1. “Staðfest áform” um íbúðarbyggingu skila sér í fullgerðum íbúðum á næstu árum.
Raunveruleikinn: Rangt. Það hafa aldrei verið jafn fáar íbúðir byggðar á neinu 8 ára tímabili í Reykjavík frá árinu 1929 eins og síðustu tvö kjörtímabil undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Þrátt fyrir öll staðfestu áformin.
2. Samfylkingin ætlar að bæta við leikskólaplássum með því að byggja nýja leikskóla.
Raunveruleikinn: Það vantar í hið minnsta 100 leikskólakennara og það hefur þurft að loka heilu deildunum á leikskólum á undanförnum árum. Þetta er ekki nýtt vandamál og borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ekkert gert til að bæta kjör starfsfólks leikskóla.
3. Íbúðauppbygging á þéttingarreitum skilar sér fljótlega í þéttari borg.
Raunveruleikinn: Íbúum í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur hefur fjölgað um þúsundir umfram Reykjavík á ári hverju um nokkurt skeið. Þétting á afmörkuðu svæði vestan Kringlumýrarbrautar mun ekki vinna gegn þessari þróun. Þvert í móti hefur íbúðaskortur í Reykjavík ýtt íbúum enn hraðar út í nágrannasveitarfélögin og jafnvel lengra út, t.d. á Reykjanes, Suðurland og Akranes.
4. Skuldir Reykjavíkurborgar hafa lækkað.
Raunveruleikinn: Skuldir Reykjavíkurborgar vegna daglegs rekstrar hafa hækkað þrátt fyrir að tekjur hafi aldrei verið meiri en Orkuveitan hefur lækkað skuldir stórlega. Vinstrimenn settu sérstaka undanþágu í lög 2012 sem undanskilja orkufyrirtæki frá skuldum sveitarfélaga þegar kemur að viðmiðunum fyrir að sveitarfélög missi fjárhagslegt sjálfstæði sitt. Þessi lög voru sett sérstaklega vegna skulda Orkuveitu Reykjavíkur. En nú vill borgarstjórn hinsvegar telja lækkun þessara skulda sér til tekna.
5. Met var slegið í úthlutunum lóða.
Raunveruleikinn: Það er auðvelt að slá met með þeirri aðferð að fresta úthlutunum fram á næsta ár. Hvað þá með því að slá met eftir sögulega litla úthlutun lóða í 3 ár í röð og koma svo til baka af krafti með uppsafnaðar úthlutanir. Ef kjörtímabilið er skoðað sem heild eru úthlutanir á lóðum vel undir meðallagi.
6. Borgarstjórn hefur tekist að lækka skuldir Orkuveitunnar.
Raunveruleikinn: Skuldir Orkuveitunnar þrettánfölduðust þegar gengi krónunnar var óhagstætt. Nú er gengi krónunnar betra og erlendar skuldir lægri. Borgarstjóra er ekki hægt að þakka þann efnahagslega viðsnúning á Íslandi sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar náði með baráttunni við vogunarsjóðina.
7. Yfirbygging hefur ekki aukist í borginni.
Raunveruleikinn: 85% aukning útgjalda hefur orðið hjá miðlægri stjórnsýslu borgarinnar og starfsmönnum hefur fjölgað.
8. Útþensla byggðar leiðir af sér fleiri bíla á Miklubrautina.
Raunveruleikinn: Þétting byggðar og atvinnustarfsemi kringum miðborgina leiðir af sér fleiri bíla á Miklubrautina. Uppbygging atvinnustarfsemi í úthverfum þarf að fylgja uppbyggingu íbúðabyggðar. Þá liggur umferðarstraumurinn ekki allur í sömu átt á álagstímum.
9. Nú er mesta upbyggingarskeið í sögu borgarinnar.
Raunveruleikinn: Það á ekki við um fullgerðar íbúðir. Ef meðaltal í fullgerðum íbúðum á ári er skoðað allt aftur til 1929, þá hafa síðustu 2 kjörtímabil, undir stjórn Dags verið undir meðallagi hvert ár af kjörtímabilinu.
10. Það er ekki nægt vinnuafl til að byggja íbúðir hraðar.
Raunveruleikinn: Skortur á vinnuafli virðist ekki standa nágrannasveitarfélögum fyrir þrifum að eiga met í íbúðaruppbyggingu. Ekki virðist heldur skorta vinnuafl til að reisa hótel. Ísland er í EES og það er nóg af vinnuafli að hafa.
11. Strætófarþegum hefur fjölgað.
Raunveruleikinn: Innstigum í strætó hefur fjölgað. En markmiðið sem lagt var upp með í samningi um stöðvun vegaframkvæmda 2012 hljóðaði upp á að auka hlutdeild strætó í ferðavenjum borgaranna. En sú hlutdeild hefur verið föst í 4% síðan ríkið fór að veita milljarði á ári til strætó. Að innstigum hafi fjölgað á sama tíma er merki um að strætókerfið sé orðið óskilvirkara þannig að nú þarf hver farþegi að stíga upp í fleiri vagna til að komast leiðar sinnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2018
Nýlegar athugasemdir