Laugardagur 01.03.2014 - 11:31 - FB ummæli ()

Þúsundir sjálfstæðismanna og framsóknarmanna á bak við stefnuna

Það eru meira en þúsund sjálfstæðismenn sem taka þátt í að móta þá stefnu sem endanlega er samþykkt á landsfundi flokksins. Það eru líka fjölmargir sem koma að því að undirbúa þá stefnu sem ákveðin er á flokksþingum Framsóknarflokksins.  Þegar tekið er tillit til þess að pólitísk stefnumótun á sér stað á landsfundi eftir landsfund og flokksþingi eftir flokksþing þar sem stefnan er slípuð og fáguð með tilliti til nýrra upplýsinga sem venjulegt flokksfólk vill hafa til hliðsjónar þá sést að það er talsverður mannafli sem stendur að jafnaði að baki stefnumótun flokkanna. Stefnur af þessu tagi hafa mikið vægi. Á bak við hana liggur miklu meira og lengra lýðræðislegt ferli en á bak við þjóðfund sem skotið er á í örfáa daga.

Þessi stefnumótun fjölda sjálfstæðismanna og framsóknarmanna leiddi af sér sömu stefnuna í ESB-málinu eins og fram kom í ályktunum landsfundar Sjálfstæðisflokksins og flokksþings Framsóknarflokksins fyrir um ári. Stefnan var sú að vera utan við ESB þar sem það þjónaði hagsmunum Íslendinga betur, að stöðva viðræðurnar við ESB og að ekki hefja þær aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þessu fólst alls ekki loforð um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur aðeins að undir engum kringumstæðum yrði sú vegferð hafin á nýjan leik án þess að þjóðin yrði spurð fyrst.

Í kosningabaráttunni  viðhöfðu nokkrir forystumenn við einhver tækifæri ummæli sem viku aðeins frá þeirri stefnu sem samþykkt hafði verið. Slíkt getur hent. Einhver slík ummæli féllu fyrir landsfundinn og flokksþingið. Vissulega skipta ummæli forystumanna máli. En jafnvel þótt stjórnskipun landsins geri ekki ráð fyrir því að þingmenn séu bundnir af samþykktum flokksstofnana þá yrði það pólitískt ómögulegt fyrir frambjóðendur og kjörna fulltrúa að fylgja ekki í langflestum tilfellum samþykktri stefnu flokka sinna. Einstaka þingmenn hafa getað lýst yfir annarri skoðun og hafa fylgt henni eftir, en ekki forysta flokkanna eða meirihluti fulltrúa. Ef ekkert á að gera með samþykktir sem myndast í lýðræðislegu fulltrúaferli flokkanna væri til lítils að hafa þessa flokka. Um þetta ríkir nokkuð almennt samkomulag þrátt fyrir prófkjaramenningu undanfarna áratugi.

Umrædd stefnumótin Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins rataði óbreytt inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eftir að þessir flokkar höfðu unnið stórsigur í þingkosningunum vorið 2013. Það eykur enn vægi stefnunnar. Þau sem viðhöfðu ummæli um að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB hafa nú lýst því yfir að slíkt sé pólitískt ómögulegt. Núverandi ríkisstjórn, sem er á móti aðild að ESB og vill stöðva viðræður getur ekki átt þátt í því að vinna gegn eindreginni stefnu sinni og sinna flokka með því að stuðla mögulega að því að viðræðum verði fram haldið. Fáránleiki slíks verður enn stærri í ljósi þess að meirihluti landsmanna vill vera fyrir utan ESB.

Vinstri græn létu hafa sig út í að vinna gegn stefnu sinni með því að samþykkja kröfu Samfylkingar um að sótt yrði um aðild að ESB. Umsókn um aðild var risavaxið skref fyrir Ísland því með henni var hraðað aðlögun að regluverki ESB, jafnvel þótt ljóst væri að meirihluti landsmanna vildi ekki fara þangað inn. Samfylkingin og Vinstri græn hunsuðu kröfu um 75% þjóðarinnar um að hún yrði fyrst spurð að því hvort hefja ætti þessa vegferð. Umsóknarferlið átti að taka níu til 18 mánuði, en það rann út í sandinn í tíð fyrri ríkisstjórnar áður en kjörtímabili var lokið.

Alþingi samþykkti umsóknarbeiðni með ályktun. Þess vegna er rökrétt að þingið klári málið nú. Hástemmdar ásakanir Samfylkingarfólks í garð núverandi stjórnvalda um svik eru í fölskum hljómi en hafa samt náð tilteknum hljómgrunni af því að einhverjir trúa því að verið sé að taka frá þeim einhvern rétt. Svo er þó alls ekki eins og einn helsti ESB- og evrusérfræðingur Evrópu, Daniel Gros, benti á í nýlegu viðtali.

Það er því eðlilegt að flokkarnir haldi stefnu sinni. Það þarf ef til vill að rökstyðja ýmsa þætti betur en gert hefur verið. Það þarf ef til vill enn fremur að rýna betur í ýmis skilyrði sem sett voru með umsókninni sumarið 2009 um fyrirvara er varða sum okkar stærstu hagsmunamál, það er sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál.

Eigum við ekki bara að vinda okkur í að ræða þessa fyrirvara betur? Þá sjáum við betur hvort einhver líkindi séu til þess að á kröfur okkar yrði fallist í mögulegum viðræðum.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur