Þriðjudagur 28.05.2013 - 16:31 - FB ummæli ()

Kvikar krónur

Málþing Vefpressunnar um snjóhengjuna var forvitnilegt fyrir margra hluta sakir. Seðlabankastjóri sló fram nýyrði um krónueignir kröfuhafa sem ólmir vilja breyta þeim í erlendan gjaldeyrir og flytja úr landi. Nú skal það heita kvikar krónur. Mesta athygli vöktu þó yfirlýsingar fyrrverandi fjármálaráðherra Katrínar Júlíusdóttir. í stuttu erindi sínu lýsti hún þeim stóru vandamálum sem við er að glíma.

Eitt af stóru vandamálunum sagði hún vera skuldabréf Landsbanka Íslands sem gefið var út til þrotabús gamla Landsbankans. Nú er það svo að fyrrverandi ríkisstjórn var staðgöngumóðir þessara viðskipta. Með þessum orðum er fyrrum ráðherrann að lýsa einum stærstu hagstjórnarmistökum síðustu ríkisstjórnar.

Hvernig má það vera að þeir sem svona stóðu að málum hafi reiknað með að Landsbankinn gæti staðið í skilum með afborganir af skuldabréfinu á svo stuttum tíma? Og hvaðan átti að taka allan þennan gjaldeyri eða um 70 milljarða á ári? Því verður vart trúað að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi blessað þetta í bak og fyrir. Þessir 300 milljarðar eru náttúrulega ekki bara kvikar krónur. Auðvitað þarf að upplýsa hvaða hagsmunir réðu ferðinni í þeim gjörningi sem nú ógnar fjármálastöðugleika á Íslandi. Þarna virðast stjórnvöld hafa verið ansi kvik á verði fyrir íslenska hagsmuni.

Önnur yfirlýsing Katrínar var ekki síður athyglisverð. Hún sagðist hafa nokkrar áhyggjur af stefnu nýrrar ríkisstjórnar um að hætta viðræðum við ESB. Það sagði hún geta minnkað traust umheimsins og jafnvel að ESB myndi „pressa“ á Íslendinga að aflétta fjármagnshöftum á Íslandi sem fyrst og vísaði til EES samningins í því sambandi. Þessi orð eru einkar athyglisverð úr munni fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar. Sú spurning hlýtur að vakna hvort fulltrúar ESB hafa sett fram hótanir við íslensk stjórnvöld í þessa veru. Varla er hér um hræðsluáróður til heimabrúks hjá Katrínu Júlíusdóttur að ræða.

Það kvað hins vegar við nýjan tón hjá nýbökuðum forsætisráðherra. Yfirlýsing hans um að stjórnvöld myndu nýta fullveldisrétt Íslands til að ganga eins langt og þarf til að verja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sýnir svo ekki verður um villst að nú verður örlögum Íslands ráðið í stjórnarráðinu og á Alþingi Íslendinga, en ekki í Brussel.

Það væri óhugsandi að forsætisráðherra gefi slíkar yfirlýsingar hefði ætlan fyrrverandi ríkisstjórnar um aðild Íslands að ESB orðið að veruleika á síðasta kjörtímabili.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur