Það er brostinn á flótti í liði þeirra sem hafa viljað toga okkur Íslendinga að og inn í ESB. Nýjasta dæmið um þetta er breytt afstaða Vinstri grænna sem fram kemur í þeirri ályktun sem þau lögðu fyrir Alþingi í gær. Nú vilja Vinstri græn gera hlé á aðildarviðræðum og jafnframt ekki taka þær aftur upp nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi afstaða er langt frá þeirri afstöðu sem Steingrímur og Björn Valur keyrðu áfram allt fram á þetta kjörtímabil. Katrín Jakobsdóttir hefur nú náð valdasprotanum úr höndum þeirra félaga.
Vinstri græn hafa vegna þessa sviðið í dag. Þau eru að reyna að marka sér sérstöðu frá Samfylkingunni í Evrópumálunum. Vinstri græn þurfa á því að halda, enda er flokkurinn á móti aðild að ESB. Það er ekkert sem knýr á um fyrir þau að vera í slagtogi með Össuri og félögum. Árni Þór Sigurðsson gerir sér grein fyrir því að ríkisstjórnin mun hafa sitt fram og býr sig nú undir þinglega meðferð á tillögu utanríkisráðherra eins og fram kom í hádegisfréttum. Árni gerir sér grein fyrir því að engar líkur eru á því að ríkisstjórnin muni fallast á tillögu Vinstri grænna, en kannski geta Vinstri græn í meðferð málsins náð að breyta ásýnd flokksins.
Þegar kemur að tiltrú VG í ESB-málinu er stóra málið hvaða afstöðu þingmenn flokksins taka til tillögu utanríkisráðherra. Greiði þingmenn þess flokks sem er á móti aðild að ESB atkvæði gegn tillögu utanríkisráðherra er tiltrú þingflokksins og flokksins alls fokin út í veður og vind. Þingflokkurinn gæti bjargað sér fyrir horn með hjásetu en eina sterka leiðin til að efla traust á flokknum og stefnumálum hans er sú ef að minnsta kosti þau sem greiddu atvkæði gegn ályktun um aðildarumsókn á sínum tíma greiði nú atkvæði með tillögu utanríkisráðherra og að enginn úr röðum VG greiði atkvæði gegn henni. Það er líklega það minnsta sem VG getur gert til að bjarga andlitinu í þessu máli.