Laugardagur 23.04.2016 - 22:26 - FB ummæli ()

Dýrafjarðargöng fyrir kosningar!

Í því ágæta blaði Vestfirðir sem ritstýrt er af Kristni H. Gunnarssyni fyrrverandi alþingismanni birtist nýverið frétt undir yfirskriftinni „Óvissa um Dýrafjarðargöng“. Í umræddri frétt er látið liggja að því að einhver óvissa sé uppi um það hvort framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjist á næsta ári líkt og áætlanir gera ráð fyrir.

Ólína Þorvarðardóttir var fljót að grípa boltann frá Kristni H. Gunnarssyni á lofti og heldur því fram í bloggfærslu  á Eyjunni að sannleikurinn sé sá að aldrei hafi staðið til að hefja framkvæmdir við Dýrafjarðargöng á næsta ári.

 

Hefur það áhrif að flýta kosningum?

Þessa ljósmynd tók ég sl. fimmtudag en þá ók ég um Hrafnseyrarheiði á leið minni frá Þingeyri á Bíldudal. Dýrafjarðargöng munu leysa af hólmi veginn yfir Hrafnseyrarheiði.

Þessi ljósmynd sýnir snjóalög á Hrafnseyrarheiði á sumardaginn fyrsta (21. apríl 2016). Þann dag ók ég um Hrafnseyrarheiði á leið frá Þingeyri á Bíldudal. Dýrafjarðargöng munu leysa af hólmi veginn yfir Hrafnseyrarheiði.

Staðreyndin er sú að til stendur að bjóða Dýrafjarðargöng út í haust þannig að framkvæmdir geti hafist á næsta ári en hefur það áhrif að flýta kosningum.

Það liggur í raun ekkert á að kjósa en stjórnarandstaðan hefur hinsvegar lagt ríka áherslu á að kjósa helst strax. Undirritaður hefur verið talsmaður þess að ríkisstjórnin klári mikilvæg verkefni sem liggja fyrir áður en boðað verður til kosninga og það er ánægjulegt að sjá að fleiri eru farnir að sjá mikilvægi þess að svo verði.

Samgönguáætlun. Samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 gerir ráð fyrir því að ráðist verði í Dýrafjarðargöng á næstu árum. Áður en kosningum verður flýtt þá skulum við klára að afgreiða samgönguáætlun sem mælt var fyrir í síðustu viku.

Fjárlög 2017. Það verður væntanlega gert ráð fyrir fjármagni í Dýrafjarðargöng í samræmi við samgönguáætlun fyrir næsta ár. Áður en kosningum verður flýtt þá skulum við klára að afgreiða fjárlög fyrir árið 2017 og tryggja þannig fjármagn til verkefnisins á næsta ári.

Útboð á Dýrafjarðargöngum. Það hefur verið rætt um það að verkið verði boðið út í haust. Það liggur fyrir fyrirspurn frá mér um þetta í þinginu þar sem spurt er hvenær ráðgert sé að bjóða út verkið. Ráðherra samgöngumála hefur ekki sagt annað en til standi að hefja framkvæmdir á næsta ári en við skulum fá formlegt og opinbert svar við þessari fyrirspurn. Áður en kosningum verður flýtt þá skulum við sammælast um að búið verði að bjóða út Dýrafjarðargöng!

Það stendur ekki annað til hjá núverandi ríkisstjórn en að framkvæmdir hefjist á næsta ári en þegar þeir sem hæst hafa um að flýta verði kosningum eru síðan farnir að gagnrýna þau áhrif sem það kunni að hafa þá er manni óneitanlega brugðið. Þeir sem hafa áhyggjur af því að kosningar hafi áhrif á þetta verkefni ættu að sammælast um að klára ofangreinda þætti áður en gengið verður til kosninga. Til er ég! Enda mikill áhugamaður um að Dýrafjarðargöng komist af stað og enginn sérstakur áhugamaður um að flýta Alþingiskosningum nema að mikilvægum verkefnum sé lokið áður.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur