Það er full ástæða til að fagna því að höfuðstólsleiðrétting ríkisstjórnarinnar skilar tugþúsundum heimila leiðréttingu á húsnæðisskuldum. Leiðréttingu sem er fjármögnuð með hækkun skatta á fjármálafyrirtæki og ekki síst með því að afturkalla undanþágu sem fyrri ríkisstjórn hafði veitt slitabúum föllnu bankanna. Núverandi ríkisstjórn er því að skattleggja þrotabú erlendra kröfuhafa og vogunarsjóða til að leiðrétta skuldir almennings. Fyrrverandi ríkisstjórn reyndi hinsvegar í þrígang að skattleggja heimili landsins til að greiða erlendum kröfuhöfum (Icesave).
Fyrri ríkisstjórn – Ekki meira fyrir skuldsett heimili!
Fyrri ríkisstjórn tók meðvitaða ákvörðun um að gera ekki meira fyrir skuldsett heimili. Þáverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði 2. desember 2010 orðrétt: „Við erum búin að ganga eins langt og við mögulega getum,“ og sagði svo jafnframt: „ Ég verð að segja það að það er ekki hægt að vænta þess að við komum með fleiri aðgerðir“.
Því hefur líka verið ranglega haldið fram að sú almenna leiðrétting sem núverandi ríkisstjórn ákvað að ráðast í renni mest til hátekjufólks. Staðreyndin er að stærstur hluti leiðréttingarinnar nú rennur til fólks með meðal og lægri tekjur. Hinsvegar nýttist 110%-leið fyrri ríkisstjórnar aðallega tekjuhæstu heimilunum en skildi þau tekjulægri eftir með vandann. Leiðin nýttist aðeins um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Um 1% heimilanna hrepptu helming niðurfærslunnar, rúmlega 20 milljarða króna. Þessi 775 heimili fengu hvert yfir 15 mkr niðurfærslu og var meðaltal niðurfærslu um 26 mkr. Fyrri ríkisstjórn ber þannig ábyrgð á 20 milljarða króna niðurfærslu á lánum tekjuhæsta hluta þjóðarinnar.
Núverandi ríkisstjórn hlífir ekki þrotabúum föllnu bankanna
Ólíkt fyrri ríkisstjórn þá tók þessi ríkisstjórn ákvörðun um afnema undanþágu þrotabúa föllnu bankanna og þar með erlendra vogunarsjóði frá skatti upp á tugi milljarða. Því hefur stundum verið haldið fram af stjórnarandstöðunni að eignarsafn þrotabúanna hafi ekki verið orðið nægilega skýrt í upphafi síðasta kjörtímabils þannig að hægt væri að skattleggja þau. Það kann að vera að það hafi verið raunin árið 2009 og jafnvel 2010. En hvað með 2011, 2012 svo ekki sé talað um árið 2013? Í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi um síðustu helgi staðfesti Guðbjartur Hannesson, sem á síðasta kjörtímabili var hluti af ráðherraliði Samfylkingarinnar, að það hafi verið hægt að skattleggja þrotabúin í lok síðasta kjörtímabils en ákvörðun hafi verið tekin um að gera það ekki.
Það er því staðfest að fyrrverandi ríkisstjórn tók ákvörðun um að gera ekki meira fyrir skuldsett heimili samhliða því að slá „skjaldborg“ um erlenda vogunarsjóði og hlífa þeim við eðlilegri skattheimtu. Núverandi ríkisstjórn hefur hinsvegar þá stefnu að setja almenning í fyrsta sæti og því var tekin meðvituð ákvörðun um að skattleggja þrotabú föllnu bankanna og ráðast í almennar leiðréttingar á verðtryggðum lánum heimilanna.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember.