Laugardagur 25.10.2014 - 15:47 - Lokað fyrir ummæli

Átök á stjórnarheimilinu um Landsbankabréf

Málefni Landsbankans, þar á meðal úrvinnsla Icesave og skuldabréf milli gamla og nýja bankans, ætla að verða lífseigt viðfangsefni í umræðunni.

Nú síðast er það að frétta að slitastjórn gamla bankans (hér eftir nefndur LBI) hefur enn framlengt frest stjórnvalda til að svara því hvort fallist verði á samkomulag LBI og Landsbankans nýja um lengingu skuldabréfs þeirra á milli. Samkomulagið var upphaflega tilkynnt 8. maí sl. og frestur til svara veittur til 30. september. Þann dag var fresturinn framlengdur til 24. október og nú hefur lokafrestur verið veittur í viku í viðbót, þ.e. til 31. október nk. Ljóst er að málið vefst fyrir ríkisstjórninni og leiða má að því líkur að það sé umdeilt innan hennar.

Ef skuldabréfið verður ekki lengt þarf nýi Landsbankinn að standa við afborganir af því eins og það liggur fyrir. Um bréfið var samið 2009 og upphæð þess miðar við heimtur lánasafna eins og þær voru endanlega gerðar upp í apríl 2013. Þó bankinn eigi talsvert af reiðufé og seljanlegum eignum í erlendum gjaldeyri mun hann að óbreyttu ekki geta greitt svo hratt af skuldabréfinu sem skilmálar þess kveða á um. Hann myndi því þurfa að fá fyrirgreiðslu, lán eða eiginfjárframlag í gjaldeyri, frá Seðlabanka og/eða ríkissjóði til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Það rýrir gjaldeyrisforða til skemmri tíma og getur sent óæskileg skilaboð til umheimsins um að íslenskir bankar séu enn hjálpar þurfi, sem aftur torveldar þeim að fjármagna sig á eigin spýtur á mörkuðum erlendis.

Ef samkomulagið um lengingu skuldabréfsins verður aftur á móti samþykkt getur Landsbankinn vel staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt því, og greiðslujöfnuður þjóðarbúsins sleppur þá jafnframt fyrir horn skv. greiningu Seðlabankans (sjá Fjármálastöðugleiki 2014/2, bls. 14-15). Vextir af skuldabréfinu hækka raunar á seinni hluta gildistíma þess en reikna má með að Landsbankinn leiti endurfjármögnunar erlendis og greiði þá bréfið upp áður en til þeirra greiðslna kemur. Bæði Íslandsbanki og Arion banki hafa sótt fé eftir hrun á erlenda markaði á ágætum kjörum.

Af hverju er þetta mál þá að bögglast fyrir ríkisstjórninni?

Fyrir því gætu verið tvær, hugsanlega samverkandi, ástæður.

Í fyrsta lagi fylgir sá böggull skammrifi að slitastjórn LBI óskar samhliða samkomulaginu eftir undanþágum til að greiða út þær forgangskröfur sem eftir standa (612 milljarða; 716 milljarðar hafa áður verið greiddir) og ljúka þar með uppgjöri þeirra. Þetta er raunar miklu hóflegri og skiljanlegri beiðni en margur vill vera að láta. Bæði Kaupþing og Glitnir hafa fyrir allnokkru lokið uppgjöri forgangskrafna. LBI á sáralítið af íslenskum krónum og því snýst þessi beiðni fyrst og fremst um að greiða út reiðufé í gjaldeyri sem búið á og hefur þegar aflað. Sú greiðsla hefur lítil sem engin áhrif á viðskiptajöfnuð íslenska þjóðarbúsins eða gengi okkar viðkvæmu krónu, enda eignast erlendir aðilar þá ekki mikið magn króna sem þeir vilja losna við sem fyrst.

Kannski aftrar það stjórnvöldum að hér er um að ræða höfuðstól hinna frægu Icesave-innlána, sem loksins er þá verið að gera upp. Ef til vill líta þau á það sem einhvers konar pólitískan ómöguleika eða hnekki fyrir sig að Icesave-höfuðstóllinn hafi ekki horfið úr sögunni með dómi EFTA-dómstólsins? Hver veit, en a.m.k. er gott að árétta enn einu sinni að það fé sem hér um ræðir kemur úr slitabúi Landsbankans gamla (m.a. frá fólkinu sem lagði inn á Icesave-reikninga á sínum tíma), ekki frá skattgreiðendum. (Og sá hluti þessa fjár sem nam lágmarkstryggingu innistæðna og deilt var um í Icesave-málinu var fullgreiddur úr hinum fallna banka haustið 2012.)

Í öðru lagi er enn að spauga innan herbúða stjórnarliðsins hugmynd sem kölluð hefur verið „gjaldþrotaleiðin“. Nú ber fyrst að minna á að allir eru sammála um að semja þurfi um verulega afskrift krónueigna sem koma í hlut erlendra kröfuhafa við uppgjör hinna föllnu banka. Veturinn og vorið 2013 voru uppi hugmyndir og þreifingar um a.m.k. 75% „hárskurð“ af krónueignunum, þannig að í stað 400 milljarða í krónum fengju kröfuhafar e.t.v. gjaldeyri að andvirði 100 milljarða en gæfu eftir 300 milljarða króna til að loka nauðasamningum og losna út. Vegna óumdeilanlegrar veikrar stöðu efnahagsmála og krónunnar eru góðar líkur á að unnt verði að semja um slíka lausn á einkaréttarlegum grundvelli og með þeim hætti að ekki verði eftirmál fyrir dómstólum.

Þetta nægir hins vegar ekki talsmönnum „gjaldþrotaleiðarinnar“, heldur vilja þeir einnig fá „hárskurð“ af gjaldeyriseignum hinna föllnu banka. Andlag „hárskurðarins“ er þá ekki 400 milljarðar, heldur allt að 2.500 milljarðar. Framkvæmdin yrði þannig að með einhverjum hætti yrðu bankarnir teknir til gjaldþrotaskipta (þrátt fyrir andstöðu kröfuhafa sem vilja ljúka nauðasamningi), skiptastjórar myndu selja Seðlabankanum allar gjaldeyriseignir (þrátt fyrir andstæð fyrirmæli kröfuhafa á skiptafundi) og fá krónur í staðinn, þær krónur yrðu innilokaðar á sérstökum vaxtalausum reikningum í Seðlabanka og fengjust ekki út úr landinu nema fyrir þær yrði aftur keyptur gjaldeyrir á mjög lágu gengi krónu. Niðurstaðan af öllu saman yrði að Seðlabankinn eignaðist hluta af gjaldeyriseignum hinna föllnu banka. Kenningin er sú að þetta sé unnt án þess að stríða gegn eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar, lögum um gjaldþrotaskipti, alþjóðlegum sáttmálum um kröfurétt, fyrirheitum stjórnvalda o.s.frv., – og að aðrar beinar og óbeinar afleiðingar slíkra áforma yrðu ekki verulega íþyngjandi fyrir þjóðarbúið.

Mér sýnist að á stjórnarheimilinu fari nú fram barátta milli hófsamari afla, sem eigi frekar samúð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, annars vegar, og hins vegar róttækari arms sem tengist fremur Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Davíð Oddssyni ritstjóra Morgunblaðsins, og vill fara „gjaldþrotaleiðina“. Átökin munu kristallast í afstöðu til undanþágubeiðnar slitastjórnar LBI; hún er toppurinn á ísjakanum. Það verður forvitnilegt að sjá hvort vængurinn verður ofan á þegar ákvörðun verður tilkynnt eigi síðar en 31. október nk.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (49)

 • Þórhallur Kristjánsson

  Bjarni hefur sagt að það verði að finna heildstæða lausn varðandi gjaldeyrishöftin með samkomulagi allra aðila. Það gengur ekki að veita einum undanþágu en öðrum ekki. Um þetta snýst málið. Kröfuhafar gamla Landsbankans eru að þrýsta á að fá undanþágu með því að bjóðast til þess að lengja í skuldabréfinu. Ég get ekki séð að það sé sniðugt að veita þeim undanþágu og skapa fordæmi.

  Eins og þú segir þá á Landsbankinn talsverðar gjaldeyriseignir upp í þetta skuldabréf. Seðlabankinn er með um 400 milljarða gjaldeyrisvarasjóð sem ekki hefur verið notaður. Ég sé ekki mikla áhættu við það að segja nei við spurningunni um undanþáguna. Ef Landsbankinn getur ekki á næstu tveim árum fjármagnað sig á opnum markaði þá á Seðlabankinn nægan forða til þess að hjálpa til. Hægt að spyrja sig til hvers er Seðlabankinn með þessa hundruð milljarða í gjaldeyrisforða ef aldrei stendur til að nota hann.

  Í dag virðist vera störukeppni milli allra kröfuhafanna og stjórnvalda. Okkur liggur ekkert á og þurfum ekki að láta þvinga okkur til þess að taka afdrifaríkar ákvarðanir í næstu viku. Segjum því nei og sjáum til hvað gerist.

  • Allir bankarnir þrír hafa hingað til fengið undanþágur til að greiða forgangskröfuhöfum, Þórhallur. Síðasta undanþága var veitt Landsbankanum í september 2013, eftir að núverandi ríkisstjórn tók við. Það væri þvert á móti viðsnúningur að hætta núna að veita slíkar undanþágur, þegar fordæmin liggja fyrir. Það þarf líka að hafa í huga að banki getur ekki farið í nauðasamninga fyrr en forgangskröfur hafa verið greiddar. Á að stöðva Landsbankann en fara í nauðasamninga við hina tvo? Eða er þá planið að fara ekki í neina nauðasamninga? Og hvað ætla menn að græða á því að greiða ekki forgangskröfur (innistæður), sem Neyðarlögin þó settu í forgang væntanlega til að tryggja að þær yrðu greiddar? Ég get skilið að staðan sé önnur varðandi almennu kröfurnar, þær eru nokkuð annars eðlis.

   • Þessi undanþága frá September 2013 sem þú vísar til Vilhjálmur var vegna fyrri samninga, þ.e.a.s. þetta voru dreggjar fyrri undanlátssemi við kröfuhafana.

    Eins Þórhallur bendir réttilega á þá hafa kröfuhafar engan rétt á því að fá einhverjar undanþágur frá gjaldeyrishöftunum á meðan almennir íslenskir ríkisborgarar þurfa að standa í biðröð.

    Það hvort að evrurnar í sem þrotabúin eiga eru erlendis eða á Vopnafirði skiptir engu máli, þrotabúin eru íslensk og hlýta því sömu lögum og íslendingar.

    Sannir jafnaðarmenn ættu að skilja það. 😉

    • Árétta má að eignir föllnu bankanna féllu undir slitastjórnirnar áður en gjaldeyrishöftin voru sett á. Það er því engin skilaskylda á gjaldeyri í eigu búanna eins og sumir hafa haldið fram, frekar en það er skilaskylda á gjaldeyri í eigu lífeyrissjóða, lögaðila eða einstaklinga sem þeir áttu áður en höftin voru sett á.

     Hins vegar þarf undanþágu fyrir útgreiðslum til kröfuhafa skv. lögum sem fyrri ríkisstjórn setti 12. mars 2012, og Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn (en Framsókn sat hjá).

     Langstærsti kröfuhafi í bú Landsbankans er breski innistæðutryggingasjóðurinn FSCS. Þar til fyrir skemmstu var hollenski seðlabankinn DNB næststærstur en hann hefur nýlega selt kröfu sína öðrum (óþekktum aðilum) í gegn um Deutsche Bank. Í hópi minni forgangskröfuhafa eru ýmsir hollenskir aðilar, til dæmis sveitarfélög, áberandi enda tryggði hollenski sjóðurinn ekki innistæður umfram 100.000 EUR.

     Markmiðið með þessu öllu saman hlýtur að vera að færast nær þeim degi að íslenskir ríkisborgara þurfi ekki að standa í biðröð eftir gjaldeyri. Hvernig hjálpar það til að þverskallast við að greiða forgangskröfur í Landsbankann og koma þannig í veg fyrir nauðasamninga?

     • Íslensku þrotabúin geta millifært gjaldeyri erlendis þegar venjulegir íslendingar geta millifært gjaldeyri erlendis.

      Jafnræði heitir það víst.

     • Þetta eru ósambærilegir hlutir, Kalli. Í tilviki LBI er um að ræða reiðufé í gjaldeyri sem þegar er til, að mestu leyti geymdur erlendis, og er eign forgangskröfuhafanna skv. gjaldþrotalögum. Verið er að æskja leyfis til að færa það fé til eigenda sinna enda ógnar sú ráðstöfun ekki fjármálastöðugleika á Íslandi, frekar en fyrri útgreiðslur forgangskrafna sem gengið hafa slysalaust fyrir sig. LBI á jú sáralítið af krónum og því ekki um að ræða útgönguþrýsting á krónuna.

      Í tilviki íslenskra lögaðila ertu að vísa til þess að þeir fái að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir íslenskar krónur og fara með hann úr landi. Það er ekki sami hlutur. Ef það yrði leyft einn daginn án frekari undirbúnings myndu margir vilja troða sér út um þröngar dyr, krónan myndi veikjast, verðbólga taka stökk og verðtryggð lán heimila hækka að krónutölu. Það gera menn ekki, vegna þess að það ógnar fjármálastöðugleika. (Svona er nú krónan okkar yndisleg.) En þar á sem sagt annað við en í tilviki forgangskrafna í LBI og varúðin á sér aðrar orsakir.

     • Það er ekki rétt að fé gömlu bankanna sé í eigu kröfuhafa. Það er í eigu þrotabúsins, kröfuhafar eiga einungis kröfu í það.

      Þrotabúin eiga allar eignir og fé gömlu bankanna, innlendar og erlendar. Þrotabúin eru íslensk og hlíta því íslenskum lögum. Alveg eins og íslenskur almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir.

      Afhverju í ósköpunum ættu íslensk yfirvöld að horfa á alla biðröðina fyrir aftan gjadleyrishöftin og hleypa kröfuhöfum fram fyrir í röðinni!

      Það þýðir ekkert fyrir mig, né þrotabúin, að labba uppí Seðlabanka og segja að milljón evrurnar sem ég ætla að millifæra til Kurt frænda í Berlín skipti engu máli fyrir Ísland því ég sé þegar með evrurnar í vasanum!

     • Gjaldþrotaskipti eru skilgreind í lögfræðinni sem sameiginleg fullnustugerð kröfuhafa á hendur hinum gjaldþrota aðila. Sem sagt, aðgerð til að koma eignum í verð og úthluta þeim til kröfuhafa að réttri tiltölu. Enginn utanaðkomandi aðili á neinn rétt til hlutar í því ferli.

      En geturðu útskýrt fyrir mér nákvæmlega hvað það er sem á að vera unnið með því að hindra útgreiðslu forgangskrafna í LBI? Hver á að græða á því og hvernig? Hver er tilgangurinn?

     • Það er álíka og að spyrja afhverju ákveðnir erlendir ferðamenn megi ekki keyra hraðar en aðrir á þjóðvegum landsins.

      Gjaldeyrishöftin eru vandamál sem verða einungis leyst með sameiginlegu átaki allra. Að halda því fram að ákveðnir hópar eigi „að fara fyrstir í bátana“ og sigla burt nær náttúrulega engri átt.

     • Þú svarar ekki spurningunni um hvað eigi að vera unnið með því að hindra uppgjör forgangskrafna í Landsbankann, Kalli. Hvernig græðir almenningur á þeirri stöðu?

      Gjaldeyrishöftin eru til þess gerð að koma í veg fyrir að fólk selji krónurnar sínar fyrir gjaldeyri. Krónan þolir það ekki, hún myndi veikjast verulega og það laskar hagkerfið.

      Að leyfa útgreiðslu gjaldeyris sem þegar er til og í eigu forgangskröfuhafa LBI hefur hins vegar engin áhrif á krónuna og kemur í reynd gjaldeyrishöftum ekkert við.

      Ég er að reyna að skilja þetta, en fæ málflutning þinn ekki til að ganga upp nema að það sé undirliggjandi hugmynd um að nota gjaldeyri hins fallna banka í einhvern snúning, sbr. „gjaldþrotaleiðina“. Er það það sem vakir fyrir þér?

     • Oli Atlason

      Innlendir adilar sem attu gjaldeyrisreikninga hja islenskum fjarmalastofnunum hafi ekki verid undanskyldir gjaldeyrishoftum. Slikar innistaedur ma ekki millifaera a erlendar bankastofnanir.

      Er einhver edlismunur a thessum eignum og krofunum a eignir throtabua i erlendum gjaldeyri sem her er raett um ?

  • Gjaldeyrinn er ekki í eigu kröfuhafa. Þeir eiga einungis kröfu í þrotabúið og eignast fé við útgreiðslu þess, ekki fyrr. Þrotabúin eru íslensk og þessvegna ná gjaldeyrishöftin yfir þau.

   Margir einstaklingar, mörg fyrirtæki og sjóðir eiga erlendan gjaldeyri, alveg eins og þrotabúið, sem þau vilja flytja erlendis. Afhverju eiga þessir ákveðnu kröfuhafar sem þú nefnir að njóta forgangs fram fyrir aðra íslenska lögaðila? Hvað gerir þarfir hinna ómerkilegri? Hvernig gætu nokkur stjórnvöld horft framan í þegna sína eftir þannig mismunum.

   Satt best að segja finnst mér það með ólíkindum að þurfa að debata við jafnaðarmann það að lög eigi að ná jafnt yfir alla!

   Hvernig að höftin leysast endanlega verður að koma í ljós en að minnsta kosti má alls ekki byrja á því að velja fólk úr röðinni til að fara fremst.

   • Ómar Kristjánsson

    Þetta er bara uppskrift að gjaldeyrishöftum að eilífu og í framhaldi að óleystum efnahags- og peningavandamálum að eilífu. Barnalegt að hafa ekkert að segja nema það, að það eigi aldrei að leysa nein mál – og þá afþvíbara. Og segja það aftur og aftur og aftur árum saman.

   • Innistæðueigendur sem hafa beðið í 6 ár eftir peningunum sínum, sem til féllu áður en gjaldeyrishöft voru sett á, eru ekki í sömu stöðu og innlendir fjárfestar sem eignast hafa gjaldeyri eftir hrun eða vilja komast út úr krónunni. Annars erum við farnir að endurtaka okkur, án þess að svar komi við lykilspurningunni: Hvað er unnið með þessari taktík? Hver er tilgangurinn?

    • Tilgangurinn Vilhjálmur er, eins og ég hef margoft sagt, að tryggja að gjaldeyrishöftin gildi jafnt fyrir alla. Og þegar þegar þau verða aflétt þá verði þau aflétt fyrir alla jafnt. Það að hleypa einstökum stórum upphæðum út á meðan allir aðrir sitja fastir gera lausnina bara erfiða fyrir okkur hin.

     Enginn fram fyrir röðina.

     • Nei, það að leyfa LBI að halda áfram að greiða út gjaldeyri í sinni eigu upp í forgangskröfur (innistæður) gerir stöðuna ekki á neinn hátt verri fyrir okkur hin. Þvert á móti færumst við með því nær lausn vandans, til dæmis í gegn um nauðasamninga, eða aðra samninga við almenna kröfuhafa, sérstaklega um krónueignir.

 • Þetta skuldabréf Landsbankans er mesta níðingsverk með ríkisstjórn hefur framið á íslenskri þjóð . Ríkisstjórn Samfylkingnar og Vinstri grænna undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur ákveður að reisa við Landsbankann og kaupir íslensk lán og innistæður úr þrotabúi fallna Landsbankans á fullu verði og samþykkir að greiða skuldabréið í erlendum gjaldeyrir. Algjörlega óskiljanleg ákvörðun sem þarf að rannsaka.

  • Hvaða rugl er þetta Helgi. Það var góð og farsæl ákvörðun að endurreisa nýja Landsbankann og ríkissjóður hefur hagnast vel á því, fyrir utan óbein jákvæð áhrif af starfsemi bankans fyrir atvinnulífið og heimilin. En nýi bankinn var stofnsettur með því að yfirtaka allnokkru meiri eignir en skuldir frá gamla bankanum. Þess vegna varð að gefa út skuldabréf til fallna bankans fyrir mismuninum, enda eignaupptaka óheimil skv. stjórnarskrá. Viðkomandi eignir (lánasöfn) voru ekki keypt „fullu verði“ heldur var skuldabréfið skilyrt við heimtur allt til vorsins 2013 þegar endanleg upphæð þess var ákveðin. Nýi bankinn tapaði alls ekki á því fyrirkomulagi, fremur hitt enda hafa lánasöfnin enn hækkað að verðmæti eftir uppgjörið.

   Skuldabréfið var vissulega í erlendri mynt en töluvert af lánasöfnunum sem nýi bankinn yfirtók eru einnig í gjaldeyri, t.d. lán sjávarútvegsfyrirtækja og stóriðju. Það misvægi sem eftir sat hefur hingað til verið nýja bankanum í hag enda hefur gengi krónunnar styrkst. Hitt er annað mál að endurgreiðsluferillinn var ansi brattur. Nú stendur til boða að endursemja um hann, þannig að hvað er vandamálið?

   • kristinn geir st. briem

    senilega var megnið af ifrteknum eignum umfram skuldir í islenskum krónum . svo við þurftum ekki að hafa skuldapréfið í erlendri mynt og ef svo áttum við að fá afslát

 • Ég hef lengi leitað eftir svörum vísra manna við því af hverju skuldabréfið var ekki í ISK. En það hefur gengið erfiðlega að fá skilmerkileg svör við þeirri spurningu.

  • Stór hluti eignanna sem að baki liggja er í lánasöfnum í erlendri mynt. En vissulega er eitthvað misvægi eftir, sbr. þó það sem ég bendi á í annarri athugasemd, að bankinn á núna jafnvirði 15 ma. kr. í gjaldeyri umfram það sem hann skuldar.

   Skýringarnar á því að bréfið er í erlendum myntum eru sennilega a.m.k. þrjár:

   1) Þegar samið var milli bankanna var verið að reyna að sjá til þess að Icesave-höfuðstóllinn yrði greiddur sem hraðast úr búi gamla bankans, til að lágmarka hugsanlegan vaxtakostnað vegna lágmarkstryggingar innistæðna. (Því hraðar sem höfuðstóllinn yrði greiddur úr búi bankans, því minni yrði hugsanleg vaxtagreiðsla Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.)

   2) Vonir hafa eflaust verið um það að bankinn myndi geta fjármagnað sig erlendis og greitt upp þessa skuld með því fé.

   3) Taldar hafa verið líkur á því að ef (2) gengi ekki eftir yrði unnt að endursemja um greiðsluferilinn, eins og hefur svo komið á daginn.

 • Að gefa út skuldabréf í erlendum gjaldeyri er níðingsverkið. Árið 2008 vantaði Landsbankanum sem þá var í eikaeigu 200 milljarða í gjaldeyri en fékk ekki og fór á hausinn 2014 vantar Landsbankanum sem er í eigu íslenskra skattgreiðenda 200 milljarða og fær ekki, sem sagt gjaldþrota.

  • Skv. ársreikningi Landsbankans á hann 400 milljarða eignir í erlendri mynt, en skuldar 385 milljarða. Það er því ekki vandamálið að hann eigi ekki gjaldeyri. En hluti af gjaldeyriseignunum er ekki í reiðufé og verður ekki í reiðufé að óbreyttu nógu snemma til að mæta afborgunum af skuldabréfinu margumrædda. Þá er annað hvort að semja um að lengja bréfið (sem ég tel skynsamlegustu leiðina), eða að bankinn fái gjaldeyrisfyrirgreiðslu annars staðar frá til að brúa bilið. Um þetta snýst valið. Ekkert í þessu er „níðingsverk“, eigum við ekki að geyma það orð til nota þegar það á við.

   • Sigurður

    „400 milljarða eignir í erlendri mynt“ En bara ekki í reiðufé….

    Nákvæmlega það sama og felldi bankann 2008.

    Áttu fullt af eignum í bókhaldinu, bara enga peninga.

    =Gjaldþrota eins og Helgi bendir á.

    Hvers vegna á ríkið að bjarga þessum banka aftur?

    Í þrot með hann.

    • Þú hreppir verðlaunin fyrir kjánalegustu athugasemdina við þessa bloggfærslu, Sigurður.

     • Sigurđur

      Ég held þú ættir ađ geyma þau handa sjálfum þér. Hvađa leikskólakrakki sem er er fær um málefnalegra svar en þetta.

      Bankinn á ekki fyrir afborgunum lána, stađreynd.

      Sem setur hann í nákvæmlega sömu stöđu og gamli bankinn var í haustiđ 2008, þađ er önnur stađreynd.

      Þađ þýđir ađ óbreyttu ađ bankinn er gjaldþrota.

      Þeir sem ekki skilja þađ, þeir eru kjánar.

      Í þrot međ bankann, og máliđ er leyst.
      Kröfuhafar fá svo greitt út í krónum en fá ekki eina einustu evru,pund né nokkurn alvöru gjaldmiđil.

     • Ertu ekki að rugla saman gamla og nýja bankanum, Sigurður? Af hverju í ósköpunum ætti að „setja nýja bankann í þrot“ þegar eigið fé hans er 241 milljarður (um sl. áramót), í eigu skattborgara? Á að tapa því fé bara af því bara? Af hverju ertu að eyða tíma lesenda í svona bull?

 • Rétt og rangt um skuldabréf Landsbankans var fróðleg lesning og einnig þessi pistill, góðar útskíringar fyrir fólk eins og mig sem aldrei hef sett mig inn í þessi mál.

  Pistill Andra Geirs var einnig fróðlegur, þið eruð ekki sammála, enn hann bendir ekki á alternatív, eins og hér er gert, segir t.d. ekki hvernig átti að stofna nýja bankan øðrvísi.

  kveðja Baugur

 • kristinn geir st. briem

  voru þettað ekki eignr sem voru innistæður sparifjáregenda. skuldir sjávarútvegsins að vísu senilega í erlendri mynt. siðan einhverjar lausaskuldir. svo í sjálfu sér mátti skuldabréfið vera í íslenskum krónum . ef gjaldeyrishöftunum hefði berið aflét eftir áætlun hefðu kröfuhafar gétað breit íslenskum krónum í pund og evrur. en skil það ekki afhverju var ekki gerður fyrirvari við samnínginn um fjármagnshöftinn því jafn ágæt og hinn hreina vinstristjórn átti að vita það að það var ekki sjálfgéfið að gjaldeyrishöftin yrðu afnumin á þessum tíma þettað er sömu mistökin og með icesave samníngin. enn virtust bara vita að það átti að fylgja áætlun og ekkert bakslag að koma

 • Hverjir sáu um samningagerð fyrir íslenska ríkið? Voru það Svavar Gestsson, Indriði H Þorláksson og Þórólfur Matthíasson?

  • Nei. Aðalmaðurinn í þessu hygg ég að muni hafa verið Þorsteinn Þorsteinsson, þrautreyndur bankamaður, en jafnframt var sérstök ráðgjafanefnd í málinu og þar að auki erlendir ráðgjafar, m.a. breska lögfræðifirmað Hawkpoint. Ég sé ekkert athugavert við þessa samninga, miðað við kringumstæður á þeim tíma þegar þeir voru gerðir, sbr. svör mín við öðrum athugasemdum hér.

 • kristinn geir st. briem

  ps. ef skuldin er boirguð hver yrðu áhrif á aðrar afborganir ríkisjóðs á næstu árum gétur hleift þessum gjaldeyrir út . en samt borgað af öðrum lánum

  • Þetta er skuld Landsbankans, ekki ríkissjóðs. Seðlabankinn metur það svo að með lengingu Landsbankabréfsins verði gjaldeyrisjöfnuður þjóðarbúsins sjálfbær til fyrirsjáanlegs tíma.

   • kristinn geir st. briem

    gjaldeyrisforðin er takmarkaður hver sem á hann verðum að spila sem best úr honum hvort þettað sé besta nítíngin á honum hef ég ekki þekkíngu á. það var ástæða fyrir gjaldeyrishöftum sem er skortur á gjaldeyri ef landsbankinn fær að borga út lánið verður minna til af gjaldeyri í landinu þá verður erfiðara fyrir ríkið að borga sín erlendu lán. svo það kemur ríkinu við. síðan er það óvíst að landsbankin eigi nóg af gjaldeyri þar sem hann er eikki búin að leisa út allan gjaldeirishagnað sin samhvæmt þinni sögn. gjaldeyrir kemur viðskiptajöfnuði ekkert við til að afla gjaldeyris þurfum við jáhvæðan viðskiptajöfnuð síða þarf að safna honum upp í sjóðum til að borga af lánum eða taka lán í erlendum gjaldeyri sem virðist ekki vera á lausu ef landsbankinn gétur ekki borgað út láninn vegna andstöðu seðlabanka eða ríkisins. hvað gerir hann þá og hafa kröfuhafa hagsmuni af því að setja nýja landsbankan í þrot held varla þá fá þeir varla kröfurnar borgaðar nema í íslenskum krónum. hvert yrði tap ríkisins hlutafé yrði tapað + innistæðutryggíngin ekki útilokað að aðrir bankar tækju hana yfir . svo þó að nýji landsbankinn sé ekki á ábyrð ríkisins kemur það ríkinu við hvernig sá takmarkaði gjaldeyrir er nytur.

 • Samviskuspurning Vilhjálmur, átt þú kröfu í þrotabú gömlu bankana?

  • Nei, ég á enga slíka kröfu (nema óbeint eins og aðrir landsmenn í gegn um Seðlabanka Íslands – þökk sé ástarbréfaviðskiptum Davíðs og hinna bankastjóranna). En hvað liggur í spurningunni? Eru þeir sem eiga kröfu í hina föllnu banka eitthvað vondir eða óæskilegir? Það voru jú ekki kröfuhafar sem stjórnuðu bönkunum eða áttu þá, þvert á móti töpuðu þeir gríðarlegu fé í hruninu.

 • Afsakið, „bankanna“ á það víst að vera

 • Ásmundur

  Það væri algjört glapræði að setja gömlu bankana í gjaldþrot. Fyrir utan yfirvofandi málaferli með hættu á kyrrsetningu eigna erlendis mundi snjóhengjan, sem er aðalorsök gjaldeyrishaftanna, margfaldast.

  Hugmyndir um að við gjaldþrot verði kröfuhafar að sætta sig við meiri afskriftir en við samninga standast ekki skoðun. Þeir geta í báðum tilvikum kosið að ávaxta krónurnar hér þangað til höftum verður aflétt. Svo er alltaf hægt að finna smugur í höftum.

  Eða er það kannski tilgangurinn með gjaldþrotaleiðinni að festa höftin endanlega í sessi? Allavega er hætt við að það yrði niðurstaðan.

  Gjaldeyrisvarasjóð á ekki að grípa til nema í ýtrustu neyð nema hægt sé að sjá fram á að hann eflist aftur fljótlega. Sérstaklega á þetta við þegar hann er ekki öflugri en raunin er. Satt að segja er hann allt of veikur í ljósi þeirra hættna sem fylgja því að vera með krónu sem gjaldmiðil.

  Ég sé ekki að það geti staðist jafnræðisreglu stjórnaskrárinnar að neita þrotabúi Landsbankans um að greiða forgangskröfur eftir að hafa leyft þrotabúum hinna bankanna að gera það.

  • kristinn geir st. briem

   þá hafa kröfuhafar tvo valkosti að fjárfesra hér á landi sem væri gott þannig feingu þeir gjaldeirir útúr gjaldeiriskapandi atvinuvegum eða bíða og taka á sig lakari vexti. ætli þeir vili ekki heldur afskrifa nokkuð af sínum skuldum

   • Ásmundur

    Jú, þeir eru eflaust tilbúnir til að afskrifa eitthvað af sínum skuldum til að sleppa úr landi með fé sitt. En það á við hvort sem þrotabúin fara í gjaldþrot eða ekki.

    Spurningin er hins vegar hve miklar afskriftir kröfuhafar eru tilbúnir að samþykkja frekar en að bíða átekta þangað til betra tilboð býðst eða höftum verður aflétt.

    Gallinn er hins vegar sá að stjornvöld hafa ekki viljað semja. Þau virðast haldin þeim ranghugmyndum að eftir gjaldþrot verði kröfuhafar að sætta sig við afarkosti auk þess sem þau virðast ekki gera sér neina grein fyrir hættunum sem fylgja gjaldþrotaleiðinni.

    • Það eru reyndar verulegar efasemdir um að „gjaldþrotaleiðin“ sé fær, lögfræðilega. Þannig að hún kann að vera innantóm hótun hvort eð er. En í öllu falli þyrfti að gera mjög vandaða áhættu- og kostnaðar/ábata-greiningu á slíkri stefnu, áður en lagt yrði út í óvissuna. Ég treysti ríkisstjórninni ekki fyrir horn í því efni, ég held að hún sé líkleg til að láta fyrst og fremst stjórnast af testósteroni.

     • Ásmundur

      Nákvæmlega. Ríkisstjórn sem sér ekki hætturnar sem fylgja gjaldþrotaleiðinni er augljóslega ófær um að leysa þann vanda sem kemur upp ef hún ákveður að fara þá leið.

     • Sigurður

      Hvaða vitleysa er þetta um að það séu „verulegar efasemdir“ um að þessi leið sé fær lögfræðilega?

      Það er bara ekki nokkur einasti vafi um það að hún er fullkomlega fær.

      Íslensku bankarnir eru einu bankarnir í heiminum sem enn er haldið í öndunarvél, nú 6 árum frá falli þeirra. Allir aðrir bankar heims hafa fyrir löngu lokið gjaldþrotameðferð og endanlegu uppgjöri.

      Það er í raun fullkomlega galið að það sé ekki fyrir löngu búið að rjúfa þetta umsátúrsástand með því að setja tímamörk hversu lengi er hægt að halda þessu bulli áfram áður en gömlu bankarnir verða settir í gjaldþrot.

      Að það sé eitthvað lögræðilega hæpið að íslenskir bankar geti orðið gjaldþrota eins og aðrir bankar, þú færð bæði 1 og 2 verðlaun fyrir kjánalegustu ummælin Vilhjálmur.

     • Útskýrðu fyrir mér Sigurður hvernig banki kemst í gjaldþrotaskipti ef kröfuhafarnir vilja nauðasamning? Á að neyða fram gjaldþrotaskipti þvert á vilja kröfuhafa? Hefurðu kynnt þér 103. gr. (a) laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki? Hlekkur á þau er hér: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2002161.html

    • kristinn geir st. briem

     að vilja eða géta ekki. það er spurnínginn þrátt fyrir að nokkuð er um frá því að þettað skuldapréf var undirita virðist hvorki ríki né seðlabankinn vita hvernig á að bregðast við. þeir eru kanski að bíða eftir þessari nemd um afnám hafta. þá eiga þeir bara að seigja það maður gæti haldið að það væru sömu ráðgjafarnir sem ráðlegja þessari stjórn og ráðlögðu þeirri seinust eru þeir kannski á 5.ár uppsagnarfresti

 • Ásmundur

  …afskrifa eitthvað af sínum kröfum…(en ekki skuldum)

 • Óskar Guðmundsson

  Ættum við að „fara til helvítis“ ef að krónan væri felld um 8%?

  M.v. að vöruverð hefur ekki lækkað hér frá Feb 2013 (tvöföld inngrip SÍ hefjast) og gengið síðan þá styrkst um 12,7% að þá ættu 8% í hina áttina varla að skila sér til vöruverðs… eða verðbólgu.

  • Ásmundur

   Að sjálfsögðu hækkar verð á innfluttum vörum þegar gengið fellur.

   Ástæðan fyrir því að það hefur ekki lækkað þrátt fyrir hækkun á gengi krónunnar eru væntanlega launahækkanir. Auk þess er mikill misbrestur á að gengishækkanir skili sér í lægra verði þó að gengislækkanir leiði alltaf til verðhækkana.

   Þeir sem vilja að bankarnir fari í gjaldþrot þurfa að skýra mál sitt betur. Þeir virðast alls ekki hafa hugsað dæmið til enda.

Höfundur