Sunnudagur 08.02.2015 - 18:52 - FB ummæli ()

Styrmir um stóru myndina af þróun Evrópu

StyrmirGunnarssonStyrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, skrifar feykilega góða yfirlitsgrein um misheppnaðar sameiningartilraunir og þróunina í Evrópu að undanförnu, en greinin var birt í Morgunblaðinu í gær. Þar færir Styrmir meðal annars rök fyrir því hversu mikilvægt það er að afturkalla umsóknina um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Grein Styrmis er birt hér í heild sinni:

Þetta er stóra myndin af þróun Evrópu

Þótt erfitt sé að festa hendur á því hvað ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir ætlast fyrir varðandi formlega afturköllun aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu er ekki erfitt að átta sig á því sem er að gerast í Evrópu. Þar eru blikur á lofti og er þá vægt til orða tekið.

Evrópa er í uppnámi, pólitískt, efnahagslega og hernaðarlega, annars vegar inn á við, þ.e. innan Evrópusambandsins sjálfs og hins vegar út á við, á landamærum ESB-ríkja og nágrannaríkja þeirra. Sú bjartsýni, sem var til staðar við lok kalda stríðsins um friðsamlega framtíð í þessari stríðum hrjáðu heimsálfu öldum saman, er horfin. Þróun Evrópusambandsins, sem margir litu til sem friðarbandalags fremur en efnahagsbandalags er í fullkominni óvissu.

Hið pólitíska uppnám innan evrusvæðisins, sem er að sjálfsögðu kjarni Evrópusambandsins sem slíks, lýsir sér í því að aðhaldsstefnan í efnahagsmálum, sem Þjóðverjar hafa haft forystu um, hefur reynt svo á innviði aðildarríkjanna, að þeir eru að bresta í sumum þeirra. SYRIZA, bandalag vinstri manna í Grikklandi, er í raun bandalag gamalla kommúnista, maóista og annarra vinstri manna. Sú staðreynd að gríska þjóðin skuli kjósa yfir sig slíkt bandalag segir mikla sögu um algert gjaldþrot hefðbundinna stjórnmálaflokka í Grikklandi.

En það sem meira er: Um allan syðri hluta Evrópu fagna menn ýmist leynt eða ljóst sigri þessa sundurleita hóps, sem hefur tekið að sér að stjórna Grikklandi í samvinnu við stjórnmálaflokk yzt til hægri, sem hefur andúð á Þjóðverjum einna helzt á stefnuskrá sinni. Ítalir fara ekki í felur með fögnuð sinni og Podemos, nýr stjórnmálaflokkur á Spáni ekki heldur. Frakkar fagna en flíka því ekki opinberlega. Þjóðfylking Marine Le Pen sækir nú stíft fram á hægri kantinum en Podemos frá vinstri á Spáni.

Sigri SYRIZA er fagnað vegna þess að í öðrum aðildarríkjum evrunnar gera menn sér vonir um að þeim takist að kveikja eld undir aðhaldsstefnu Þjóðverja. Og jafnframt er ekki lengur hægt að útiloka að flokkar lengst til vinstri og hægri komist til áhrifa í öðrum evruríkjum á sama tíma og Valkostur fyrir Þýzkaland sækir fram í sínu heimalandi.

Það er ekki lengur óhugsandi að stjórnvöld í Berlín og embættismenn í Brussel missi tökin og meiri líkur en minni á að sameiningarþróunin í Evrópu sé að stöðvast.

Efnahagslegt uppnám evrusvæðisins og þar með ESB lýsir sér í því að efnahagslægð er gengin í garð í evruríkjunum svo og verðhjöðnun. Þar koma við sögu almenn efnahagsleg vandamál einstakra aðildarríkja, mikil skuldsetning opinberra aðila í sumum þessara landa og heimila og fyrirtækja í öðrum. Flestir, sem fjalla um efnahagsmál á evrusvæðinu telja að það muni taka áratug eða meira að ná hagvexti á strik í þessum löndum.

Hinar efnahagslegu þrengingar kalla fram harkaleg viðbrögð á báða bóga eins og sjá mátti í fyrradag, þegar Seðlabanki Evrópu tilkynnti að hann yrði ekki lengur lánveitandi til þrautavara fyrir gríska banka frá og með miðvikudegi í næstu viku.

Evrópusambandið stendur því í innbyrðis stórátökum um sameiningarþróunina og alvarlegir brestir eru byrjaðir að sjást í gjaldmiðilssamstarfi evruríkjanna.

En jafnframt er nú í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins komin upp alvarleg hernaðarleg staða í Evrópu. Kjarni hennar er auðvitað hið stríða samband á milli Rússa annars vegar og ESB og Bandaríkjanna hins vegar. Fleiri og fleiri lýsa þessari stöðu á þann veg að nýtt kalt stríð sé að brjótast út. Þótt Rússar eigi nú sjálfir við mikinn efnahagsvanda að stríða vegna lækkunar olíuverðs á heimsmarkaði, hafa þeir ekkert dregið úr stuðningi við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Ástandið þar fer hríðversnandi og í fyrradag var tilkynnt að Atlantshafsbandalagið mundi auka hernaðarlega nærveru sína í austurhluta Evrópu.

Rússar eru ekki vinalausir innan ESB. Augljóst er að sterk tengsl eru á milli stjórnvalda í Moskvu og nýrra stjórnarherra í Aþenu, sem hefur m.a. »strategíska« þýðingu vegna legu Grikklands gagnvart Miðausturlöndum. En jafnframt er ljóst að stjórnmálahreyfingar yzt á hægri kantinum í Evrópu telja sig sumar hverjar eiga sálufélaga, þar sem Pútín, forseti Rússlands, er. Einhverjir kunna að líta svo á að Rússar séu svo efnahagslega veikir um þessar mundir að þeir hafi ekki bolmagn til eins eða neins. Þeir sem þannig hugsa ættu að minnast þess að samstarf Rússa og Kínverja er að verða stöðugt nánara og það sem Rússar geta ekki fjárhagslega kunna Kínverjar að geta.

Þegar horft er til sögu Evrópu, þó ekki sé nema 500 ár til baka, fer ekki á milli mála að við erum nú að upplifa enn eitt tímabilið, þar sem tilraunir til sameiningar eru að hrökkva til baka.

Þessi stóra mynd er ekki til umræðu hér á Íslandi að nokkru marki. Hún kemur okkur hins vegar við vegna þess að hópur Íslendinga hefur talið eftirsóknarvert að Ísland verði hluti af þessum umbrotum. Sá hópur lagði upp í þá vegferð vegna þess að hann trúði á evruna.

Svo margt hefur hins vegar gerzt á meginlandi Evrópu frá því aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi 2009 að það getur beinlínis verið hættulegt að gerast aðili að ríkjabandalagi, sem logar stafna á milli og enginn veit hvert muni stefna á næstu árum.

Af þessum ástæðum er afturköllun aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu mikilvægari en nokkru sinni fyrr á síðustu fimm árum, þótt fleira komi til.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur