Þjóðkirkjan fylgir flestum Íslendingum frá vöggu til grafar og hefur gert í þúsund ár. Við erum flest skírð til kirkjunnar ómálga börn, staðfestum skírnarheitið með fermingu, fáum blessun kirkjunnar í upphafi hjónabands og þorri landsmanna fær sína hinstu kveðju í kirkjulegri útför.
Okkur er ekki tamt að flíka trúarskoðunum okkar. Við teljum það til einkamála hvort og hvernig við iðkum trúna. Engu að síður gerum við ráð fyrir að kirkjan sé til taks þegar á þarf að halda og að boðskapur hennar um kærleika og fyrirgefningu sé stuðningur við daglegt amstur.
Kirkjan er hluti af okkar stjórnskipun. Í fyrstu málsgrein 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins segir um þjóðkirkjuna: ,,Hin evangelísk lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.” Þarna undirstrika grunnlög þjóðarinnar mikilvægi þjóðkirkjunnar og boða að ríkisvaldið skuli styðja og vernda kirkjuna.
Stuðningur þjóðarinnar við þjóðkirkjuna var mældur fyrir tveim árum, þegar greidd voru atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs vegna vinnu við nýja stjórnarskrá. Meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði sagði já við eftirfarandi spurningu: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
Kirkjuna og kristna trú er ekki hægt að jafnstilla öðrum trúarbrögðum hér á landi, þótt við virðum trúfrelsi og réttinn til trúleysis. Í sögu okkar, menningu og stjórnskipun er kristni og þjóðkirkja verðmæti sem leggja ber rækt við. Til dæmis með því að útvarpa morgunbæn í dagskrá þjóðarútvarpsins.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst