Þriðjudagur 18.11.2014 - 23:52 - FB ummæli ()

Evrusvæðið – Ísland: 0 – 3

reykjavikSíðasti áratugur á evrusvæðinu hefur orðið að engu. Hve lengi getur þetta gengið þegar jafnvel Ísland hefur skotið svæðinu ref fyrir rass?

Þannig spyr pistlahöfundur í Svenska Dagbladet, Per Lindvall, sem Gústaf Adolf Skúlason vekur athygli á – en pistillinn er hér í lauslegri endursögn. Per Lindvall minnir á að hagvöxtur á evrusvæðinu hafi á síðasta ársfjórðungi verið helmingi meiri en vænst hafði verið, eða heil 0,2 prósent! Hann bætir hæðnislega við að nú ættu þeir fáu hagfræðingar og stjórnmálamenn í Svíþjóð að hlaupa til sem vilja stökkva upp á evruhraðlestina sem loksins hafi komist á hreyfingu! Staðreyndin sé þó sú að evrulestin hreyfist varla og síðasti áratugur sé íbúunum tapaður fjárhagslega – þökk sé myntsamstarfinu. Nú séu sex ár liðin frá Lehmanhruninu og það sé fullkomlega eðlilegt að ræða um það að ríki yfirgefi evrusvæðið eða að það leysist jafnvel upp. Enn sé framleiðsla minni en var árið 2007 á evrusvæðinu þótt lönd eins og Bandaríkin, Pólland og Svíþjóð hafi þegar náð fyrri styrk – að ekki sé talað um Ísland! Meira að segja Bretland með sinn stóra fjármálageira, húsnæðisbólur, miklar opinberar skuldir og talsverðan viðskiptahalla hafi staðið sig mun betur en evrusvæðið. Ástæðan sé sú að Englandsbanki stýrir eigin gjaldmiðli Breta og ennfremur sú að ríkisstjórnin breska reki efnahgspólitík sem sé ekki jafn skaðleg og á evrusvæðinu.

Ísland er sigurvegarinn!

Aðalnúmerið í þessum efnum sé þó Ísland sem hefur farið í gegnum mikla fjármálakreppu sem setti banka landsins á hliðina, auk þess sem hér hafi verið húsnæðisverðbóla, miklar skuldir heimila hafi þjakað landsmenn og viðskiptahalli verið töluverður. Samt sé framleiðsla nú meiri en fyrir hrunið. Atvinnuleysi hafi minnkað verulega og vinnuaflið hafi auk þess aukist talsvert frá hruninu (sem sagt miklu fleiri á vinnumarkaði í heild). Auðvitað hjálpi það Íslandi að hafa vel menntað og fært vinnuafl og miklar náttúruauðlindir en það sem skipti meginmáli fyrir endurreisn landsins sé sú staðreynd að Íslendingar hafi eigin gjaldmiðil sem hafi getað aðlagast að efnahagsaðstæðum. Fyrir vikið hafi samkeppnisstaða Íslands batnað töluvert – og aðhaldsaðgerðir séu hér á landi mun vægari en á evrusvæðinu þar sem fólki sé sagt upp í stórum stíl. Á Íslandi sé samfélagssáttmálinn enn í fullu gildi!

Evrópa föst í fúafeni

Á meðan sé atvinnuleysið í kringum 25% á Spáni – þrisvar sinnum það sem það var árið 2006. Ástandið er ennþá verra í Grikklandi. Í þessum löndum sé samfélagssáttmálinn rofinn og alls kyns öfgaflokkar yst til hægri og vinstri skjóti rótum. Höfundurinn líkir ástandinu við þróunina á milli heimsstyrjalda sem endaði ekki vel í Evrópu. Samt trúi helstu stjórnmálaleiðtogar í Evrópu enn á evruna en sjái ekki að hún sé ekki sá gullfótur sem ýmsir vildu hafa heldur steinsteypufótur sem haldi Evrópu fastri í fúafeni. Þar séu helstu smiðirnir þýskrar ættar sem hafa ofurtrú á niðurskurði og sparnaði en standa gegn þeim fjárfestingum, útgjöldum og eftirspurn sem Evrópa þarf svo sárlega til að geta híft sig upp úr skuldafeni efnahagskreppunnar.

 

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur