Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hvetur til þess að tillaga til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að ESB verði samþykkt. Það eru margvísleg atriði sem mæla með samþykkt tillögunnar. Þau atriði varða m.s. lýðræði, siðferði, fullveldismál, sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og efnahagsmál, svo nokkuð sé nefnt. Hér að neðan er greint frá þeim þáttum sem snerta lýðræðisleg rök fyrir Alþingi til að samþykkja tillöguna (umsögnin í heild er aðgengileg hér á vef Alþingis):
A. Lýðræðisleg rök fyrir Alþingi til að samþykkja ofangreinda tillögu
A.1 Ferill umsóknar á Alþingi og í meðferð samninganefnda á kjörtímabilinu 2009-2013.
Alþingi samþykkti hinn 16. júlí 2009 með ályktun að fela þáverandi ríkisstjórn að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Tillagan var samþykkt jafnvel þótt annar stjórnarflokkanna hefði þá yfirlýstu stefnu að halda Íslandi fyrir utan ESB og ýmsir þingmenn annars stjórnarflokksins, svo sem Álfheiður Ingadóttir og Svandís Svavarsdóttir, lýstu því yfir við atkvæðagreiðslu að þeir vildu halda Íslandi utan ESB. Jafnframt hafði formaður annars stjórnarflokksins, Steingrímur J. Sigfússon, lýst því skýrt yfir fyrir kosningar að flokkur hans myndi fylgja þeirri stefnu sinni að stuðla ekki að því að sótt yrði um aðild að ESB.
Umsóknin um aðild að ESB var því á pólitískum brauðfótum, sérstaklega þegar haft er í huga að ESB gerir ráð fyrir því að lönd og ríkisstjórnir þeirra sem sækja um aðild vilji í raun og veru gerast aðilar.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði allt kjörtímabilið frá miðju ári 2009 til miðs árs 2013 til þess að ljúka samningum um aðild að ESB, enda var því heitið í upphafi að þetta ferli ætti ekki að taka lengri tíma en um það bil eitt og hálft ár. Komið hefur fram að hægt var verulega á umsóknarvinnunni í ársbyrjun 2013 að kröfu annars stjórnarflokksins, Vinstri grænna. Nýverið hefur hins vegar komið fram að umsóknarvinnan hafði í raun og veru steytt á skeri þegar árið 2011 og svo ítrekað árið 2012 þegar ljóst var að nauðsynleg gögn voru ekki lögð fram í ferlinu af hálfu samningsaðila vegna þess að ljóst var að um svo mikinn afstöðumun var að ræða í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum að ekki gæti náðst samkomulag í þeim málaflokkum.
Þá þegar var það siðferðileg skylda þáverandi stjórnarflokka að upplýsa almenning á Íslandi um stöðu mála en það var ekki gert. Í staðinn var látið í veðri vaka í hátt á annað ár að vinnan við umsóknina gengi vel og væri í eðlilegum farvegi eða allt þar til hægt var á ferlinu í ársbyrjun 2013.
Ástæða þess meðal annars að viðræðurnar sigldu í strand voru þær að ljóst var að í þeim var ekki hægt að uppfylla þau skilyrði sem sett voru í ályktun Alþingis frá 16. júlí 2009 um umsóknina. Í ályktuninni sagði að við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skyldi ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram komu í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Á þetta minntu þingmennirnir Atli Gíslason og Jón Bjarnason tvívegis með því að leggja fram á Alþingi vorið og haustið 2012 ályktun um að viðræðum skyldi hætt af þessum ástæðum. Ályktanirnar hlutu þá ekki brautargengi.
Miðað við það sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar frá í febrúar 2014 og yfirlýsingum sérfræðinga sem unnu með stofnuninni er ljóst að ekki verður að óbreyttu haldið áfram með umsóknina þar sem ljóst er að ferlið uppfyllir ekki þau skilyrði sem sett voru. Heimildin sem Alþingi veitti til umsóknar var því ekki opin. Í greinargerðinni sem fylgdi með umsókninni var fjallað um þá meginhagsmuni sem ekki átti að gefa eftir í samningaviðræðum. Meðal skilyrða sem sett voru í greinargerðinni voru yfirráð yfir sjávarauðlindinni, samningsforræði vegna skiptingar á veiði úr deilistofnum og að stuðningi við landbúnað yrði ekki raskað með afnámi tolla.
Miðað við þetta er ljóst að mögulegt áframhald viðræðna við ESB kallar óhjákvæmilega á að fyrirliggjandi þingsályktun yrði breytt þar sem ljóst má nú vera að í slíkum viðræðum yrði að falla frá því að þeir meginhagsmunir sem að framan greinir séu óumsemjanlegir. Það er í samræmi við niðurstöður í skýrslu Hagfræðistofnunar þar sem fram kemur að engar líkur séu á því að við fáum varanlegar undanþágur í líkingu við það sem Alþingi taldi að yrðu að vera fyrir hendi eins og fram kemur í þingsályktun og greinargerð Alþingis frá 16. Júlí 2009.
Það er því alveg ljóst á þessu að fyrrverandi ríkisstjórn mistókst ætlunarverk sitt þótt hún hefði til þess rúman tíma. Umræðurnar sigldu í strand á miðju kjörtímabili en því var samt haldið ranglega að þjóðinni að viðræðurnar væru í eðlilegum farvegi – allt þar til hægt var á viðræðum í byrjun árs 2013. Þessi vinnubrögð verða að teljast ámælisverð í ljósi þess hvaða skilyrði voru sett með ályktun Alþingis frá 16. júlí 2009.
A.2 Niðurstaða kosninga, stefna núverandi ríkisstjórnar og verkefnaskrá hennar.
Þegar kom að kosningum vorið 2013 höfðu tveir flokkar, þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samþykkt nær samhljóða landsfundarályktun og flokksþingsályktun um að Íslandi væri betur borgið utan ESB og að aðildarviðræðum skyldi hætt. Þúsundir félaga í þessum flokkum tóku þátt í að vinna þessar ályktanir. Í kosningunum hlutu þessir flokkar gott meirihlutafylgi og mynduðu ríkisstjórn þar sem samþykkt stefna beggja flokka í ESB-málum stóð skýrum stöfum. Þar stóð orðrétt:
„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Síðasti hlutinn, um að ekki yrði lengra haldið í aðildarviðræðum án þjóðaratkvæðagreiðslu, var eins konar öryggisákvæði sem fyrr.
Núverandi ríkisstjórn steig skrefinu lengra en sú fyrrverandi og gerði formlegt hlé á viðræðum við ESB, enda var það í samræmi við stefnu stjórnarinnar og lýðræðislegar samþykktir flokkanna. Jafnframt tilkynnti stjórnin fljótlega að hún hygðist láta taka saman skýrslu um stöðu og þróun viðræðna og um þróunina í Evrópusambandinu.
Skýrsla Hagfræðistofnunar var birt í febrúar 2014 og rædd á Alþingi. Þar kemur skýrt fram að ekki er hægt að uppfylla þau skilyrði sem sett voru með samþykkt ályktunar um umsókn 26. júlí 2009, svo sem um undanþágur frá sjávarútvegsstefnu sambandsins.
Núverandi ríkisstjórn hefur þá skýru stefnu að Íslandi beri að vera fyrir utan ESB og að því skuli viðræðum um aðild að sambandinu hætt. Það er því í eðlilegu samhengi við stefnu flokkanna, æðstu stofnana þeirra og niðurstöður kosninga vorið 2013 að núverandi ríkisstjórn slíti formlega þeim viðræðum sem fyrri ríkisstjórn hóf og að viðræðunum verði slitið með sams konar ályktun og lágu til grundvallar þess að þær voru hafnar.
A.3 Þjóðaratkvæðagreiðsla nú um framhald viðræðna?
Nú er því haldið fram af ýmsum að eðlilegt sé að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort viðræðum verði haldið áfram. Þeir sem halda þessu fram telja að það sé lýðræðislegt að spyrja þjóðina um framhaldið. Slíkt er mikil rökleysa sem sést þegar málið er skoðað.
Í fyrsta lagi var þjóðin ekki spurð að því þegar fyrrverandi ríkisstjórn ákvað að leggja til við Alþingi að samþykkt yrði ályktun um að sækja um aðild að ESB. Ýmsir kröfðust þess þá og lögðu til að málið yrði lagt fyrir þjóðina en því hafnaði fyrrverandi ríkisstjórn ítrekað. Þjóðaratkvæðagreiðsla árið 2009 um mögulegar viðræður hefðu þó verið eðlilegar þar sem ESB gerir ráð fyrir því að það ríki sem sækir um aðild hafi raunverulegan áhuga á því að ganga í sambandið. Af þessum sökum er ekkert sem mælir með því að það fari fram um það þjóðaratkvæðagreiðsla nú hvort halda skuli viðræðum áfram hvað þá um þá tillögu sem nú liggur fyrir Alþingi og hér er rætt um.
Í öðru lagi er með samþykkt þeirrar tillögu sem liggur fyrir Alþingi aðeins verið að staðfesta það að viðræður hafa ekki skilað árangri eins og sést á árangursleysi fyrrverandi ríkisstjórnar á heilu kjörtímabili.
Í þriðja lagi væri það algjörlega á skjön við eðlilegar vinnureglur að ríkisstjórn sem hefur þá skýru stefnu að halda Íslandi fyrir utan ESB láti fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda beri áfram viðræðum.
Í fjórða lagi má halda því fram með rétti að krafan um þjóðaratkvæði nú sé siðlaus brella þeirra aðildarsinna sem ekki gátu komið Íslandi í ESB á síðasta kjörtímabili. Þessir aðildarsinnar tóku ekki í mál árið 2009 að spyrja þjóðina þá. Að heimta þjóðaratkvæðagreiðslu til reyna að koma í veg fyrir eðlilega niðurstöðu af því lýðræðislega ferli sem felst í kosningum, stefnu og stjórnarsáttmála núverandi stjórnarflokka er því ekkert annað en pólitískt siðleysi.