Nokkur umræða hefur verið um hvort Ísland geti í samningum um aðild að ESB fallið undir ákvæð í Lissabon-sáttmálanum um svokölluð ystu svæði innan ESB. Jón Sigurðsson fv. formaður Framsóknarflokksins vekur athygli á þessu í grein sem hann skrifar á vefsvæði Pressunnar nýverið en þessar reglur má rekja til Rómarsáttmálans og eru einsskonar þróunaraðstoð ESB til vanþróaðra svæða innan sambandsins. Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis taldi einnig í áliti sínu að þessa kosti verði að meta.
Nokkuð hefur verið rætt um þessar sértæku ráðstafanir eins og um samninginsbundnar undanþágur sé að ræða. Svo er alls ekki. Hér er um heimildarákvæði til handa framkvæmdastjórninni til að veita svæðunum þróunaraðstoð að höfðu samráði við Evrópuþingið. Ívilnandi ráðstafanir sem um ræðir á grundvelli svæðisstefnu ESB eru algjörlega á forræði framkvæmdastjórnarinnar að inntaki og tímalengd.
Eins og fram kemur í 349. grein Lissabon-sáttmálans er litið til áhrifa ýmissa þátta sem taldir eru setja þróun svæðanna miklar skorður og eru skilyrði þróunaaðstoðar ESB.
Skilyrði fyrir því að veita megi þeim svæðum sem um ræðir þróunaraðstoð eru að slíkar ráðstafanir megi ekki grafa undan festu í réttarkerfi ESB þ.m.t. á innri markaðnum og í sameiginlegum stefnum.
Stefán Már Stefánsson prófessor við Háskóla Íslands hefur eina mesta þekkingu innlendra fræðimanna á málefnum ESB.
Í viðtali við neiesb.is segir Stefán eftirfarandi:
„Evrópurétturinn gerir ráð fyrir bæði varanlegum og tímabundnum undanþágum. Hann gerir líka ráð fyrir því að ESB reglur séu settar eða þeim beitt í þágu einstakra ríkja eða tiltekinna svæða. Þessu má ekki rugla saman […] Í tilviki Möltu er um að ræða sérlausn í þágu einstaks ríkis í sjávarútvegsmálum, en ekki varanlega undanþágu frá reglum Evrópusambandsins. Evrópusambandið getur síðar breytt þessum lögum með sama hætti og það getur breytt öðrum lögum Sambandsins. Varanlegar undanþágur, þ.e. reglum sem ekki verður breytt nema með samþykki viðkomandi aðildarríkis, eru ansi fátíðar, og eru þær líklegri í þeim tilvikum þegar ríki eru þegar komin inn í Evrópusambandið og Evrópuréttur er að taka breytingum.“
Stefán bætir svo við: „Það er ákveðið áhyggjuefni ef þessum atriðum er ruglað saman og niðurstaðan ekki skýr þegar aðildarsamningur liggur fyrir. Þess vegna er afar brýnt að menn átti sig á því að ekki er um varanlega undanþágu að ræða nema að tekið sé skýrt fram í aðildarsamningi að undanþágan sé varanleg og að henni sé ekki unnt að breyta nema með samþykki viðkomandi ríkis.“.
Nei við ESB tekur heilshugar undir með með Stefáni að ekki má rugla saman reglum ESB um svæðisstefnu (e. Regional Policy) og reglum um varanlegar undanþágur (e. Permanent Derogation) frá sameiginlegri stefnu Sambandsins.
Þegar grannt er skoðað er ljóst að Ísland á fátt sameiginlegt með vanþróuðum svæðum innan ESB sem svæðisstefnan tekur til. Sjávarútvegur Íslands er háþróaður, afkastamilill og í fremstu röð. Hið sama á við um íslenskan landbúnað sé tekið tillit til náttúru og veðurfars. Þá hafa afskipti Eftirlitsstofnunnar EFTA (ESA) á grundvelli EES samningsins ótvírætt leitt í ljós að frávik í löggjöf og markaðsmálum á Íslandi frá reglunum á Evrópska efnahagssvæðiðinu, eru talin grafa undan festu í réttarkerfi og sameiginlegum stefnum ESB.
Hér eftir fer þýðing utanríkisráðuneytis á 349. gr. Lissabondsáttmálans:
349. gr.
(áður önnur, þriðja og fjórða undirgrein 2. mgr. 299. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins)
Með hliðsjón af atvinnu- og uppbyggingarskilyrðum og efnahagslegri og félagslegri stöðu á Gvadelúpeyjum, Frönsku Gvæjana, Martiník, Réunion, Sankti Bartolómeusar-eyjum, Sankti Martinseyjum, Asoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum, sem standa höllum fæti sökum þess að um er að ræða afskekkt eyjasamfélög sem einkennast af smæð, erfiðum staðháttum og veðurfari og efnahag sem reiðir sig á fáar framleiðsluvörur, en varanlegt eðli og samanlögð áhrif þessara þátta setja þróun þeirra miklar skorður, skal ráðið samþykkja, að tillögu framkvæmdastjórnarinnar og að höfðu samráði við Evrópuþingið, sértækar ráðstafanir sem miða einkum að því að ákveða með hvaða skilyrðum ákvæðum sáttmálanna, m.a. sameiginlegum stefnum, skuli beitt gagnvart þessum svæðum. Þegar ráðið samþykkir sértækar ráðstafanir af þessu tagi í samræmi við sérstaka lagasetningarmeðferð skal það einnig taka slíka ákvörðun að tillögu framkvæmdastjórnarinnar og að höfðu samráði við Evrópuþingið. Ráðstafanir samkvæmt fyrstu málsgrein varða einkum svið á borð við stefnu í tollamálum og viðskiptum, stefnu í skattamálum, frísvæði, landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu, skilyrði fyrir framboði á hráefnum og nauðsynlegum neysluvörum, ríkisaðstoð og skilyrði fyrir aðgangi að
uppbyggingarsjóðum og þverlægum áætlunum Sambandsins.
Ráðið skal samþykkja ráðstafanir samkvæmt fyrstu málsgrein með hliðsjón af sérstökum einkennum ystu svæðanna og takmörkunum sem þau búa við, án þess þó að grafa undan áreiðanleika og festu í réttarkerfi Sambandsins, þ.m.t. innri markaðnum og sameiginlegu stefnunum.