Það er þjóðhagslega mikilvægt að hafa öfluga byggð allt í kringum landið. Eftir efnahagshrunið varð landsbyggðin fyrir meiri blóðtöku í formi tapaðra opinberra starfa en höfuðborgarsvæðið, það var dregið meira úr stuðningi við menningartengda starfsemi á landsbyggðinni, meira var skorið niður hjá ýmsum heilbrigðisstofnunum o.s.frv. Nú þegar góðæri ríkir í hagkerfinu erum við því miður að sjá sömu þróun halda áfram. Það segjast allir vera sammála um að mikilvægt sé að snúa þessari þróun við og ég trúi því að víðtækur vilji sé til þess. En af hverju gerist það ekki?
Mikil gagnrýni hefur komið fram á byggðastefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Svo mikil að ákveðnir þingmenn eru þegar farnir að hlaupast undan eigin fjárlagatillögum í aðdraganda kosninga.
Fjárlagagerð ríkisins var nýlega breytt og höfðu margir áhyggjur af því að nýja vinnulagið myndi sjálfkrafa veikja dreifðar byggðir landsins. Verið væri að færa ráðuneytum aukið vald og minnka möguleika lýðræðislegra kjörinna fulltrúa til að hafa áhrif. Undirritaður var einn þeirra sem hafði áhyggjur af þessu og Framsóknarflokkurinn lagði til ýmsar breytingar til að tryggja stöðu hinna dreifðu byggða. M.a. var samþykkt að fjárlagafrumvarp hvers árs skyldi fara í sérstaka byggðaúttekt sem unnin væri af Byggðastofnun. Hugsunin var sú að Byggðastofnun ynni þvert á málaflokka, væri virkur aðili við fjárlagagerðina og veitti aðhald í ólíkum málaflokkum. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir að tillögur sem hefðu mjög byggðaraskandi áhrif væru lagðar fram. Byggðastofnun hefur sjálf sagt að markmið þeirrar hugsunar sem lýst er í lögum um opinber fjármál sé ekki að nást.
Það er algert lykilatriði að ráðast í grunnbreytingar sem snúa að byggðamálum.
- Það verður að ráðast í breytingar á lögum um opinber fjármál. Þar verður að tryggja að byggðamál komist að á fyrri stigum fjárlagagerðar. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar verða líka að hafa óskerta möguleika til að þess að koma stefnu sinni til framkvæmda í gegnum fjárlagafrumvarpið.
- Það verður að koma á þeirri vinnureglu að lagafrumvörp, reglugerðir og aðrar stjórnvaldsaðgerðir séu metnar út frá áhrifum á byggðir landsins áður en þær eru lagðar fram. Hefði slíkt vinnulag verið til staðar þá hefðu skelfilegar tillögur ríkisstjórnarinnar til lausnar á vanda sauðfjárræktarinnar aldrei litið dagsins ljós.
Ég er sannfærður um að þessar breytingar myndu oft á tíðum koma í veg fyrir það að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri er að gera þegar kemur að byggðamálum.
Gleymum því síðan aldrei að almennar byggðaaðgerðir efla ekki einungis dreifbýl svæði landsins heldur fær ríkissjóður og þjóðin öll ávinninginn margfalt til baka í aukinni verðmætasköpun og gjaldeyristekjum.