Miðvikudagur 01.06.2016 - 09:47 - FB ummæli ()

Vestfirðir í kastljósi ríkisstjórnarinnar

Á ríkisstjórnarfundi þriðjudaginn 31. maí var tillaga forsætisráðherra um nefnd, Vestfjarðarnefnd, sem ætti að vinna aðgerðaráætlun fyrir Vestfirði samþykkt. Nefndinni verður ætlað að starfa í samneyti við önnur ráðuneyti og Fjórðungssamband Vestfirðinga.

Þessari tillögu forsætisráðherra og samþykkt ríkisstjórnarinnar er tekið fagnandi af Fjórðungssambandi Vestfirðinga, hér eftir nefnt FV, enda tilurð og forspil nefndarinnar runnið undan rifjum FV. Þann 15. febrúar segir svo í fundarsamþykkt FV:

“ Stjórn FV óskar eftir að ríkisstjórn skipi nefnd um aðgerðir á Vestfjörðum sem lúti að fjárfestingu, verkefnum stofnana og búsetuskilyrðum á Vestfjörðum. Meginmarkmið er að skapa aðstæður í samfélögum og atvinnulífi til að geta nýtt auðlindir svæðisins og skapa vöxt til framtíðar en með sjálfbærni að leiðarljósi. Skipan nefndarinnar verði með þeim hætti að í henni sitji að lágmarki þrír fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum. Komi einn fulltrúi frá skilgreindum atvinnu og þjónustusvæðum á Vestfjörðum, það er, einn frá norðursvæði, einn frá suðursvæði og einn frá sveitarfélögum á Ströndum og Reykhólahreppi.“

Það er því ánægjuefni að undirbúningur nefndarinnar sé komin af stað með samþykki ríkisstjórnarinnar. Eins og kemur fram í bókun stjórnar FV er gert ráð fyrir að lágmarki þremur fulltrúum frá sveitarfélögum á Vestfjörðum. Það þýðir að aðkoma Vestfirðinga verður tryggð í vinnu nefndarinnar, sem og þau verkefni sem FV hefur unnið að verði höfð að leiðarljósi.
Fjórðungssamband Vestfirðinga ber miklar vonir til að afurð nefndarinnar verði nægilega kröftug til að hafa afgerandi jákvæð áhrif á þá byggðaþróun sem átt hefur sér stað á Vestfjörðum undanfarið. Þau verkefni sem stjórn FV nefndi í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar eru skýr, afmörkuð og hafa hvert og eitt burði í sér til að vera leikbreytir, úr vörn í sókn.

Það er afar ánægjulegt að forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson ætli sér að setja Vestfirði undir sitt kastljós. Fjórðungurinn hefur kallað og ríkisstjórnin svarað.

Um þessa ánægjutilfinningu má hafa mörg orð. Hér verður reynt að lýsa henni í fáum orðum. Í hinu víða samhengi landsbyggðarinnar má segja að í þessu sértæka verkefni vakni von um að meiri pólitískur kraftur fari í byggða- og landsbyggðamál á næstu misserum. Málefni landsbyggðarinnar færist úr hugmyndafræði hjálparstarfs yfir í markvissa uppbyggingu landsins, þar sem byggðajafnrétti, hagsemi og sjálfbærni ráða för.

Ef sjónarhornið er þrengt að Vestfjörðum þá hefur fjórðungurinn verið í vörn, sem hefur aðeins gefið eftir, með tilfallandi ágjöf og pressu. Neikvæð íbúaþróun, minnkandi verðmætasköpun og mædd hagvaxtarþróun sem fylgir ekki landsmeðaltali er lýsing á ástandi sem lætur nærri. Ástandi sem er langt frá eðlilegt fyrir jafn gjöfult svæði. Með eðlilegu inngripi og átaki hins opinbera verður þessari þróun hrundið til baka. Ánægjan felst í því upphafi sem nefndin getur markað.

Það er afar mikilvægt að næstu skref verði fumlaust og markviss, nefndin komi hið fyrsta saman og leggi fram öfluga aðgerðaráætlun fyrir komandi haust. FV mun setja sína dáðustu menn í nefndina sem munu leggja til þekkingu, seiglu og aðhald, svo hvergi verði kvikað frá markmiðum og loforðum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Pétur Georg Markan
Höfundur er sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.
RSS straumur: RSS straumur