Þriðjudagur 21.06.2016 - 01:18 - FB ummæli ()

Rentukóngar verða til

Greiðar samgöngur er grundvallarskilyrði fyrir gjaldeyrisöflun (verðmætasköpun) á Íslandi. Við slíkar aðstæður skila vörur sér hratt og örugglega milli seljenda og kaupenda; vörur sem oft og tíðum eru nauðsynlegar í fyrirtækjarekstri — til dæmis við framleiðslu útflutningsafurða. Ennfremur kemst fólk með verðmæta sérþekkingu fljótt til fundar við viðskiptavini hvar sem er á landinu.

Þegar Loftleiðir var stofnað lýðveldisárið 1944 hófst strax lífleg og hörð samkeppni á innanlandsmarkaðnum sem á var fyrir Flugfélag Íslands. Loftleiðamenn létu sér ekki nægja að keppa á helstu leiðum eins og til Akureyrar og Austfjarða heldur stækkuðu þeir markaðinn með nýju áætlunarflugi til margra staða á Vestfjörðum auk Vestmannaeyja.

FerdistMedLoftleidumInnanlands

Áfangastaðir Loftleiða innanlands: Hellissandur, Patreksfjörður, Bíldudalur, Þingeyri, Flateyri, Ísafjörður, Ingólfsfjörður, Hólmavík, Siglufjörður, Kópasker, Akureyri, Melgerði, Seyðisfjörður, Reyðarfjörður, Hornafjörður, Fagurhólsmýri, Kirkjubæjarklaustur, Vestmannaeyjar, Hella og Keflavík.

En átta árum eftir stofnun Loftleiða skipti Björn Ólafsson samgöngumálaráðherra flugrútunum innanlands milli flugfélaganna tveggja.

Hjálmar Finnsson forstjóri Loftleiða settist niður ásamt bókaranum og reiknaði út að flugrekstur á flugleiðunum sem Loftleiðum var úthlutað stæði ekki undir sér.

Loftleiðamenn fóru við svo búið á fund Björns Ólafssonar og tilkynntu honum að hann gæti hirt þessi leyfi Loftleiðum til handa, þeir tækju ekki við þeim. Í kjölfarið sendi félagið frá sér tilkynningu um að það væri hætt innanlandsflugi:

TilkFráLoftlVegnaSkiptingarFlugl

Morgunblaðið 2. febrúar 1952. Loftleiðir tilkynnir að innanlandsflugi félagsins hafi verið hætt frá og með 1. febrúar.

Ákvörðun Loftleiða kom mjög á óvart. Það hafði enginn sem um vélaði gert ráð fyrir þeim möguleika. Reiðialda fór um landið, einkum um þá staði sem aðeins nokkrum árum áður höfðu komist í langþráð flugsamband við umheiminn.

Ráðherra var kominn í klemmu. Hann þurfti að gera grein fyrir ákvörðun sinni.

Glöggir lesendur hafa vafalaust tekið eftir að með skiptingu flugrútanna innanlands var búið að baka köku úr markaðnum og skipta sneiðunum á milli aðilanna sem fyrir voru, loka aðgangi og búa til kvaðir. Flugfélagsmenn og Loftleiðamenn breyttust við úthlutunina úr keppendum á frjálsum og opnum markaði í rentukónga.

Eini gallinn á þessu annars frábæra plani ráðherra var, eins og áður segir, að Loftleiðamenn mættu ekki í kökuskurðinn.

Hverjar voru skýringar ráðherra á skiptingunni? Hafði hann fyrir því góð og gild rök?

Um það verður fjallað síðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur