Föstudagur 02.10.2015 - 20:31 - FB ummæli ()

Takk Kristján Þór!

Velferðarráðuneytið mun leggja til að öll börn í einum árgangi í efri bekkjum grunnskóla verði skimuð fyrir kvíða og þunglyndi og að þau sem teljist í áhættu fái úrræði sem felst í námskeiði. Þetta hefur ég fengið staðfest úr ráðuneytinu. Þau sem greinast með þunglyndi verður síðan vísað í meðferð. Þessi aðgerð hefur þegar verið kostnaðargreind, bæði skimunin og námskeiðið.

Þessi ákvörðun er tekin eftir að undirritaður, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum, höfum í tvígang lagt fram tillögu um að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá öllum börnum og að þau sem þurfi aðstoð fái hana. Velferðarnefnd þingsins vísaði málinu til ráðuneytisins í sumar, þar sem ráðherra og starfsmenn hafa tekið það upp á sína arma.

Þetta eru frábærar fréttir. Rannsóknir hafa sýnt að jafnvel 10-20% barna á grunnskólaaldri þurfa á aðstoð að halda. Oft duga viðtöl og meðferð. Það er fátt skelfilegra en að sjá börn og unglinga einangrast vegna kvíða og þunglyndis, flosna upp úr skóla, einangrast félagslega og verða jafnvel óvinnufær til framtíðar. Í verstu dæmunum hefur jafnvel verið um sjálfsvíg að ræða.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og starfsfólk hans í velferðarráðuneytinu eiga mikinn heiður skilinn fyrir hvernig tekið hefur verið á þessu máli.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur