Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, hefur staðið í ströngu að undanförnu. Honum hefur þó tekist að sýna með mjög sannferðugum hætti að það sé rétt af Sjálfstæðisflokknum, og eina rétta leiðin, að hætta þessum aðlögunarviðræðum formlega. Öðruvísi geta þingmenn ekki snúið sér að þarfari verkefnum og öðruvísi getur þjóðin ekki snúið sér að því að byggja áfram upp velferð hér á landi á eigin gruni.
Vitaskuld er þetta ekki auðveld leið fyrir formann flokksins þegar ákveðinn hópur flokksmanna vill klára aðildarviðræður og verða hluti af ESB. ESB–málið er hins vegar þannig að það er annað hvort eða. Annað hvort höldum við áfram ferlinu og stefnum á að fara þarna inn eða að við hættum því og hugum að okkar málum á sjálfstæðan hátt.
Vissulega var rætt um þann möguleika í aðdraganda kosninga að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldi viðræðna. Samfylkingin og Vinstri græn tóku það þó ekki í mál, ekki fyrr en Vinstri græn hafa nú nýlega skipt um kúrs og vilja undir forystu Katrínar Jakobsdóttur halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Samþykktir æðstu stofnana Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru ótvíræðar: Ísland á ekki heima í ESB, stöðva á viðræður og undir engum kringumstæðum að halda áfram viðræðum nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þúsundir einstaklinga tóku þátt í að undirbúa og samþykkja þessa stefnu.
Flokkarnir náðu góðum meirihluta í kosningum, mynduðu stjórn og í stjórnarsáttmálanum kemur fram sú stefna óbreytt sem æðstu samkundur flokkanna samþykktu. Það er því, þrátt fyrir ýmislegt sem einstakir forystumenn sögðu fyrir kosningar, lýðræðislega ómögulegt að fara á skjön við stjórnarsáttmála sem er í fullkomnu samræmi við samþykktir æðstu stofnana flokkanna sem þúsundir einstaklinga hafa undirbúið. Þær samþykktir hlutu jú einnig gott brautargengi í kosningum.
Bjarni Benediktsson hefur sýnt styrk og jafnaðargeð í þessari umræðu þrátt fyrir talsverðan blástur frá þingmönnum úr stjórnarandstöðu og aðgangshörku fjölmiðla.
Bjarni stendur þetta af sér eins og annað því hann er að gera það eina rétta í stöðunni.