Mánudagur 27.05.2013 - 08:27 - FB ummæli ()

Egill og engin aðlögun að ESB.

Egill Helgason setur fram vanhugsaða færslu á Eyjubloggi sínu þar sem hann fullyrðir að engin aðlögun eigi sér stað í aðildarferli umsóknarríkis að ESB. Rökin fyrir þessu segir hann helst þau að verði ekki af aðild þurfi ekki að vinda ofan af aðlögunarferlinu undanfarin 4 ár. Fullyrðir hann að samningaferlið sé nefnt aðlögun í áróðurskyni.

Þetta er mikil einföldun hjá þessum annars ágæta álitsgjafa.

Hver skyldi ástæðan vera fyrir því að ekki þarf að vinda ofan af aðlögunarferlinu eftir 4 ára „samningaviðræður“?

Svarið liggur í augum uppi. Á fjórum árum hafa þessi mál lítið þokast umfram það að lesa saman þá kafla sem Ísland hefur í raun innleitt sem skuldbindandi reglur ESB á grundvelli EES samningsins. Þeir kaflar sem útaf standa s.s. varðandi nýtingu náttúruauðlinda og skarast við löggjöf ESB eru óræddir. Á þeim sviðum hafa íslensk stjórnvöld verið að pukrast við samningsmarkmið sem ekki þoldu dagsins ljós fyrir nýafstaðnar Alþingiskosningar.

Þetta á t.d. við um nýtingu hlunninda ýmisskonar s.s. veiðar á viltum dýrum osfrv. Þá eru hin stóru ágreiningsmál einnig órædd. Þar ber sjávarútvegsstefnu bandalagsins hæst. Hvort sem menn vilja kalla það innleiðingu eða aðlögun þá liggur fyrir að það eru skilyrði af hálfu ESB, í samræmi við grundvallarlög bandalagsins, að íslensk fiskimið verði opnuð fyrir togurum sem gerðir eru út innan ríkja bandalagsins og jafnframt að aflétt verði banni við erlendri fjárfestinu í sjávarútvegi. Íslendingar þyrftu einnig að skuldbinda sig til að breyta landbúnaðarstefnu sinni í takt við reglur ESB. Tollar yrðu ófrávíkjanlega að hverfa, löggjöf um greiðslustofu landbúnaðarins þarf að liggja fyrir og jafnfram áætlum um að gerbreyta styrkjakerfi landbúnaðarins sem skal þá taka mið af búsetu- og ræktunarstyrkjum í stað framleiðslutengdra styrkja eins og nú er. Til að svo megi verða þarf að liggja fyrir nákvæm skrásetning landkosta og náttúru landsins. Til þess verks hefur ESB veitt hundruðum milljóna nú þegar.

Evrópusambandið kveður skýrt á um hvaða skyldur eru lagðar á umsóknarríki á heimasíðu sinni.

Til að auðvelda umsóknarríki að uppfylla kröfur ESB áður en til aðildar kemur veitir Evrópusambandið umsóknarlandinu IPA styrki (Instrument for Pre-accession Assistance). Þessir styrkir eru til að undirbúa aðild, nokkursskonar foraðildarstuðningur. Ýmsir hafa gengið svo langt að líkja foraðildarstyrkjum ESB við mútufé. Undir það er ekki tekið hér þótt styrkþegarnir kunni að vera í sjöunda himni. Þessir styrkir eru hinsvegar ætlaðir til að undirbúa umsóknarríki undir að taka á sig skyldur sem aðild fylgja frá fyrsta degi.

Ef fullyrðing Egils er rétt liggur beint við að engin þörf sé á styrkjum frá ESB vegna aðildarferlisins. Styrkirnir væru þá vísast veittir þegar um aðild umsóknarríkis hefur verið „samið“ og hún samþykkt af öllum aðilum.

Einu gildir hvor um þetta ferli er talað sem aðlögun eða innleiðingu. Eitt er víst að Evrópusambandið er ekki í vafa um hvað málið snýst þótt hér deili menn um keisarans skegg.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur