Áform Landsbankans, banka allra landsmanna, að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni dýrustu lóð landsins hefur verið gagnrýnd af fjölmörgum aðilum. Landsbankinn er í almenningseigu og það er á ábyrgð okkar allra að hann fari vel með almannafé.
Landsbankinn ber við miklu fjárhagslegu hagræði af þessari framkvæmd. Þrátt fyrir að ég hafi efasemdir um skynsemi þess að færa alla starfsemi bankans á einn stað þá skulum við gefa okkur að af þessu hljótist umrætt hagræði.
Ef bankinn væri einungis að hugsa þetta út frá hagræðingu væri ekki skynsamlegra að leita að ódýrara húsnæði á ódýrari lóð? Í umræðu um málið hefur verið bent á hagkvæmari kosti, gefum okkur að bankinn gæti komist af með höfuðstöðvar sem kosti hann 2 milljarða í stað þeirra 8 milljarða sem áætlanir gera ráð fyrir. Hvað væri hægt að gera fyrir þá fjármuni?
Dugar til að reka eitt útibú í 100-150 ár!
Á undanförnum árum höfum við fylgst með því hvernig Landsbankinn hefur jafnt og þétt verið að fækka útibúum einmitt í nafni hagræðingar. Á árinu 2012 var t.d. með einni aðgerð ákveðið að loka nokkrum útibúum og áætlaður meðalsparnaður samkvæmt fréttum frá bankanum var 50 milljónir á hvert útibú.
Ef Landsbankinn færi hagkvæmari leið varðandi nýjar höfuðstöðvar þá hefði verið hægt að halda opnu einhverju af þeim fjölmörgu útibúum sem bankinn lokaði í nafni hagræðingar í 100-150 ár. Var verið að skerða þjónustu vítt og breitt um landið til að safna fyrir útborgun í nýjar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins? Er nema von að margir spyrji sig hvort menn séu algerlega úr sambandi við raunveruleikann?
Stjórnendur bankans hafa heldur dregið í land varðandi fyrirhugaða uppbyggingu og það er vel. En verði ráðist í þessa framkvæmd þá er það hrein og klár ögrun við almenning, enda bankinn eigna okkar allra eftir að ríkið endurreisti hann við hrun efnahagskerfisins.