Föstudagur 07.03.2014 - 18:32 - FB ummæli ()

Seðlabankinn og málaferlin

Þann 13. nóvember 2012 lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi í tveimur liðum varðandi kostnað við málaferli Más Guðmundssonar gegn Seðlabankanum. Þann 31. janúar 2013 barst svar frá þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra:

Spurningarnar og svör voru:

1. Hvar var kostnaður Seðlabanka Íslands af málaferlum seðlabankastjóra gegn bankanum?
Kostnaður til þessa dags nemur samtals 4.060.825 kr. samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands.

2. Mun seðlabankastjóri greiða bankanum þann kostnað?

Báðir málsaðilar, þ.e. seðlabankastjóri og Seðlabanki Íslands, gerðu kröfu um að hinn greiddi málskostnað vegna dómsins sem kveðinn var upp af Héraðsdómi Reykjavíkur 3. október 2012. Í dómsorði var kveðið á um að málskostnaður félli niður. Það þýðir að málsaðilar bera hvor um sig þann kostnað sem þeir hafa stofnað til sjálfir, svo sem lögmannskostnað. Seðlabankastjóri áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, sem hefur tekið málið til meðferðar, og því liggur ekki fyrir á þessari stundu hvort þessi niðurstaða er endanleg.

Eftir umfjöllun Morgunblaðsins um málið þá hefur fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans sent frá sér yfirlýsingu sem fjallað er um m.a. á vef RÚV. Þar segir m.a. „Í ljósi þessa var sú ákvörðun tekin að bankinn stæði straum af öllum kostnaði vegna málsins.“

Ef seðlabankastjóri lét Seðlabanka Íslands borga lögfræðikostnað sinn vegna málaferla sem hann höfðaði gegn Seðlabanknum þá hefur Alþingi verið sagt ósatt um málið í skriflegri fyrirspurn. Það er mikilvægt að það verði upplýst hvort og þá afhverju Alþingi voru gefnar rangar upplýsingar um málið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur