Þriðjudagur 18.02.2014 - 19:18 - FB ummæli ()

Umsóknin verður afturkölluð

Fram kom í Bylgjufréttum rétt í þessu að tillaga um afturköllun umsóknar að ESB muni verða lögð fram á Alþingi á næstu dögum. Fyrri ríkisstjórn hafði allt síðasta kjörtímabil til að koma Íslandi inn í ESB en mistókst það, enda fór hún í verkið á fölskum forsendum. Össur, Jóhanna, Árni Páll, Baldur Þórhallsson og fleiri létu í veðri vaka að ekki ætti að taka meira en eitt til eitt og hálft ár að ljúka viðræðum. Fyrrverandi stjórn gafst upp á verkinu áður en kjörtímabilinu var lokið. Það kemur enda í ljós í skýrslu Hagfræðistofnunar að það var ESB sem réð algjörlega ferðinni og hafði sína hentisemi í þeim efnum, enda var ekki um venjulegar samningaviðræður að ræða heldur hreint og beint aðlögunarferli að lögum og reglum ESB eins og oft hefur komið fram.

Núverandi ríkisstjórn er búin að hafa rúmt hálft ár til þess að fara yfir málið. Nú liggur skýrsla Hagfræðistofnunar um ESB-ferlið fyrir. Þar kemur ekkert fram sem knýr á um að ferlinu verið haldið áfram. Þvert á móti. Þjóðin er á móti aðild. Ríkisstjórnarflokkarnir telja að aðild þjóni ekki hagsmunum þjóðarinnar.

Það er því kominn tími til að slíta þessu aðlögunarferli formlega með samþykkt Alþingis og snúa sér að öðrum og uppbyggilegri málefnum.

Ein aðalspurningin þegar tekin verður afstaða til tillögu um afturköllun umsóknar verður hvernig Vinstri græn ætla að haga sér. Flokkur þeirra er á móti aðild að ESB þar sem hann telur að slík aðild þjóni ekki hagsmunum Íslendinga. Fyrir ári síðan samþykkti flokksstjórnarfundur Vinstri grænna að gefa viðræðunum ár til viðbótar. Nú er það ár liðið. Ætla Vinstri græn að standa við þau fyrirheit að fylgja þá stefnu sinni fyrst aðlögunarviðræðurnar eru runnar út í sandinn?

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur