Talsverðar breytingar urðu á lífeyriskerfinu um síðustu áramót. Ýmislegt jákvætt hefur áunnist með þessum breytingum en það eru þættir sem þarf að lagfæra. Einn af þeim þáttum sem þarfnast breytinga er sú staðreynd að nýja kerfið er atvinnuletjandi fyrir þá sem komnir eru á eftirlaun. Þetta er þáttur sem mikilvægt er að breyta.
Við eldumst öll og sem betur fer eldast mörg okkar mjög vel og halda starfsorku langt fram yfir lífeyrisaldur. Það er sorglegt þegar samfélagið lítur svo á að um leið og fólk komist á lífeyrisaldur þá sé þeirra hlutverk það eitt að bíða eftir endalokunum. Við þurfum að virkja þennan hóp, þeir sem vilja vinna eiga að geta það og allir hvatar þurfa að vera í þá átt.
Virkjum fólk til vinnu
Margir sem komnir eru á eftirlaun vilja áfram vera hluti af íslenskum vinnumarkaði en gera það ekki vegna þess hve lág mörk eru fyrir skerðingum á lífeyristekjum. Mér er ómögulegt að skilja hvernig það getur verið samfélagslega hagkvæmt að einstaklingar sem hafa fulla starfsorku séu fjötraðir heima í stað þess að taka þátt í samfélaginu. Það þjóðhagslega hagkvæmt að virkja fólk til vinnu.
Hvati til atvinnuþátttöku
Atvinnuleysi á Íslandi er innan við 2% sem er með því lægsta sem þekkist í heiminum. Það hefur verið mikil spenna á vinnumarkaði undanfarin ár og því er mikið af erlendu starfsfólki sem starfar á Íslandi. Þrátt fyrir að þessir erlendu starfsmenn greiði skatta þá taka þeir oft á tíðum ekki jafn mikinn þátt í íslensku hagkerfi. Tekjur sem eldri borgarar vinna fyrir eflir íslenskt hagkerfi mun meira. Það má því með sanni segja að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að hvetja til þess að fólk fari í vinnu ef aðstæður leyfa.
Aukin atvinnuþáttaka er heilbrigðismál
Í stefnumótun um heilbrigðismál er ævilega lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er fátt meira fyrirbyggjandi heldur en hvetja til þess að fólk haldi áfram að taka þátt í samfélaginu eftir að það hefur náð eftirlaunaaldri.
Forgangsmál að breyta frítekjumörkum
Þeir sem komnir eru á lífeyrisaldur eru einstaklingarnir sem mótuðu þá nútíð sem við lifum og störfum í. Við eigum að bera virðingu fyrir þessu. Það á að nýta krafta þessa hóps og virkja til þátttöku á íslenskum vinnumarkaði. Framsókn leggur áherslu á að það verði eitt af fyrstu verkefnum nýrrar ríkisstjórnar að breyta frítekjumörkum þannig að eldra fólk sjái hag í því að fara út á vinnumarkaðinn.