Orð forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, eru enn ein staðfesting þess að Evrópusambandið þolir ekki áföll. Fjármálakreppan sýnir að evrusamstarfið gengur ekki upp. Straumur flóttamana sýnir að Schengen-samstarfið virkar ekki. Þar með er búið að kippa tveimur af fjórum hornsteinum undan ESB-samstarfinu. Schengen og evran gætu tekið allt ESB með sér í fallinu.
Pólitísk græðgi sjálfskipaðra leiðtoga ESB er að verða þeim að falli. Þeim nægði ekki að stuðla að frelsi í viðskiptum með vöru og þjónustu á svæðinu. Um þau markmið var tiltölulega góð sátt miðað við annað. Trúarkenningar þeirra boðuðu að það þyrfti líka að tryggja frjálst flæði fjármagns innan svæðisins og þeir bjuggu til Seðlabanka Evrópu og evruna. Sá seðlabanki er einn sá ógegnsæjasti í veröldinni þar sem sérhagsmunir virðast fá betri aðgang en almannahagsmunir. Evran var góð fyrir þau lönd sem gátu náð efnahagslegu forskoti en hún varð martröð annarra ríkja.
Og nú verður fjórða frelsið, ferðafrelsið, skert af því að Schengen virðist hafa verið hrákasmíð. Það er hætta á að Evrópusambandið falli eins og Rómarveldi til forna vegna flóttamannavandans í álfunni, segir forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte.
Arkitektar Evrópusambandsins voru drifnir áfram af kennisetningum án jarðsambands.
ESB-byggingin er eins og lítið hús sem er stækkað með stórrri viðbyggingu. Vandinn er bara sá að hornsteinar viðbyggingarinnar eru ótraustir. Þannig hafa tveir af fjórum hornsteinum ESB reynst vera fúasmíð sem ekki þolir álag. Þegar hornsteinarnir gefa sig er hætt við að þeir taki allt húsið með sér í fallinu.