Á ferðum okkar í kosningabaráttunni höfum við frambjóðendur Miðflokksins séð margt sem hefur komið mjög á óvart. Á meðan verið er að byggja glæsibyggingar í 101 og þess freistað að fylla þær af dýrustu merkjavöru heims eru aðrir hlutar borgarinnar ekki eins flóðlýstir og glæsilegir.
Reykjavík er höfuðborg landsins og ber hún sem slík miklar skyldur gagnvart öllum íbúum þessa lands háum sem lágum. Höfuðborgarvandamál eru þekkt í öllum ríkjum heims. Líka í velferðarríkjum. Oftast viðurkenna stjórnvöld ekki vandann og láta eins og hann sé ekki til. Versta birtingamynd þessa í Reykjavík er líklega sú staðreynd að heimilislaus kona svaf í kjallara ráðhússins í marga mánuði án þess að þeir sem borginni stjórna hefðu gert eitthvað í málunum. Hundruðir eru óstaðsettir í hús í Reykjavík þ.e. þeir sem ekki eru með skráð lögheimili, og fjölgun þeirra er hröð. Það verður að fara í meiriháttar átak til að koma fólki í húsasjól. Sumir hafa aðstöðu í Laugardalnum, sumir halla höfði sínu í Gistiskýlinu, Samhjálp rekur áfangaheimili, aðrir sofa í bílunum sínum.
Þegar þessi mál eru rædd þá er oftast sagt sem svo að þessum hópi sé ekki hægt að hjálpa vegna neyslu ímisskonar vímuefna. Það er rangt, sumir í þessum hópi stunda atvinnu, aðrir eru öryrkjar. Þessi hópur á það sameiginlegt að hafa ekki ráð á því að eiga eða leigja húsnæði. Sumir misstu húsnæðið sitt árin eftir bankahrunið. Þetta er fólk eins og við öll og á við tímabundna erfiðleika að stríða.
Er þetta sú velferð sem við viljum sjá? Er þetta boðlegt í okkar ríka landi? Er þetta mannúðin sem talað er um á hátíðarstundum? Við í Miðflokknum viðurkennum aukið vandamál vegna vímuefnaneyslu og fjölgun heimilislausra og ætlar að beita sér í baráttunni gegn þessu þjóðfélagsmeini. Við ætlum að beita okkur fyrir því að Reykjavíkurborg óski eftir samstarfi við SÁÁ og aðra fagaðila í samráði við ríkið og önnur sveitarfélög til að vinna bug á þessu vandamáli. Við ætlum að koma á fót virkniúrræði fyrir einstaklinga sem eru að koma inn í samfélagið á nýjan leik að lokinni meðferð eða betrunarvist og finna varanlegra lausn í málefnum heimilislausra og útigangsfólks í samstarfi við fagaðila og félagasamtök. Lykillinn að því að koma þessum málum í lag er að byggja upp félagslegt húsnæði og leggja til bráðalausnir í húsnæðismálum. Að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft er besta lækningin í lífi þeirra sem eiga í þeim tímabundnu vandamálum sem að ofan greinir.
Miðflokkurinn ætlar að taka til í þessum málaflokki.
Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 8. maí
Nýlegar athugasemdir