki en ekki aðeins ríkjasamband.
Þessar breytingar áttu sér stað um leið og ný framkvæmdastjórn tók við stjórnartaumunum í ESB. Nýju reglunum hefur verið líkt við það að svipta þjóðir sjálfstæði. Landlukt ríki sem eiga hverfandi hagsmuna að gæta í sjávarútvegi geta nú í krafti stærðar sinnar haft afgerandi áhrif á sjávarútvegsmál í ESB.
Sjá nánar:
Haraldur Hansson: Ísland svipt sjálfræði.