Laugardagur 9.11.2013 - 00:44 - FB ummæli ()

Trompspil Framsóknar?

I.

Þann 23. október sl. setti Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, eftirfarandi status inn á Facebook-síðu sína:

Sendi þennan póst núna á DV v/ umfjöllunar þeirra um skuldaleiðréttinguna. Við hljótum að vera gera eitthvað rétt núna. Fáum heilsíðu eftir heilsíðu

„Sælir, af gefnu tilefni v/ umfjöllunar DV um skuldaleiðréttinguna. Áfram er unnið að skuldaleiðréttingunni og áttum við góðan fund í ráðherranefnd  um aðgerðaáætlun í skuldavandanum í gær.

Enda fátt skemmtilegra en að gera nákvæmlega það sem fólk telur mann ekki geta gert, svo ég fái að vitna í Walter Bagehot.

bkv. Eygló Harðardóttir”

II.

Umræddur „góður fundur í ráðherranefnd um aðgerðaáætlun í skuldavandanum‟ varðar í engu gagnrýni DV á loforðum Framsóknar um skuldaleiðréttingu, en af lokasetningu Eyglóar er ljóst að hún er þess fullviss að Framsókn hafi spil uppi í erminni sem eigi eftir að trompa óvægna gagnrýni DV og annarra sem telja kosningaloforð Framsóknar hafa verið „endemis rugl‟ svo ég fái að vitna í sjálfan mig.

III.

Forsætisráðherra hefur ekki tjáð sig um kjarna málsins:

Hvernig ætlar SDG að standa við stóra loforðið?

Hvað veit Eygló sem alþjóð veit ekki?

IV.

Forsætisráðherra lét í ljós þá von fyrir nokkru að stjórnarandstaðan myndi ekki standa í vegi fyrir óþekktum hugmyndum Framsóknar um skuldaleiðréttingu.

Hvaða hugmyndir er SDG að tala um?

Af hverju ætti stjórnarandstaðan að vera á móti skuldaleiðréttingu?

V.

Þann 10. febrúar sl. var Frosti Sigurjónsson viðmælandi Egils Helgasonar í Silfri Egils og setti fram hugmyndir um skuldaleiðréttingu sem hafa að mestu legið í þagnargildi alla tíð síðan.

Í Silfri Egils setti Frosti m.a. fram eftirfarandi hugmyndir og fullyrðingar:

1. Bankakerfi þróaðra þjóða síðustu 400 árin eru „arðránskerfi‟.

2. Kerfið kostar/rænir hverja fjölskyldu á Íslandi um100-200 þús. kr á hverju ári.

3. Kerfisbreyting gæti minnkað skuldir ríkissjóðs um 300-400 milljarða á fjórum árum.

4. Breytingin myndi skapa 250-300 milljarða svigrúm í seðlabankanum til skuldaleiðréttingar.

VI.

Enda fátt skemmtilegra en að gera nákvæmlega það sem fólk telur Framsókn ekki geta gert.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.11.2013 - 21:51 - FB ummæli ()

Skuldaáform XB óframkvæmanleg

Ríkisstjórn XB og XD ætlar að lækka verðtryggðar húsnæðisskuldir heimilanna um X milljarða ÁN þess að fjárhagslegum stöðugleika sé ógnað.

Sérfræðinganefnd um skuldaleiðréttingu á að segja til um valkosti við framvæmd þessara áforma en ekki hvort þau séu framkvæmanleg.

Í bloggfærslu  21. október  (Endemis rugl í öndvegi – stöðugleika ógnað) hafði ég eftirfarandi formála að umsögn minni um viðfangsefnið:

I.

Sérfræðingahópur ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar lýkur senn störfum.

II.

Af umsögn forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í útvarpsviðtali í dag má ráða að þar verði ekki hvikað frá þeirri stefnu í málinu sem Framsóknarflokkurinn boðaði fyrir alþingiskosningarnar 27. apríl sl.

III.

Umsögn mín um þá stefnu kom til umræðu þegar leiðtogar stjórnmálaflokka sátu fyrir svörum í beinni útsendingu á Stöð 2 við lok kosningabaráttunnar. (http://www.youtube.com/watch?v=azs3YJ_vxkE)

Lóa Pind:

Gunnar Tómasson, hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til langs tíma, kemur fram núna í vikunni og hann segir að fyrirheit ykkar um skuldalækkanir öllum að kostnaðarlausu nema kröfuhöfum þrotabúanna sé slíkt endemis rugl að hann geti ekki þagað. Hann segir að þessar krónueignir sem þið viljið fá í afslátt frá kröfuhöfum séu einkum ríkisskuldabréf og reiðufé og það eigi bara að fara sjálfkrafa í að lækka skuldir ríkissjóðs. Hvað segirðu um þetta?

Sigmundur Davíð:

Þetta er nú reyndar ekki rétt, mjög fátt í þessu er a.m.k. rétt og snúið út úr öðru. En Gunnar Tómasson hins vegar var á einhverjum punkti genginn til liðs við Dögun, svo man ég ekki hvar hann endaði í framboði – snérist algjörlega gegn Framsóknarflokknum. Hafði fram að því verið töluvert náinn okkur í málflutningi. Hann á auðvitað rétt á því að beita sér í sinni pólitík, en hins vegar hafa margir aðrir talað um þessar tillögur okkar á mjög uppbyggilegan hátt og útskýrt að þær gangi upp. Þær eru í rauninni mjög einfaldar.

Og nokkru síðar:

Lóa Pind:

Þannig að þú tekur ekki undir þessi orð.

Sigmundur Davíð:

Nei, nei, nei, auðvitað ekki.

IV.

Forsætisráðherra hafði lög að mæla – málið er einfalt:

***

Þar sem forsætisráðherra lætur ekki deigan síga, þá vil ég einfalda fyrri framsetningu mína enn frekar:

1. Skuldaniðurfærsla sem felst í afskrift lána á eignahlið efnahagsreiknings lánastofnana og lækkun eigin fjár á skuldahlið ógnar ekki fjárhagslegum stöðugleika.

2. Skuldaniðurfærsla ÁN lækkunar eigin fjár lánastofnana ógnar fjárhagslegum stöðugleika þar sem hún krefst eiginfjáraukningar í gegnum ríkisvaldið.

3. Uppruni slíkrar eiginfjáraukningar – krónueignir þrotabúa gömlu bankanna eða Seðlabanki Íslands* – skiptir engu um áhrif hennar á fjárhagslegan stöðugleika.

4. Áform XB um lækkun húsnæðisskulda heimilanna ÁN þess að fjárhagslegum stöðugleika sé ógnað eru því óframkvæmanleg.

***

Viðbót 3. nóv. 2013.

*

Seðlabanki Íslands gæti fjármagnað 200 milljarða niðurfærslu á húsnæðislánum með 200 milljarða seðlaprentun.

Fjármálalegum stöðugleika væri ógnað vegna 200 milljarða aukningar lausafjár í eignasafni lánastofnana sem fælist í slíkri fjármögnun.

Millifærsla á 200 milljörðum frá þrotabúum gömlu bankanna myndi hafa sömu áhrif á eignasafn starfandi lánastofnana.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.10.2013 - 01:28 - FB ummæli ()

Niðurfærsla skulda og fjárhagslegt jafnvægi

Afskriftir á skuldum eru hlutlausar gagnvart fjárhagslegu jafnvægi ef hrein eignastaða lántakanda  batnar og hrein eignastaða lánveitanda rýrnar um sömu upphæð.

Þetta er grundvallarforsenda slíks hlutleysis skuldaleiðréttinga stjórnvalda á komandi tíð.

Þannig myndi 200 milljarða afskrift á húsnæðisskuldum heimila við Íbúðalánasjóð ekki hafa bein áhrif á  fjárhagslegt jafnvægi ef eignastaða Íbúðalánasjóðs og/eða lífeyrissjóðanna sem fjármagna hann rýrnaði um 200 milljarða.

Íbúðalánasjóður er ekki aflögufær og lífeyrissjóðirnir eru ekki til viðtals um aðkomu að lausn vandans.

Stjórnvöld leita því annarra leiða.

Ríkissjóður er ekki aflögufær og 200 milljarða viðbótar skattheimta til að fjármagna niðurfærslu skulda er ekki pólitískur valkostur í stöðunni.

Eins væri fjárhagslegu jafnvægi ógnað ef Seðlabanki Íslands bætti Íbúðalánasjóði/lífeyrissjóðunum þá rýrnun eigna sem myndi leiða af niðurfærslu húsnæðislána heimilanna um 200 milljarða.

Kjarni málsins er þessi:

Fjárhagslegt jafnvægi við niðurfærslu húsnæðisskulda ræðst alfarið af því að kaupmáttur aukist ekki að óbreyttri landsframleiðslu, eða að samsvarandi aukning verði á innflutningsgetu hagkerfisins.

Svigrúmið, sem stjórnvöld telja að skapist við uppgjör þrotabúa gömlu bankanna, er því ekki valkostur frá þessu sjónarhorni séð nema að það sé hluti af gjaldeyriseignum þrotabúanna en ekki krónueignum.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.10.2013 - 03:54 - FB ummæli ()

Skilningsskortur og skuldaskil

Frosti Sigurjónsson, alþingismaður XB, skrifaði nýlega grein um peningamál. Þar segir m.a.:

„Við peningafölsun liggur þung refsing. Góð og gild ástæða er fyrir því. Sá sem falsar seðla rænir hluta af kaupmætti peningastofnsins fyrir sjálfan sig. En ef bankin býr til innstæðu og lánar hana út þá telst það ekki lögbrot. Þó hefur peningaaukning af völdum banka jafn neikvæð áhrif og peningafölsun. Þetta er alvarleg glufa í peningakerfinu. Glufa sem við höfum leyft einkabönkum að nýta sér á kostnað alls samfélagsins. Fyrst fölsun peningaseðla er bönnuð þá ætti einnig framleiðsla banka á innstæðum sem hafa ígildi peninga að vera bönnuð.‟

Frosti tekur hér í sama streng og enski hagfræðingurinn James Mill sem taldi „Hanging, a thousand times repeated [to be] not too severe a punishment for any who would undermine sound money“.

Frosti, líkt og Mill fyrir 200 árum, skilur ekki að„framleiðsla banka á innstæðum‟ – nýsköpun peninga – er ekki glæpur heldur forsenda gróskumikils atvinnulífs og vaxandi verðmætasköpunar.

Forsætisráðherra býst til að takast á hendur viðamestu skuldaleiðréttingu í mannkynssögunni.

Þar stefnir í óefni að óbreyttu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.10.2013 - 21:53 - FB ummæli ()

Endemis rugl í öndvegi – Stöðugleika ógnað

I.

Sérfræðingahópur ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar lýkur senn störfum.

II.

Af umsögn forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í útvarpsviðtali í dag má ráða að þar verði ekki hvikað frá þeirri stefnu í málinu sem Framsóknarflokkurinn boðaði fyrir alþingiskosningarnar 27. apríl sl.

III.

Umsögn mín um þá stefnu kom til umræðu þegar leiðtogar stjórnmálaflokka sátu fyrir svörum í beinni útsendingu á Stöð 2 við lok kosningabaráttunnar. (http://www.youtube.com/watch?v=azs3YJ_vxkE)

Lóa Pind:

Gunnar Tómasson, hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til langs tíma, kemur fram núna í vikunni og hann segir að fyrirheit ykkar um skuldalækkanir öllum að kostnaðarlausu nema kröfuhöfum þrotabúanna sé slíkt endemis rugl að hann geti ekki þagað. Hann segir að þessar krónueignir sem þið viljið fá í afslátt frá kröfuhöfum séu einkum ríkisskuldabréf og reiðufé og það eigi bara að fara sjálfkrafa í að lækka skuldir ríkissjóðs. Hvað segirðu um þetta?

Sigmundur Davíð:

Þetta er nú reyndar ekki rétt, mjög fátt í þessu er a.m.k. rétt og snúið út úr öðru. En Gunnar Tómasson hins vegar var á einhverjum punkti genginn til liðs við Dögun, svo man ég ekki hvar hann endaði í framboði – snérist algjörlega gegn Framsóknarflokknum. Hafði fram að því verið töluvert náinn okkur í málflutningi. Hann á auðvitað rétt á því að beita sér í sinni pólitík, en hins vegar hafa margir aðrir talað um þessar tillögur okkar á mjög uppbyggilegan hátt og útskýrt að þær gangi upp. Þær eru í rauninni mjög einfaldar.

Og nokkru síðar:

Lóa Pind:

Þannig að þú tekur ekki undir þessi orð.

Sigmundur Davíð:

Nei, nei, nei, auðvitað ekki.

IV.

Forsætisráðherra hafði lög að mæla – málið er einfalt:

Ef A skuldar B meira en góðu hófi gegnir, þá er einfaldasta – og réttlátasta – leiðréttingaraðferðin að B gefi eftir þann hluta sem telst vera óhóflegur.

B í þessu tilfelli er einn af eftirfarandi:

1. Íbúðalánasjóður/Lífeyrissjóðirnir,
2. Kröfuhafar þrotabúa Glitnis og Kaupþings,
3. Íslenzkir skattborgarar.

V.

Og þá er komið að kjarna farsællar stjórnsýslu:

Að gera rétt og þola ekki órétt .

Í því felst m.a. að hengja ekki bakara fyrir smið.

Kröfuhafa þrotabúanna fyrir kröfuhafa Íbúðalánasjóðs.

Og grafa óafvitandi undan fjármálalegum stöðugleika.

VI.

Og hvernig mætti það vera?

Hér er einfalt dæmi:

1. Kröfuhafar kaupa gjaldeyri af Seðlabanka fyrir 400 milljarða á tvöföldu skráðu gengi.

2. Stjórnvöld nota 200 milljarða hagnað til að fjármagna skuldaleiðréttingu.

3. Slík fjármögnun er í ENGU frábrugðin seðlaprentun til að leiðrétta skuldir heimilanna.

Ástæðan ætti að vera sérfræðingum forsætisráðherra ljós:

Í báðum tilfellum eykst kaupmáttur ÁN aukningar á verðmætasköpun í hagkerfinu.

Og þar með er fjármálalegum stöðugleika ógnað.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.10.2013 - 00:08 - FB ummæli ()

Erlendir og innlendir stórkrónueigendur – Jón og séra Jón

Já, hrunið er enn að gerast – hagkerfið er í grundvallaratriðum óbreytt frá því sem var fyrir 6. október 2008.

Núna má segja að erlendir kröfuhafar og innlendir stórkrónueigendur séu í sama báti með kröfur á innstæðulausan bankareikning þjóðarbúsins.

Og stjórnvöld gera kröfu til þess að þeir erlendu sýni skilning á málum og afskrifi hundruði milljarða – en gera engar kröfu í þá veru til innlendra stórkrónueigenda.

Þegar til lengdar lætur skiptir engu máli hvernig kaupin gerast á eyrinni varðandi erlendu kröfuhafana EF stjórnvöld manna sig ekki upp í að taka á innlendu hlið innstæðulausa krónuvandans.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.9.2013 - 22:37 - FB ummæli ()

Hvað er innlent fjármagn?

Í umræðu um innlent fjármagn/peninga er allt sett undir einn hatt:

1. Peningar sem virkja mannauð, auðlindir og innflutt aðföng til framleiðslu og auka þarmeð verðmætasköpun.

2. Peningar sem lífeyrissjóðir taka af atvinnutekjum í mynd iðgjalda sem minnka kaupmátt almennings/hvata til verðmætasköpunar.

3. Peningar í mynd „ávöxtunar“ lífeyrissjóða í gegnum verðtryggð lán á kostnað kaupmáttar almennings/hvata til verðmætasköpunar.

Það má tína fleira til, en kjarni málsins er sá að lífeyrissjóðakerfið hefur verið fjárhagslegur dragbítur á endurreisn íslenzka hagkerfisins eftir hrun.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.9.2013 - 22:12 - FB ummæli ()

Pólitískt hugrekki – ekki

Íbúðalánasjóður er afgreiðslustofnun fyrir lífeyrissjóðina sem fjármagna að miklu leyti húsnæðislán ÍLS.

Lífeyrissjóðirnir eru því óbeinir eigendur að stórum hluta verðtryggðra húsnæðislána Íbúðalánasjóðs.

Og hafa því um árabil notið hvalreka fjármagnaðan af tekjum og eignum heimila landsins.

Eðli málsins samkvæmt ættu lífeyrissjóðirnir að bæta heimilunum forsendubrestinn.

En það er ekki til umræðu.

Hitt er til umræðu að hengja bakara fyrir smið – erlenda kröfuhafa í stað eigenda hvalrekans.

Löglegt – en siðferðileg og pólitísk lágkúra.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.9.2013 - 20:46 - FB ummæli ()

Leiðrétting húsnæðisskulda – hafa stjórnvöld farið að lögum?

Washington D.C.

15. september 2013.

Til:      Efnahags- og viðskiptanefndar

Frá:     Gunnari Tómassyni, hagfræðingi

Efni:    Leiðrétting húsnæðisskulda

1.         Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 63/1985 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga segir m.a.

Frumvarpið nær einungis beint til lána byggingarsjóða ríkisins, en gert er ráð fyrir að sama tilhögun geti gilt um húsnæðislán annarra sjóða og stofnana eftir því sem um semst milli lántaka og lánveitanda. Það er því hins vegar ákvörðun viðkomandi lífeyrissjóða, banka og annarra sjóða og stofnana hvort greiðslujöfnun í samræmi við þetta frumvarp verður tekin upp þar, en lögð er áhersla á að slíkt samkomulag verði um lán til húsnæðismála.

2.         1. gr. laga nr. 63/1985 var svohljóðandi:

Tilgangur laga þessara er að jafna greiðslubyrði af verðtryggðum fasteignaveðlánum einstaklinga. Skal misgengi, sem orsakast af hækkun vísitölu neysluverðs eða annarrar viðmiðunarvísitölu lána umfram hækkun launa, ekki valda því að greiðslubyrði af lánum þyngist.

3.         Fyrsta málsgrein 2. gr. laga nr. 63/1985 var svohljóðandi:

Lög þessi taka til verðtryggðra lána einstaklinga sem tryggð eru með veði í fasteignum hér á landi hjá opinberum lánastofnunum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum sem hafa starfsleyfi á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki hér á landi. Skal greiðslujöfnun beitt á öll slík lán nema lánþegi hafi sérstaklega óskað þess að vera undanþeginn greiðslujöfnun. Skilmálabreyting á lánasamningi vegna greiðslujöfnunar skal vera lánþega að kostnaðarlausu.

4.         Með lögum nr. 59/2004 var eftirfarandi breyting gerð á lögum nr. 63/1985:

Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði laga þessara taka þó ekki til ÍLS-veðbréfa sem Íbúðalánasjóður veitir eða afgreiðir frá og með 1. júlí 2004.

5.         Með lögum nr. 133/2008 var viðbótin felld niður, sbr. nýjan texta 1. mgr. 2. gr. laga nr. 63/1985:

Lög þessi taka til verðtryggðra lána einstaklinga sem tryggð eru með veði í fasteignum hér á landi hjá opinberum lánastofnunum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum sem hafa starfsleyfi á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki hér á landi óski lántakandi eftir greiðslujöfnun samkvæmt ákvæðum laganna. Skilmálabreyting á lánasamningi vegna óskar lántakanda um greiðslujöfnuð skal vera honum að kostnaðarlausu.

Umsögn

I.          Af feitletruðu setningunni í lið 2. að ofan verður ekki annað ráðið en að hugtakið greiðslujöfnun skv. lögum nr. 63/1985 feli í sér að sérhver hækkun vísitölu neysluverðs eða annarrar viðmiðunarvísitölu, t.d. gengisvísitölu, umfram hækkun launa leiði til heimildar til greiðslujöfnunar sem lækkar greiðslubyrði um jafngildi þess hluta sem stafar af misgengi launa og viðmiðunarvísitalna.

II.        Af niðurfellingu með lögum nr. 133/2008 á þeirri viðbót við 1. mgr. 2. gr. laga sem kveðið var á um í lögum nr. 59/2004 verður ekki annað ráðið en að lántakendur hafi átt rétt til slíkrar lækkunar á greiðslubyrði húsnæðisskulda heimilanna við Íbúðalánasjóð frá árslokum 2008.

***

Erindi mitt var sent í viðhengi við eftirfarandi bréf mitt til nefndarmanna:

Ágætu alþingismenn.

Í viðhengi er samantekt á ákveðnum ákvæðum laga nr. 63/1985 um um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

Með lögum nr. 59/2004 var eftirfarandi setningu bætt við 1. mgr. 2. gr. laganna:

„Ákvæði laga þessara taka þó ekki til ÍLS-veðbréfa sem Íbúðalánasjóður veitir eða afgreiðir frá og með 1. júlí 2004.‟

Með lögum nr. 133/2008 var þessi viðbót felld úr 1. mgr. 2. gr. laga nr. 63/1985.

Í umsögn minni í lok samantektarinnar segir:

I.             Af feitletruðu setningunni í lið 2. að ofan* verður ekki annað ráðið en að hugtakið greiðslujöfnun skv. lögum nr. 63/1985 feli í sér að sérhver hækkun vísitölu neysluverðs eða annarrar viðmiðunarvísitölu, t.d. gengisvísitölu, umfram hækkun launa leiði til heimildar til greiðslujöfnunar sem lækkar greiðslubyrði um jafngildi þess hluta sem stafar af misgengi launa og viðmiðunarvísitalna.

II.            Af niðurfellingu með lögum nr. 133/2008 á þeirri viðbót við 1. mgr. 2. gr. laga sem kveðið var á um í lögum nr. 59/2004 verður ekki annað ráðið en að lántakendur hafi átt rétt til slíkrar lækkunar á greiðslubyrði húsnæðisskulda heimilanna við Íbúðalánasjóð frá árslokum 2008.

* Tilvitnaður texti er þessi:

„Skal misgengi, sem orsakast af hækkun vísitölu neysluverðs eða annarrar viðmiðunarvísitölu lána umfram hækkun launa, ekki valda því að greiðslubyrði af lánum þyngist.‟

Í fljótu bragði fann ég ekki neinar breytingar á lögum nr. 63/1985 eftir setningu laga nr. 133/2008 sem kynnu að breyta forsendum umsagnar minnar.

Liður II. í umsögn minni byggir á því að engar slíkar breytingar hafi verið gerðar.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.7.2013 - 14:19 - FB ummæli ()

Einbeittur brotavilji í „góðri trú“ – réttvísi byggð á „rökleysu“

Það er ótrúverðugt:

1. Að samtök fjármálastofnana mótmæli fyrirhuguðu banni við gengistryggingu krónulána í umsögn til Alþingis 24. apríl 2001 – en hafi síðan fyllst óvissu um ólögmæti gengistryggingar krónulána eftir samþykkt laga nr. 38/2001 þann 26. maí 2001.

2. Að Seðlabanki Íslands taki þátt í gerð frumvarps sem varð að lögum nr. 38/2001 – en hafi síðan fyllst óvissu um ólögmæti gengistryggingar krónulána eftir að fjármálastofnanir ákváðu að virða bannið að vettugi.

3. Að fulltrúi samtaka fjármálastofnana flytji Alþingi mótmæli þeirra vegna fyrirhugaðs banns við gengistryggingu krónulána – en haldi því fram þegar Hæstiréttur eyðir meintri óvissu að brot fjármálastofnana gegn lögum nr. 38/2001 hafi verið framin í „góðri trú“.

4. Að Hæstiréttur Íslands kynni sér forsögu málsins – en hafi síðan í góðri trú fellt dómsorð á þeirri forsendu að báðir aðilar málsins hafi verið í góðri trú að lög nr. 38/2001 heimiluðu gengistryggingu krónulána.

5. Að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafi í góðri trú beint þeim tilmælum til lánastofnana að láta ákveðna seðlabankavexti koma í stað samningsvaxta á forsendum sem ég hef leyft mér að kalla „rökleysu“.

6. Að dómara Hæstaréttar hafi skort rökfestu til að átta sig á rökleysunni.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Gunnar Tómasson
Ég er fæddur (1940) og uppalinn á Melunum í Reykjavík. Stúdent úr Verzlunarskóla Íslands 1960 og með hagfræðigráður frá Manchester University (1963) og Harvard University (1965). Starfaði sem hagfræðingur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 1966 til 1989. Var m.a. aðstoðar-landstjóri AGS í Indónesíu 1968-1969, og landstjóri í Kambódíu (1971-1972) og Suður Víet-Nam (1973-1975). Hef starfað sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á ýmsum sviðum frá 1989, þ.m.t. peningahagfræði. Var einn af þremur stofnendum hagfræðingahóps (Gang8) 1989. Frá upphafi var markmið okkar að hafa hugsað málin í gegn þegar - ekki ef - allt færi á annan endann í alþjóðapeningakerfinu. Í október 2008 kom sú staða upp í íslenzka peninga- og fjármálakerfinu. Alla tíð síðan hef ég látið peninga- og efnahagsmál á Íslandi meira til mín taka en áður. Ég ákvað að gerast bloggari á pressan.is til að geta komið skoðunum mínum í þeim efnum á framfæri.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar