Föstudagur 01.04.2016 - 09:33 - FB ummæli ()

Jóhönnustjórnin – Stjórnarskrá ver kröfuhafa!

Í Kastljósi í gærkvöldi ræddu Vigdís Hauksdóttir og Steingrímur J. Sigfússon um endurreisn bankanna í tíð síðustu ríkisstjórnar. Steingrímur lét að því liggja að ekki væri ástæða til að fara ofan í það hvernig staðið var að endurreisn bankanna á síðasta kjörtímabili þar sem komið hefði út sérstök skýrsla um endurreisn bankanna og farið hefði fram umræða um hana á Alþingi. Ég man vel eftir þessari umræðu vegna þess að hún fór fram 1. júní 2011, en það var daginn sem ég gekk til liðs við Framsóknarflokkinn.

En hvað var sagt við umræður um áðurnefnda skýrslu?

Lilja Mósesdóttir sem á síðasta kjörtímabili var ein af okkar öflugustu þingmönnum þegar kom að efnahagsmálum og baráttunni við erlenda kröfuhafa hafði m.a. þetta að segja í þessari umræðum:

“…Þegar ég ákvað stuttu fyrir kosningar 2009 að bjóða mig fram fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs trúði ég að forystu VG væri best treystandi til að reisa við efnahagslífið með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Aldrei grunaði mig að formaður VG myndi ásamt forystu Samfylkingarinnar verða uppvís að því að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa, eins og Breta, Hollendinga og vogunarsjóða, í Icesave-málinu og nú við endurreisn bankakerfisins….Skjaldborg um bankanna skapar ekki velferð og hagvöxt. Það gerir hins vegar skjaldborg um heimilin og fyrirtækin. Endurreisn bankakerfis á forsendum vogunarsjóða en ekki hagsmuna almennings er vinstri stjórn til ævarandi skammar…”

 

Í þessari umræðu spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon að eftirfarandi spurningu:

“…Hefði ekki verið ráð að nota tækifærið sem gafst á meðan þessi eignasöfn voru lágt metin á heimsmarkaðsverði og láta íslenskan almenning og fyrirtæki njóta góðs af því, þau áttu inni vegna þeirra áhrifa sem efnahagskrísan hafði valdið?”

Þá svaraði Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra :

“…Ég veit ekki hversu rækilega þarf að reyna að útskýra að slíkt sé ekki hægt í svona ferli þegar menn verða að ganga út frá grundvallarreglunum sem ég hef farið yfir hér, þegar stjórnarskrá er í gildi þar sem eignarréttur er til staðar og varinn og verndaður og þegar stjórnvöld í ofanálag hafa heitið því að viðhafa sanngjarna málsmeðferð í svona uppgjöri….”

 

Skýrara verður það ekki. Jöhönnustjórnin taldi að ekki væri hægt að gera það sem Framsóknarflokkurinn vildi gera. Það var nefnilega búið að lofa kröfuhöfum “sanngjörnu” uppgjöri!!

 

Er nema von að Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar hafi nýverið skrifað bréf til flokksmanna þar sem hann sagði m.a. að forgangsröðun í þágu kröfuhafa hafi verið ein af mistökum síðasta kjörtímabils. Er ekki kominn tími til að fá öll spilin á borðið og kanna hvað það var sem réði för þegar farið var gegn almenningi og kröfuhöfum lofað að ekki yrði tekið á þeim?

Ríkistjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks snéri strax af þessari braut. Byrjað var á því að afnema undanþágu fallinna fjármálafyrirtækja frá því að greiða bankaskatt og í framhaldinu hófst vinna sem miðaði að því að innlendar eignir þrotabúanna yrðu afhentar Íslendingum. Það er sérstakt að hlusta á þingmenn úr röðum núverandi stjórnarandstöðu setja uppgjör ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við kröfuhafana sem eina af ástæðum þingrofstillögu sinnar. Umræðurnar verða hinsvegar kærkominn vettvangur til að ræða breytta stefnu og þá staðreynd að erlendir kröfuhafar eru að færa ríkissjóði hundruði milljarða. Nokkuð sem kallað var poppúlismi fyrir síðustu kosningar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur