Borgarstjórnarkosningar eru handan við hornið og þá er gott að rifja upp að allt sem gert hefur verið fyrir Grafarvog á yfirstandandi kjörtímabili hefur ekki verið barist fyrir af borgarfulltrúm þeirra sem stýra borginni heldur Grafarvogsbúum sjálfum.
Hlutirnir hreyfast ekki í logni og það þarf að hafa getu, þor og kraft til að láta hlutina gerast þegar inn í borgarstjórn er komið. Förum yfir það sem náðst hefur í gegn í Grafarvogi fyrir tilstilli Trausta Harðarsonar sem skipar 7. sætið á lista Miðflokksins. Stærsta og mikilvægasta verkefnið var að ná í gegn byggingu á nýju tvöföldu íþróttahúsi sem nú rís við Egilshöll fyrir boltaíþróttir Fjölnis og Borgarholtsskóla.
Þessi bygging byggði sig ekki sjálf og það voru ekki borgarfulltrúar Reykjavíkur sem keyrðu málið áfram fyrir hönd Grafarvogsbúa heldur íbúanir sjálfir og þar í fararbroddi var Trausti. Þegar ég var formaður fjárlaganefndar boðaði hann mig á fund og kynnti verkefnið fyrir mér ásamt öðrum áhrifamönnum frá ríkinu. Trausti tók málið upp á tugi funda, íþrótta-og tómstundaráða, hverfisráðs Grafarvogs sem og á borgarstjórnarfundum. Eins og Gravarvogsbúum er kunnugt um hefur Trausti setið sem varaborgarfulltrúi þess stjórnmálaflokks sem við bæði tilheyrðum áður.
Á næstu vikum opnar ný og glæsileg 23 metra löng vatnsrennibraut við Grafarvogssundlaug en hún var valin vinsælasta hugmynd fyrr og síðar í kosningunni Betra hverfi. Hún byggði sig ekki sjálf og fékk ekki einu sinni að fara í íbúakosningu fyrr en íbúarnir sjálfir tóku til sinna ráða. Mikil andstaða var frá borgarfulltrúum meirihlutans og embættismönnum borgarinnar.
Eins og áður var meðframbjóðandinn minn Trausti Harðarson sem leiddi lausn á þessu verkefni. Hann leitaði sjálfur eftir tilboðum í verkið, mældi fyrir staðsetningum og lét hanna mannvirkið á sama tíma þurfti hann að berjast við aðila innan borgarkerfisins sem voru mótfallnir hugmyndinni.
Sama á við um nýja og glæsilega barnavaðlaug sem bæta á við sundlaugasvæðið í beinu framhaldi af framkvæmdum á vatnsrennibrautinni og um samræmdan opnunartíma sundlaugar Grafarvogs við aðrar hverfissundlaugar Reykjavíkurborgar. Nú er opið alla daga til kl. 22:00 og náðist það í gegn eftir undirskriftarsöfnun hundruða Grafarvogsbúa.
Hér hef ég í örfáum orðum lýst því hvernig elja og samstaða Grafarvogsbúa hefur skilað sér inn í hverfið. Fleiri verkefni hafa verið á dagskrá eins og yfirbyggð áhorfendastúka við knattspyrnuvöll Fjölnis og fleira og fleira. Sama dag og tilkynnt var í fjölmiðlum að núverandi borgarstjórnarmeirihluti ætlaði að hefja framkvæmdir á Borgarlínunni fyrir 70 milljarða að lámarki sendi sami borgarstjórnarmeirihluti tilkynningu til Hverfisráðs Grafarvogs að leið 6 yrði stytt og að íbúar Korpúlfsstaðarhverfishluta Grafarvogs yrðu framvegis að taka strætó með Mosfellsbæ og að leið 6 myndi ekki fara að Egilshöll. Grafarvogsbúar mótmæltu af krafti og náðu sínu fram fyrir hverfið með einni undantekningu, því ekki náðist að sannfæra meirihlutann í borginni að íbúar Korpúlfsstaða væru hluti af Grafarvogi eða Reykjavík yfir höfuð.
Ég er meðvituð um eftir samtal við Grafarvogsbúa að skólalóðir þarf að laga og endurgera. Sumstaðar vantar leiktæki á skólalóðir og t.d. átti Húsaskóli að fá heildaruppfærslu á lóðinni s.l. ár en nú hafa þau skilaboð borist úr Ráðhúsinu að verkið verði unnið á nokkrum árum en yrði ekki lokið 2017 eins og lofað var. Mönnunarvandamál við leiksskólana í Grafarvogi má rekja m.a. til þeirra ákvörðunar að sameina þrjá leikskóla í einn og setja/láta einn skólastjóra yfir þá alla. Erfitt er fyrir skólastjórann að vera til staðar fyrir starfsfólk og foreldra sem gerir leikskólann minna aðlaðandi sem vinnustaði fyrir lærða leiksskólakennara sem og annað starfsfólk. Heitur matur fyrir eldriborgara í Eirborg um helgar var lagður niður af núverandi borgarstjórnarmeirihluta og máttu eldriborgarar fara niður á Vitatorg í 101 Reykjavík ef þeir vildu borða um helgar.
Framboð Miðflokksins í Reykjavík er framboð fyrir fjölskyldunar í úthverfunum. Við ætlum við að bæta gatnakerfið og stytta ferðatímann fyrir fjölskyldubílinn, margfalda húsnæði fyrir fjölskyldur í úthverfum borgarinnar og eitt mikilvægasta málið okkar er að tvöfalda Frístundakortið þannig að öll börn geti æft eina íþrótt gjaldfjálst. Við ætlum að fjölga kennslustundum í verk-, tækni- og listgreinum í grunnskólunum og stórefla Vinnuskóla fyrir 13-18 ára með auknu starfsvali. Við viljum forgangsraða fjármunum borgarinnar í grunnþjónustu fyrir öll hverfi borgarinnar. Þeir sem búa í eftir byggðum Reykjavíkur eru um 60.000 eða um helmingur borgarbúa. Við höfum sótt í að fá fólk með í framboðið sem þorir, kann og getur hreyft við hlutunum fyrir úthverfin. Hlutirnir hreyfast ekki í logni! X-M á kjördag.
Það er gjörsamlega ólíðandi að þeir sem búi í efri byggðum Reykjavíkur um 60 þúsund íbúar, eða helmingur borgarbúa þurfi að berjast með kjafti og klóm til að fá eitthvað gert í sínum hverfum. Íbúar Grafarvogs og annara úthverfa Reykjavíkr hafa möguleika á því í komandi borgarstjórnarkosningum að kjósa sína fulltrúa og þá sem berjast fyrir þeirra hverfum kjósi þeir Miðflokkinn.
Þessi grein hefur áður birtist í Grafarvogsblaðinu
Nýlegar athugasemdir