Fimmtudagur 20.11.2014 - 17:13 - FB ummæli ()

Raforkukostnaður – Dreifbýli og köld svæði

Víða á landsbyggðinni var mikið fjallað um jöfnun raforkukostnaðar fyrir síðustu kosningar. Flestir stjórnmálaflokkar og þar með talinn Framsóknarflokkurinn lagði áherslu á að jafna þennan kostnað. Til þess að það náist til frambúðar þá þarf að endurskoða núverandi löggjöf hvað þetta snertir. Þessi stefna er mörkuð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar segir orðrétt:

“Unnið verður að jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar.”

 

Jöfnun á dreifingarkostnaði raforku

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sýnt hver vilji hennar er enda brást hún hratt við þessu máli og frumvarp um jöfnun á dreifingarkostnaði raforku (http://www.althingi.is/altext/144/s/0107.html) var lagt fram á síðasta ári. Frumvarpið náði ekki fram að ganga síðasta vor og var lagt fram aftur á þessu haustþingi og ekkert er því til fyrirstöðu að það klárist á þessu þingi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lagt verði sérstakt jöfnunargjald á þá raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna með það að markmiði að standa undir fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda, þ.e. heimila og fyrirtækja sem fá raforku sína beint frá dreifiveitunum. Þetta þýðir að kostnaður við dreifingu raforku verður sá sami óháð því hvort vðikomandi er búsettur í þéttbýli eða dreifbýli.

 

Jöfnun á húshitunarkostnaði á köldum svæðum

Það er einnig réttlættismál að jafna raforkukostnað þeirra sem búa á köldum svæðum og þar hafa verið til skoðunar ýmsar leiðir. Til að fá nákvæmar upplýsingar um hvenær aðgerðir eru væntanlegar þá lagði ég fram í síðustu viku svohljóðandi skriflega fyrirspurn til iðnaðar- og viðskiptaráðherra (http://www.althingi.is/altext/144/s/0512.html):

„Hvenær má vænta ráðstafana sem miða að því að jafna húshitunarkostnað að fullu á milli kaldra svæða og annarra?“

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks mun jafna húshitunarkostnað á köldum svæðum og að dreifikostnað raforku í dreifbýli. Það er hinsvegar mikilvægt að það gerist fyrr en síðar. Með tilliti til byggðasjónarmiða og jafnræðis til búsetuvals, er ekki verjandi að verð á jafn mikilvægum nauðsynjum og rafmagni og heitu vatni til húshitunar skuli vera jafn breytilegt milli landsvæða og raun ber vitni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur