Laugardagur 21.05.2016 - 10:32 - FB ummæli ()

Aldraðir skildir eftir

Margt bendir til þess að Alþingi muni ekki afgreiða þingsályktun mína og nokkurra annarra þingmanna Framsóknarflokksins um að sett verði á laggirnar embætti umboðsmanns aldraðra.

Þetta er þyngra en tárum taki.

Málið er núna búið að vera fast í velferðarnefnd þingsins svo mánuðum skiptir. Nefndinni er  ákveðin vorkunn, þar sem hún hefur verið upptekin í stórum málaflokkum, svo sem húsnæðismálum, sem eru tímafrek. Þó er vitað um ákveðna andstöðu innan nefndarinnar við málið og er það miður.

Ellefu umsagnir hafa borist og eru þær allar mjög jákvæðar, nema tvær þar sem varpað er fram efasemdum um að rétt sé að stofna enn eitt embættið. Rétt er að geta þess að hugsunin með framlagningu málsins var aldrei að stofna stórt og fjárfrekt embætti.

Sjálfur er ég sannfærður um að mikill meirihluti sé fyrir þessu máli á þingi. Það er því sorglegt að þingið fái ekki að greiða atkvæði um umboðsmanninn þannig að lýðræðisleg niðurstaða fáist.

Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega fær um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfur. Það er rík þörf á málsvara fyrir þennan hóp. Sú þörf mun aðeins aukast eftir því sem tímar líða. Gert er ráð fyrir að 67 ára og eldri fjölgi um rúmlega 26.000 á næstu 15 árum, um 71%. Talið er að 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600, um 55%.

Sambærileg mál hafa oftsinnis verið lögð fram á þingi, en ætíð stöðvast þar. Einn helsti baráttumaður fyrir stofnun umboðsmanns aldraðra hefur verið Guðmundur Hallvarðsson, sá ágæti fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fáir þekkja hag og aðstæður aldraðra betur en hann, enda hefur hann verið lykilmaður í stjórnun Hrafnistuheimilanna um árabil.

Guðmundur hefur sannfært mig um mikilvægi málsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur