Þriðjudagur 11.08.2015 - 15:38 - FB ummæli ()

Landsbankinn þarf að verða banki allra landsmanna

c_documents_and_settings_aslaug_desktop_landsbanki50ara

Glæsileg bygging Landsbankans á Ísafirði er í dag að hluta notuð sem orlofsíbúð.

Forsvarsmenn Landsbankans hafa gefið það út að líklega verði fyrirhugaðri byggingu á höfuðstöðvum slegið á frest. Ástæðan er sú að margir hafa tjáð sig um málið og gagnrýnt fyrirhugaða byggingu. Það er vel að forsvarsmenn Landsbankans séu að draga í land en er nóg að fresta málinu?

 

Það þarf að breyta um grunnstefnu

Það er ekki nóg að stjórnendur Landsbankans hafa hrakist undan varðandi byggingar á nýjum höfuðstöðvum. Í framhaldinu þarf að boða til hluthafafundar þar sem þessi áform eru endanlega slegin út af borðinu og lóðin margrædda verði síðan seld hæstbjóðanda.

Í framhaldinu ætti banki „allra“ landsmanna að setja af stað vinnu sem miðar að því að endurskipuleggja starfsemi bankans með það að leiðarljósi að nýta á sem hagkvæmastan hátt þær fjölmörgu byggingar sem bankinn á víðsvegar um landið. Ég er sannfærður um að ítarleg skoðun á þessari blönduðu leið myndi sýna fram á hagkvæmni samanborið við að byggja risastórar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins.

Það þarf líka að taka almenna upplýsta umræðu um það í samfélaginu af hverju Landsbankinn ákvað að velja margumrædda leið í stað þess að lækka veita hagstæðari kjör til almennings.

 

Störf án staðsetningar – Kröfuhafar standa sig betur en Landsbankinn

Landsbanki, banki allra landsmanna, ætti að hafa forystu í því að nýta ljósleiðaravæðingu landsins í stað þess að þjappa öllu á eina dýra lóð í 101 Reykjavík. Það á að skoða hagkvæmni þess að efla þær starfsstöðvar sem bankinn á í einhverjum glæsilegustu byggingum hvers byggðalags.

Landsbankinn breytir útibúum í orlofsíbúðir fyrir starfsfólk líkt og gert var rétt fyrir hrun á Ísafirði. Ætli það hefði ekki verið mögulegt að halda úti starfsemi á Ísafirði í stað þess að breyta útibúinu í orlofshúsnæði fyrir starfsfólk úr Reykjavík?

Af hverju horfir Landsbankinn ekki til þess sem áunnist hefur í fjarvinnslu. Ég hygg að Arion Banki, banki kröfuhafanna væri ekki að notfæra sér fjarvinnslu á Siglufirði nema af því væri hagkvæmni. Sú starfsemi hófst árið 2000 og hefur reynslan verið mjög jákvæð allar götur síðan.

Meðan Landsbankinn er eign almennings þá á almenningur allt í kringum landið fullan rétt á því að bankinn leitist við að uppfylla sitt gamla slagorð „banki allra landsmanna“.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur