Mánudagur 22.02.2016 - 13:04 - FB ummæli ()

Í hart gegn skattsvikum

Ríkisskattstjóri hefur áætlað að skattaundanskot, m.a. vegna kennitöluflakks, geti numið um 80 milljörðum króna á ári. Þetta er ámóta upphæð nemur kostnaði við byggingu nýs Landspítala – og það á hverju ári.

Þingmenn og ráðherrar hafa haft stór orð um þá meinsemd sem kennitöluflakk er – það hefur þó verið minna um athafnir hjá þeim.

Ég legg í dag fram lagafrumvarp, ásamt þingmönnum úr fjórum flokkum,  sem kveður á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar megi ekki á síðustu þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö félög eða fleiri sem orðið hafa gjaldþrota. Þetta er fyrsta raunverulega atlagan sem gerð er gegn kennitöluflakki, þar sem hópur manna hefur stundað misnotkun á þeirri takmörkuðu ábyrgð sem felst í félagaforminu.

Samtök atvinnurekenda munu eflaust reka upp ramakvein og hafa stór orð um íþyngjandi ákvæði sem hefti frelsi manna til athafna og atvinnu. Ákvæðið er vissulega íþyngjandi, en þó nauðsynlegt með tilliti til þeirra hagsmuna sem fyrir hendi eru. Stundum er nauðsynlegt að setja skorður á frelsið, sérstaklega ef hagmunir þorra almennings eru þess eðlis.  Atvinnufrelsisákvæði  75. gr. stjórnarskrár opnar einnig fyrir þann möguleika.

Trúi ekki öðru en að þeir þingmenn sem hæst hafa haft um kennitöluflakk á Alþingi styðji málið. Eða er það ekki öruggt?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur