Þegar ég setti upp þessa bloggsíðu hét ég því að hér myndi ég ekki einungis fjalla um pólitík. Við það ætla ég að standa og er þessi færsla hluti af því. Þeir sem eingöngu hafa áhuga á pólitískum færslum ættu því að hætta að lesa núna og fara til baka 🙂
Um páskana fórum við á hátíðina Aldrei fór ég suður. Hittum mikið af skemmtilegu fólki og það var margt að gerast. Það er svo skrýtið að í hvert sinn sem maður kemur vestur þá fyllist maður af orku og á leiðinni heim er strax farið að spyrja hvenær sé hægt að fara aftur. Vestfirðir hafa verið að sækja á í ferðamennsku undanfarin ár og ég held að við höfum bara séð toppinn á ísjakanum. Það er ekki að ástæðulausu sem Ísafjörður var settur í hóp 50 fegurstu þorpa í Evrópu og ég held að fólk ætti að undirbúa sig undir stóraukna heilsársferðamennsku. Þetta gerist hinsvegar ekki af sjálfu sér og það er mikilvægt að styðja við bakið á fyrirtækjum í ferðaþjónustu bæði hvað varðar gistingu, afþreyingu, markaðssetningu o.fl.
Páskareiðtúr, páskaeggjamót og tónleikar
Á föstudaginn langa tókum við þátt í árlegum páskareiðtúr hestamanna í Bolungarvík en þessu fylgdi kökuhlaðborð og hangikjötsveisla í félagsheimili hestamanna um kvöldið. Fórum síðan á tónleika Aldrei fór ég suður þar sem við m.a. sáum Dr. Gunna spila hið sívinsæla og ódauðlega Prumpulag. Fórum á árlegt páskaeggjamót á gönguskíðasvæðinu í Seljalandsdal. Það var líka gaman að hitta hákarlaveiðimanninn Hálfdán Guðröðarson frá Kálfavík en hann var að landa hákarli í Bolungarvík. Þetta er bara brot af því sem var að gerast fyrir vestan um páskana og því miður var tíminn alltof fljótur að líða.