Föstudagur 22.03.2013 - 06:41 - FB ummæli ()

Penni og skrifblokk í boði ESB!!!

Líkt og fram hefur komið er ég staddur ásamt nokkrum ESB andstæðingum í Brussel. Í ferðinni höfum við m.a. kynnt þá miklu andstöðu sem er við ESB aðild á Íslandi, farið yfir stöðu aðildarviðræðanna og leitað svara við ýmsum spurningum sem hafa verið í umræðunni á Íslandi. Svo vill til að á sama tíma og við förum þessa ferð þá eru 40 sveitastjórnarmenn hér í Brussel í einni af þeim fjölmörgu boðsferðum sem ESB hefur boðað til á undanförnum árum.

Það hlakkaði í mörgum ESB aðildarsinnum þegar þeir héldu að ESB andstæðingar væru í boðsferð til Brussel á vegum ESB. Ég verð því miður að valda þessu ágæta fólki vonbrigðum. Að sjálfsögðu borga ESB andstæðingar sjálfir fyrir þessa ferð en þyggja ekki fjármagn frá Brussel til slíkra ferðalaga.

Í ljósi þessa þurfa ESB andstæðingar að búa við þær „hræðilegu“ aðstæður að fá ekki dagpeninga meðan á dvölinni stendur, geta ekki dvalið á fínasta hóteli borgarinnar, þurfa að sætta sig við það að á hótelinu sé enginn opinn bar, ekkert gufubað, engin líkamsræktaraðstaða, þurfa að borga fyrir kvöldmáltíðir sínar sjálfur og geta ekki drukkið gott kampavín í boði ESB.

Til að gæta allra sanngirni skal þó tekið fram að á fundi með æðstu mönnum stækkunardeildar ESB fékk einn úr hópnum að gjöf bláan penna merktan ESB (sambærilegan þeim sem er á myndinni) og litla skrifblokk 3cm x 6 cm. Síðan fékk hópurinn vatn bæði með og án kolsýru á fundi með sjávarútvegsnefnd ESB þingsins. Hópurinn kannar nú hvort telja þurfi þessar gjafir fram til skatts.

Það er margt áhugavert sem komið hefur fram í þessari ferð og við munum koma með þær upplýsingar inn í umræðuna á næstu vikum. En í ljósi þess að þetta virðist vera stóra fréttin og það sem fólk hefur áhuga á þá er mikilvægt að koma þessum staðreyndum á framfæri.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur