Þriðjudagur 17.02.2015 - 18:50 - FB ummæli ()

60% landsmanna myndu hafna ESB

capacentÞegar reiknað er með þeim sem taka afstöðu í könnun sem Capacent gerði fyrir Heimssýn eru 60 prósent sem vilja ekki að Ísland gangi í ESB. Þegar tekið er mið af því að 18% svarenda eru hvorki hlynntir né andvígir inngöngu þá eru 32,8% fylgjandi og 49,1% andvígir inngöngu.

Könnun Capacent var framkvæmd  á bilinu 29. janúar til 5. þessa mánaðar. Þetta var netkönnun og var úrtakið 1450 manns á landinu öllu, 18 ára og eldri, sem voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Svarshlutfall var 60,6%, sem telst vera nokkuð gott.

Andstæðingar innöngu fleiri í flestum hópum

Meðal íbúa Reykjavíkur og allra annarra sveitarfélaga voru þeir fleiri sem voru andvígir inngöngu í ESB. Jafnframt voru þeir fleiri meðal allra aldurshópa sem voru andvígir inngöngu. Hið sama gilti um kynin. Þar voru þeir einnig fleiri, bæði meðal karla og kvenna sem voru andvíg inngöngu í ESB. Tíu prósentum fleiri karlar reyndust andvígir inngöngu en meðmæltir. Munur meðal kvenna er enn meiri. Meðal þeirra eru tuttugu og fjórum prósentum fleiri sem eru andvígir inngöngu en hlynntir.

Samkvæmt könnuninni eru 42% Reyk­vík­inga and­snún­ir aðild að ESB en 41% borg­ar­búa er hlynnt­ aðild. Mun­ur­inn er meiri í ná­granna­sveit­ar­fé­lög­um höfuðborg­ar­inn­ar. Þar eru 45% and­víg­ir aðild en 38% hlynnt­ir henni. Mun­ur­inn er enn meiri í öðrum sveit­ar­fé­lög­um lands­ins en þar eru 59% íbú­anna and­víg­ir aðild að ESB en 21% hlynnt­ir.

Svipaðar niðurstöður eru varðandi aldurshópa. Þar er andstaðan við aðild meiri í öllum aldurshópum. Í elsta aldurshópnum, 65 ára og eldir eru 62% á móti inngöngu í ESB en 28% hlynnt inngöngu. Í yngsta aldurshópnum eru 31% hlynnt inngöngu en 35% á móti.

Samfylkingarfólk áhugalítið um ESB

Samkvæmt könnuninni er samfylkingarfólk fremur áhugalítið um ESB, einkum ef tekið er mið af þeirri ofuráherslu sem flokksforystan hefur lagt á málið. Alls eru 55 prósent samfylkingarfólks í veikustu skoðanaflokkunum, þ.e. stendur á sama, er frekar andvígt eða frekar hlynnt aðild. Fram kemur að 21% stuðningsmanna Samfylkingar eru að öllu leyti hlynnt aðild. Minna en 5% sjálfstæðismanna og framsóknarmanna eru þannig hlynnt aðild. Hins vegar eru 61% framsóknarmanna að öllu leyti andvígir aðild og 40 prósent sjálfstæðismanna eru að öllu leyti andvígir aðild.

Inngöngubeiðnina þarf að afturkalla, segir Jón Bjarnason

„Könnunin undirstrikar það sem oft hefur áður komið fram að Íslendingar vilja vera frjáls og fullvalda þjóð utan Evrópusambandsins. Beiðni um inngöngu Íslands í ESB á því að afturkalla hið snarasta,“ segir Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar í tilefni af birtingu niðurstöðu könnunar Capacent Gallup þar sem fram kemur mikil andstaða við inngöngu Íslands í ESB.

 

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur