Mánudagur 23.7.2018 - 21:50 - FB ummæli ()

Líf sat hjá við ráðningu borgarlögmanns – ferill málsins

Þann 10. ágúst 2017 var haldinn fundur í borgarráði þar sem m.a. var gengið frá ráðningu borgarlögmanns

Ég tel að það sé nauðsynlegt að birta umræður og bókanir sem voru á þeim fundi eftir að úrskurður kærunefndar jafréttismála var birtur – þessi fundur varpar ljósi á hvers vegna kærunefndin kemst að þessari niðurstöðu nú.

13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Þegar samþykkt var í borgarráði að auglýsa stöðu borgarlögmanns var ekkert sem fram kom um efni auglýsingarinnar eða umsóknarfrest.  Á fundi borgarráðs 20.  júlí var í trúnaði rætt um umsækjendur, en þá höfðu fulltrúar minnihlutans ekki vitneskju um það að sautján dagar væru liðnir frá lokum auglýsts umsóknarfrests og gátu því á engan hátt brugðist við eða komið með tillögur um bætt verklag í því efni. Í ljósi óvandaðrar málsmeðferðar vegna fyrirhugaðrar ráðningar borgarlögmanns er lagt til að ferlið verði endurskoðað og staðan þar með auglýst að nýju. Enn fremur er lagt til að betur verði staðið að auglýsingu stöðunnar en gert var í júní sl.  R17080023

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Í tillögunni felst fullyrðing um að málsmeðferð við ráðningu borgarlögmanns hafi verið óvönduð – og það óvönduð að lagt er til að allt ferlið verði tekið upp að nýju. Ekki er hægt að fallast á að málefnaleg sjónarmið fyrir endurupptöku alls ferilsins séu til staðar. Jafnvel má leiða að því rök að endurupptaka á þessu stigi ferilsins, þegar umsóknarfrestur er liðinn og rætt hefur verið við umsækjendur, myndi ganga í bága við góða stjórnsýsluhætti. Markmiðið með því að auglýsa starf er að fá hæfa umsækjendur og hefur þetta ferli skilað tveimur hæfum umsækjendum. Tillagan er því ekki tæk til afgreiðslu.

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Lagt er til að ráðningu borgarlögmanns verði frestað þar sem fulltrúar í borgarráði hafa ekki fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins með fullnægjandi hætti. R17080023

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. ágúst 2017:

Lagt er til að borgarráð samþykki að ráða Ebbu Schram hrl. í starf borgarlögmanns. Greinargerð fylgir tillögunni. R1708002

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Fylgigögn

PDF iconTillaga að ráðningu borgarlögmanns

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:Við greiðum Ebbu Schram atkvæði okkar  í embætti borgarlögmanns og óskum henni velfarnaðar í starfi.  Við teljum þó að betur hefði mátt standa að auglýsingu á stöðunni og rétt hefði verið af hálfu æðstu stjórnenda borgarinnar að framlengja umsóknarfrestinn í ljósi þess að aðeins tveir aðilar hefðu sótt um stöðuna.  Eftir fund borgarráðs 20. júlí 2017 sendi borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina  tölvupóst til borgarstjóra og borgarritara til að vekja athygli á vandmeðfarinni stöðu að velja á milli tveggja hæfra umsækjenda í svo veigamikið embætti og því væri það fullkomlega eðlilegur rökstuðningur að framlengja umsóknarfrestinn. Í ljós hefur síðan komið að auglýsingin var aðeins birt einu sinni í Fréttablaðinu 17. júní og að umsóknarfresturinn var til 3. júlí.  Borgarráðsfulltrúar fengu ekki upplýsingar um umsækjendur fyrr en 17 dögum síðar og er það ekki til eftirbreytni.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlega athugasemd við óvönduð vinnubrögð vegna ráðningar borgarlögmanns. Athygli vekur að einungis tveir einstaklingar sóttu um embættið, sem er eitt hið mikilvægasta og best launaða innan borgarkerfisins. Staðan var aðeins auglýst einu sinni í einu dagblaði og kann það að vera skýringin á því að ekki sóttu fleiri um stöðuna. Mörg fordæmi eru fyrir því hjá Reykjavíkurborg að umsóknarfrestur sé framlengdur eða stöður auglýstar að nýju þegar um fáa umsækjendur er að ræða eða ef málsmeðferð stenst ekki gagnrýni eins og um er að ræða í þessu tilviki. Þrátt fyrir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað óskað eftir því að fá öll gögn málsins afhent var ekki orðið við því fyrr en í lok þessa fundar þegar málið var tekið á dagskrá. Sum gögn málsins voru að vísu send öðrum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kl. 19.38 í gærkvöldi en þar var hvorki að finna lágmarks grunngögn í ráðningarmálum, þ.e. umsóknir, þótt umsækjendur séu einungis tveir, né staðlaða samantektartöflu í ráðningarmálum þar sem helstu upplýsingar koma fram um umsækjendur, þ.e. nafn, aldur, menntun, fyrri störf og núverandi staða. Er slæmt til þess að vita að borgarstjórnarmeirihluti, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna, skuli með þessum vinnubrögðum halda áfram í þeim leiðangri sínum að draga úr gagnsæi í tengslum við ráðningar í mikilvægustu stöður í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar með því að takmarka upplýsingagjöf til borgarráðsmanna í tengslum við þær.

Flokkar: Stjórnsýsla borgarinnar

Miðvikudagur 23.5.2018 - 07:23 - FB ummæli ()

11 blekkingar borgarstjóra

1. “Staðfest áform” um íbúðarbyggingu skila sér í fullgerðum íbúðum á næstu árum.
Raunveruleikinn: Rangt. Það hafa aldrei verið jafn fáar íbúðir byggðar á neinu 8 ára tímabili í Reykjavík frá árinu 1929 eins og síðustu tvö kjörtímabil undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Þrátt fyrir öll staðfestu áformin.

2. Samfylkingin ætlar að bæta við leikskólaplássum með því að byggja nýja leikskóla.
Raunveruleikinn: Það vantar í hið minnsta 100 leikskólakennara og það hefur þurft að loka heilu deildunum á leikskólum á undanförnum árum. Þetta er ekki nýtt vandamál og borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ekkert gert til að bæta kjör starfsfólks leikskóla.

3. Íbúðauppbygging á þéttingarreitum skilar sér fljótlega í þéttari borg.
Raunveruleikinn: Íbúum í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur hefur fjölgað um þúsundir umfram Reykjavík á ári hverju um nokkurt skeið. Þétting á afmörkuðu svæði vestan Kringlumýrarbrautar mun ekki vinna gegn þessari þróun. Þvert í móti hefur íbúðaskortur í Reykjavík ýtt íbúum enn hraðar út í nágrannasveitarfélögin og jafnvel lengra út, t.d. á Reykjanes, Suðurland og Akranes.

4. Skuldir Reykjavíkurborgar hafa lækkað.
Raunveruleikinn: Skuldir Reykjavíkurborgar vegna daglegs rekstrar hafa hækkað þrátt fyrir að tekjur hafi aldrei verið meiri en Orkuveitan hefur lækkað skuldir stórlega. Vinstrimenn settu sérstaka undanþágu í lög 2012 sem undanskilja orkufyrirtæki frá skuldum sveitarfélaga þegar kemur að viðmiðunum fyrir að sveitarfélög missi fjárhagslegt sjálfstæði sitt. Þessi lög voru sett sérstaklega vegna skulda Orkuveitu Reykjavíkur. En nú vill borgarstjórn hinsvegar telja lækkun þessara skulda sér til tekna.

5. Met var slegið í úthlutunum lóða.
Raunveruleikinn: Það er auðvelt að slá met með þeirri aðferð að fresta úthlutunum fram á næsta ár. Hvað þá með því að slá met eftir sögulega litla úthlutun lóða í 3 ár í röð og koma svo til baka af krafti með uppsafnaðar úthlutanir. Ef kjörtímabilið er skoðað sem heild eru úthlutanir á lóðum vel undir meðallagi.

6. Borgarstjórn hefur tekist að lækka skuldir Orkuveitunnar.
Raunveruleikinn: Skuldir Orkuveitunnar þrettánfölduðust þegar gengi krónunnar var óhagstætt. Nú er gengi krónunnar betra og erlendar skuldir lægri. Borgarstjóra er ekki hægt að þakka þann efnahagslega viðsnúning á Íslandi sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar náði með baráttunni við vogunarsjóðina.

7. Yfirbygging hefur ekki aukist í borginni.
Raunveruleikinn: 85% aukning útgjalda hefur orðið hjá miðlægri stjórnsýslu borgarinnar og starfsmönnum hefur fjölgað.

8. Útþensla byggðar leiðir af sér fleiri bíla á Miklubrautina.
Raunveruleikinn: Þétting byggðar og atvinnustarfsemi kringum miðborgina leiðir af sér fleiri bíla á Miklubrautina. Uppbygging atvinnustarfsemi í úthverfum þarf að fylgja uppbyggingu íbúðabyggðar. Þá liggur umferðarstraumurinn ekki allur í sömu átt á álagstímum.

9. Nú er mesta upbyggingarskeið í sögu borgarinnar.
Raunveruleikinn: Það á ekki við um fullgerðar íbúðir. Ef meðaltal í fullgerðum íbúðum á ári er skoðað allt aftur til 1929, þá hafa síðustu 2 kjörtímabil, undir stjórn Dags verið undir meðallagi hvert ár af kjörtímabilinu.

10. Það er ekki nægt vinnuafl til að byggja íbúðir hraðar.
Raunveruleikinn: Skortur á vinnuafli virðist ekki standa nágrannasveitarfélögum fyrir þrifum að eiga met í íbúðaruppbyggingu. Ekki virðist heldur skorta vinnuafl til að reisa hótel. Ísland er í EES og það er nóg af vinnuafli að hafa.

11. Strætófarþegum hefur fjölgað.
Raunveruleikinn: Innstigum í strætó hefur fjölgað. En markmiðið sem lagt var upp með í samningi um stöðvun vegaframkvæmda 2012 hljóðaði upp á að auka hlutdeild strætó í ferðavenjum borgaranna. En sú hlutdeild hefur verið föst í 4% síðan ríkið fór að veita milljarði á ári til strætó.  Að innstigum hafi fjölgað á sama tíma er merki um að strætókerfið sé orðið óskilvirkara þannig að nú þarf hver farþegi að stíga upp í fleiri vagna til að komast leiðar sinnar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2018

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.5.2018 - 21:08 - FB ummæli ()

Hjarta allra landsmanna

Miðflokkurinn stendur vörð um flugvöllinn í Vatnsmýrinni – sjá hér

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.5.2018 - 14:27 - FB ummæli ()

Staðreyndir um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu

Árið 2012 var undirritaður samningur milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Þá var við völd ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Vinstri meirihluti sat í borginni og var Jón Gnarr titlaður borgarstjóri, þó allir vita að Dagur B. Eggertsson hafi gengt staðgengilshlutverki hans.

Hér er samningurinn eins og hann var samþykktur 7. maí 2012

Við undirritun afsöluðu sveitarfélögin öllu framkvæmdafé til viðhalds og uppbyggingar sem ríkið þó er ábyrgt fyrir. Samingurinn átti að efla almenningssamgöngur, 10 milljarðar á 10 árum.  Allt fjármagnið rennur til Strætó en fjölgun farþega hefur ekki orðið og verkefnið því ónýtt. Þessum 10 milljörðum er hent út um gluggan. Á meðfylgjandi mynd eftir Viðar Frey Guðmundsson, sést glögg myndrænt hversu samningurinn var galinn fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Hætt var við Miklubraut í stokk og Hlíðarfótsgöng þó þær samgöngubætur væru algjör forsenda uppbyggingar Landsspítalans við Hringbraut. Við í Miðflokknum lítum mjög alvarlegum augum á að Sundabraut hafi verið slegin út af borðinu og skiljum ekki þann gjörning að fórna henni fyrir tilraunaverkefnið með Strætó. Einnig var fjórum breikkunum á lykil stofnbrautum fórnað og sex mislægum gatnamótum þar sem slysatíðni er mjög há.

Líklega er Strætósamningurinn dýrasta og afdrifaríkasta tilraunaverkefni öryggislega séð, sem farið hefur verið í á Íslandi með tilheyrandi tapi fyrir íbúa höfuðborgarasvæðisins alls. Öryggi allra var fórnað því Vegagerðin lagði hart að borginni að hefja sína vinnu vegna lagningar Sundabrautar vegna öryggissjónarmiða.

Miðflokkurinn beitir sér fyrir fjölskylduvænum samgöngum og að öryggi allra vegfarenda verður að vera í öndvegi. Það ríkir ófremdarástand í borginni og hefur núverandi meirihluti markvisst unnið að því að tefja för fjölskyldubílsins með þrengingu gatna og óstilltra umferðarljósa. Miðflokkurinn ætlar að leysa almennan flæðisvanda umferðar í borginni með bestun umferðarljósa, fjölgun hringtorga og/eða mislægra gatnamóta og lagningu Sundabrautar um Sundagöng. Kjörnum fulltrúum ber skylda til þess að að hafa umferðarmál sveitarfélaganna í lagi til að gera tímann út i umferðinni sem bærilegastan fyrir fjölskyldurnar sem í sveitarfélaginu búa. Hindrunum umferðarflæðis á stofnæðum verður að ryðja úr vegi því allar óþarfa tafir auka mjög mengun í borginni. Göngubrýr eða undirgöng eru nauðsynleg t.d. á Miklubraut/Hringbraut. Óskiljanlegt er að ekki skuli vera búið að gera neitt í þessum málum svo árum skiptir nema að fjölga gönguljósum. Öryggi allra er í húfi – gangandi, hjólandi og keyrandi.

Við í Miðflokknum gerum alvarlegar athugasemdir við það hvernig samgöngumálum í borginni er háttað. Meirihlutinn skýlir sér á bak við ríkið í flestum málum er að samgöngum snúa og talar eingöngu fyrir borgarlínu og að hún eigi að leysa allan samgönguvanda.  Það er fullkomið ábyrgðarleysi og uppgjöf fyrir verkefninu og klúðrinu sem þau hafa komið borginni í. Þau eru ófær um að leysa málin og því er lífsnauðsynlegt að skipta nýju liði inn á völlinn. X-M fyrir fjölskyldurnar og fjölskyldubílinn.

Þessi grein birtist í DV þann 18. maí 2018

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.5.2018 - 10:27 - FB ummæli ()

Reykjavík er meira en 101

Skilaboð til Reykvíkinga sem búa austan Elliðarár

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.5.2018 - 13:52 - FB ummæli ()

Skilaboð til ykkar

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.5.2018 - 09:07 - FB ummæli ()

Hlutirnir hreyfast ekki í logni – X-M fyrir Grafarvog

Borgarstjórnarkosningar eru handan við hornið og þá er gott að rifja upp að allt sem gert hefur verið fyrir Grafarvog á yfirstandandi kjörtímabili hefur ekki verið barist fyrir af borgarfulltrúm þeirra sem stýra borginni heldur Grafarvogsbúum sjálfum.

Hlutirnir hreyfast ekki í logni og það þarf að hafa getu, þor og kraft til að láta hlutina gerast þegar inn í borgarstjórn er komið. Förum yfir það sem náðst hefur í gegn í Grafarvogi fyrir tilstilli Trausta Harðarsonar sem skipar 7. sætið á lista Miðflokksins. Stærsta og mikilvægasta verkefnið var að ná í gegn byggingu á nýju tvöföldu íþróttahúsi sem nú rís við Egilshöll fyrir boltaíþróttir Fjölnis og Borgarholtsskóla.

Þessi bygging byggði sig ekki sjálf og það voru ekki borgarfulltrúar Reykjavíkur sem keyrðu málið áfram fyrir hönd Grafarvogsbúa heldur íbúanir sjálfir og þar í fararbroddi var Trausti. Þegar ég var formaður fjárlaganefndar boðaði hann mig á fund og kynnti verkefnið fyrir mér ásamt öðrum áhrifamönnum frá ríkinu. Trausti tók málið upp á tugi funda, íþrótta-og tómstundaráða, hverfisráðs Grafarvogs sem og á borgarstjórnarfundum. Eins og Gravarvogsbúum er kunnugt um hefur Trausti setið sem varaborgarfulltrúi þess stjórnmálaflokks sem við bæði tilheyrðum áður.

Á næstu vikum opnar ný og glæsileg 23 metra löng vatnsrennibraut við Grafarvogssundlaug en hún var valin vinsælasta hugmynd fyrr og síðar í kosningunni Betra hverfi. Hún byggði sig ekki sjálf og fékk ekki einu sinni að fara í íbúakosningu fyrr en íbúarnir sjálfir tóku til sinna ráða. Mikil andstaða var frá borgarfulltrúum meirihlutans og embættismönnum borgarinnar.

Eins og áður var meðframbjóðandinn minn Trausti Harðarson sem leiddi lausn á þessu verkefni. Hann leitaði sjálfur eftir tilboðum í verkið, mældi fyrir staðsetningum og lét hanna mannvirkið á sama tíma þurfti hann að berjast við aðila innan borgarkerfisins sem voru mótfallnir hugmyndinni.

Sama á við um nýja og glæsilega barnavaðlaug sem bæta á við sundlaugasvæðið í beinu framhaldi af framkvæmdum á vatnsrennibrautinni og um samræmdan opnunartíma sundlaugar Grafarvogs við aðrar hverfissundlaugar Reykjavíkurborgar. Nú er opið alla daga til kl. 22:00 og náðist það í gegn eftir undirskriftarsöfnun hundruða Grafarvogsbúa.

Hér hef ég í örfáum orðum lýst því hvernig elja og samstaða Grafarvogsbúa hefur skilað sér inn í hverfið. Fleiri verkefni hafa verið á dagskrá eins og yfirbyggð áhorfendastúka við knattspyrnuvöll Fjölnis og fleira og fleira. Sama dag og tilkynnt var í fjölmiðlum að núverandi borgarstjórnarmeirihluti ætlaði að hefja framkvæmdir á Borgarlínunni fyrir 70 milljarða að lámarki sendi sami borgarstjórnarmeirihluti tilkynningu til Hverfisráðs Grafarvogs að leið 6 yrði stytt og að íbúar Korpúlfsstaðarhverfishluta Grafarvogs yrðu framvegis að taka strætó með Mosfellsbæ og að leið 6 myndi ekki fara að Egilshöll. Grafarvogsbúar mótmæltu af krafti og náðu sínu fram fyrir hverfið með einni undantekningu, því ekki náðist að sannfæra meirihlutann í borginni að íbúar Korpúlfsstaða væru hluti af Grafarvogi eða Reykjavík yfir höfuð.

Ég er meðvituð um eftir samtal við Grafarvogsbúa að skólalóðir þarf að laga og endurgera. Sumstaðar vantar leiktæki á skólalóðir og t.d. átti Húsaskóli að fá heildaruppfærslu á lóðinni s.l. ár en nú hafa þau skilaboð borist úr Ráðhúsinu að verkið verði unnið á nokkrum árum en yrði ekki lokið 2017 eins og lofað var. Mönnunarvandamál við leiksskólana í Grafarvogi má rekja m.a. til þeirra ákvörðunar að sameina þrjá leikskóla í einn og setja/láta einn skólastjóra yfir þá alla. Erfitt er fyrir skólastjórann að vera til staðar fyrir starfsfólk og foreldra sem gerir leikskólann minna aðlaðandi sem vinnustaði fyrir lærða leiksskólakennara sem og annað starfsfólk. Heitur matur fyrir eldriborgara í Eirborg um helgar var lagður niður af núverandi borgarstjórnarmeirihluta og máttu eldriborgarar fara niður á Vitatorg í 101 Reykjavík ef þeir vildu borða um helgar.

Framboð Miðflokksins í Reykjavík er framboð fyrir fjölskyldunar í úthverfunum. Við ætlum við að bæta gatnakerfið og stytta ferðatímann fyrir fjölskyldubílinn, margfalda húsnæði fyrir fjölskyldur í úthverfum borgarinnar og eitt mikilvægasta málið okkar er að tvöfalda Frístundakortið þannig að öll börn geti æft eina íþrótt gjaldfjálst. Við ætlum að fjölga kennslustundum í verk-, tækni- og listgreinum í grunnskólunum og stórefla Vinnuskóla fyrir 13-18 ára með auknu starfsvali. Við viljum forgangsraða fjármunum borgarinnar í grunnþjónustu fyrir öll hverfi borgarinnar. Þeir sem búa í eftir byggðum Reykjavíkur eru um 60.000 eða um helmingur borgarbúa. Við höfum sótt í að fá fólk með í framboðið sem þorir, kann og getur hreyft við hlutunum fyrir úthverfin. Hlutirnir hreyfast ekki í logni! X-M á kjördag.

Það er gjörsamlega ólíðandi að þeir sem búi í efri byggðum Reykjavíkur um 60 þúsund íbúar, eða helmingur borgarbúa þurfi að berjast með kjafti og klóm til að fá eitthvað gert í sínum hverfum. Íbúar Grafarvogs og annara úthverfa Reykjavíkr hafa möguleika á því í komandi borgarstjórnarkosningum að kjósa sína fulltrúa og þá sem berjast fyrir þeirra hverfum kjósi þeir Miðflokkinn.

Þessi grein hefur áður birtist í Grafarvogsblaðinu

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.5.2018 - 15:59 - FB ummæli ()

Er velferð í Reykjavík?

Á ferðum okkar í kosningabaráttunni höfum við frambjóðendur Miðflokksins séð margt sem hefur komið mjög á óvart. Á meðan verið er að byggja glæsibyggingar í 101 og þess freistað að fylla þær af dýrustu merkjavöru heims eru aðrir hlutar borgarinnar ekki eins flóðlýstir og glæsilegir.

Reykjavík er höfuðborg landsins og ber hún sem slík miklar skyldur gagnvart öllum íbúum þessa lands háum sem lágum. Höfuðborgarvandamál eru þekkt í öllum ríkjum heims. Líka í velferðarríkjum. Oftast viðurkenna stjórnvöld ekki vandann og láta eins og hann sé ekki til. Versta birtingamynd þessa í Reykjavík er líklega sú staðreynd að heimilislaus kona svaf í kjallara ráðhússins í marga mánuði án þess að þeir sem borginni stjórna hefðu gert eitthvað í málunum. Hundruðir eru óstaðsettir í hús í Reykjavík þ.e. þeir sem ekki eru með skráð lögheimili,  og fjölgun þeirra er hröð. Það verður að fara í meiriháttar átak til að koma fólki í húsasjól. Sumir hafa aðstöðu í Laugardalnum, sumir halla höfði sínu í Gistiskýlinu, Samhjálp rekur áfangaheimili, aðrir sofa í bílunum sínum.

Þegar þessi mál eru rædd þá er oftast sagt sem svo að þessum hópi sé ekki hægt að hjálpa vegna neyslu ímisskonar vímuefna. Það er rangt, sumir í þessum hópi stunda atvinnu, aðrir eru öryrkjar. Þessi hópur á það sameiginlegt að hafa ekki ráð á því að eiga eða leigja húsnæði. Sumir misstu húsnæðið sitt árin eftir bankahrunið. Þetta er fólk eins og við öll og á við tímabundna erfiðleika að stríða.

Er þetta sú velferð sem við viljum sjá? Er þetta boðlegt í okkar ríka landi? Er þetta mannúðin sem talað er um á hátíðarstundum? Við í Miðflokknum viðurkennum aukið vandamál vegna vímuefnaneyslu og fjölgun heimilislausra og ætlar að beita sér í baráttunni gegn þessu þjóðfélagsmeini. Við ætlum að beita okkur fyrir því að Reykjavíkurborg óski eftir samstarfi við SÁÁ og aðra fagaðila í samráði við ríkið og önnur sveitarfélög til að vinna bug á þessu vandamáli. Við ætlum að koma á fót virkniúrræði fyrir einstaklinga sem eru að koma inn í samfélagið á nýjan leik að lokinni meðferð eða betrunarvist og finna varanlegra lausn í málefnum heimilislausra og útigangsfólks í samstarfi við fagaðila og félagasamtök. Lykillinn að því að koma þessum málum í lag er að byggja upp félagslegt húsnæði og leggja til bráðalausnir í húsnæðismálum. Að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft er besta lækningin í lífi þeirra sem eiga í þeim tímabundnu vandamálum sem að ofan greinir.

Miðflokkurinn ætlar að taka til í þessum málaflokki.

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 8. maí

Flokkar: Velferðarmál

Fimmtudagur 3.5.2018 - 18:38 - FB ummæli ()

Aldur er bara tala á blaði

Hér er grein eftir mig og Jón Hjaltalín Magnússon sem birtist á vefsvæðinu lifðununa.is

Ég verð fulltrúi Miðflokksins á fundi Félags eldri borgara á fundi sem félagið stendur fyrir í Tjarnarsal Ráðhússins n.k. laugardag 5. maí, kl. 10:30

Hvet alla sem hafa áhuga á málaflokknum að mæta og bera upp spurningar fyrir okkur frambjóðendur til borgarstjórnarkosningarnar

 

Flokkar: Velferðarmál

Þriðjudagur 1.5.2018 - 11:28 - FB ummæli ()

X-M fyrir velferð í Reykjavík

Miðflokkurinn viðurkennir aukið vandamál vegna vímuefnaneyslu og fjölgun heimilislausra og ætlar að beita sér í baráttunni gegn þessu þjóðfélagsmeini.

  • Miðflokkurinn ætlar að beita sér fyrir því að Reykjavíkurborg óski eftir samstarfi við SÁÁ og aðra fagaðila í samráði við ríkið og önnur sveitarfélög.
  • Miðflokkurinn ætlar að koma á fót virkniúrræði fyrir einstaklinga sem eru að koma inn í samfélagið á nýjan leik að lokinni meðferð eða betrunarvist.
  • Miðflokkurinn ætlar að gera skólastjórnendur ábyrga fyrir að leysa úr eineltismálum í skólum borgarinnar.
  • Miðflokkurinn ætlar að beita sér fyrir varanlegri lausn í málefnum heimilislausra og útigangsfólks í samstarfi við fagaðila og félagasamtök.
  • Miðflokkurinn ætlar að beita sér fyrir því að í Reykjavík verði veitt vönduð geðheilbrigðisþjónusta þar sem einstaklingurinn er hafður í öndvegi. Áhersla verður lögð á forvarnir, fræðslu, snemmtæka íhlutun og eftirfylgd á öllum stigum skólakerfis.
  • Miðflokkurinn ætlar að efla Félagsbústaðakerfið.
  • Miðflokkurinn ætlar að efla þjónustu geðhjúkrunarfræðinga og/eða sálfræðinga í grunn- og framhaldsskólum. Mikilvægt að börn viti að geðsjúkdómar er ekki tabú og það er í lagi að ræða þá.
  • Miðflokkurinn ætlar að beita sér fyrir fjölgun úrræða fyrir börn og unglinga sem eru háð vímuefnum, og efla í leiðinni fjölskyldumeðferð í tengslum við þessa þætti.
  • Miðflokkurinn mun beita sér fyrir því að Barnavernd verði færð aftur út í þjónustumiðstöðvar til að auka nánd við íbúa og samvinnu við yfirvöld í hverfunum.
  • Miðflokkurinn vill taka upp að nýju forvarnarstarf lögreglunnar í leik- og grunnskólum borgarinnar.

Flokkar: Óflokkað · Velferðarmál

Höfundur

Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir er borgarfulltrúi Miðflokksins, hún sat á þingi á árunum 2009 til 2016 og var meðal annars formaður fjárlaganefndar frá 2013.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir