Mánudagur 14.12.2015 - 00:08 - FB ummæli ()

Fjölmiðlar fóðri ekki rasista og ýti þannig undir fordóma!

Evrópunefndin gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (European Commission against Racism and Intolerance – ECRI) var stofnuð af Evrópuráðinu árið 1993. Um er að ræða sjálfstæðan eftirlitsaðila á sviði mannréttinda sem sérhæfir sig í málum er varða kynþáttafordóma og umburðarleysi. Nefndin hefur eftirlit með stöðu mála í aðildarríkjum Evrópuráðsins og greinir stöðuna í hverju ríki fyrir sig á sviði kynþáttafordóma og umburðarleysis og leggur fram ráðleggingar og tillögur um hvernig best sé að bregðast við vandamálunum sem komið hefur verið auga á.

Einn af hlutunum sem nefndin skoðar eru kynþáttafordómar í opinberri umræðu. Í síðustu skýrslu sem nefndin gaf út um Ísland, árið 2010, kemur m.a. fram að „samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2010 vildu um 30% Íslendinga takmarka fjölda innflytjenda til landsins. Þar af vildu tveir þriðju setja skorður við innflutningi allra útlendinga en einn þriðji vildi takmarka komu fólks með annan litarhátt, trú og menningu en meirihluti Íslendinga. Niðurstaða rannsóknarinnar var að kynþáttafordómar væru sannarlega til staðar á Íslandi.“

Við það má bæta að árið 2008 unnu Inga Hlín Pálsdóttir og Sigrún Ólafsdóttir skýrslu sem bar nafnið Ímynd Íslands: Staða, styrkur og stefna. Einstaklingar voru valdir í rýnihópa og þeir beðnir um að ræða ímynd þjóðarinnar. Allir hóparnir ræddu um innflytjendur og eftir því sem fram kemur í skýrslunni var enginn sem sá innflytjendur sem hluta af ímynd þjóðarinnar heldur frekar sem innrás sem þurfti að verjast til að Íslendingar héldu sérstöðu sinni. Þegar hátt í 10% þjóðarinnar eru skilgreindir sem innflytjendur hlýtur það að teljast mikið áhyggjuefni.

Vaxandi fordómar og þjóðernisrembingur í íslensku samfélagi er staðreynd. Það þarf ekki að eyða miklum tíma í að skoða opinbera umræðu til þess að komast að þeirri niðurstöðu fyrir þá sem ekki verða fyrir fordómum daglega eða upplifa þá í kringum sig.

Þegar kemur að opinberri umræðu bera fjölmiðlar mikla ábyrgð. Vald þeirra er mikið og þeir vita það. Þeir setja svip sinn á samfélagsumræðuna og ýta þar með undir staðalímyndir hjá fólki, hvort sem þær eru góðar eða slæmar.

Í síðustu skýrslu sinni hvatti ECRI íslensk stjórnvöld til að koma fjölmiðlum í skilning, án þess að ganga á ritstjórnarlegt frelsi þeirra, um mikilvægi þess að tryggja að umfjöllun í fjölmiðlum stuðli ekki að neikvæðu viðhorfi og andúð í garð minnihlutahópa, þ.m.t. innflytjenda, múslima og gyðinga.

ECRI nefnir að algengt sé að íslenskir fjölmiðlar tilgreini ríkisfang eða þjóðerni einstaklinga sem grunaðir eru um glæpsamlegt athæfi jafnvel þótt það hafi enga þýðingu í málinu sem um ræðir. Þetta hefur komið óorði á ákveðna þjóðfélagshópa og ECRI lýsir yfir áhyggjum af því að slík umfjöllun auki hættu á fordómum og leiði til þess að almenningur líti á allt fólk sem tilheyrir þessum þjóðfélagshópum sem glæpamenn.

Þá nefnir ECRI að upplýsingar um að á einkarekinni sjónvarpsstöð sem ber heitið Omega séu fjandsamleg ummæli um múslima gjarnan viðhöfð og alið á þeirri staðalímynd að múslímar séu hryðjuverkamenn. Einnig hafa upplýsingar borist um vefsíður sem birta fjandsamleg ummæli um múslima sem og nokkrar vefsíður sem voru stofnaðar í þeim tilgangi einum að dreifa bröndurum byggðum á kynþáttafordómum sem eru vinsælir á meðal unglinga og ungs fólks.

Eftirfylgni ECRI árið 2012 leiddi í ljós að ekki hefur verið bætt úr ofangreindum atriðum og að ef eitthvað er þá hefur ástandið versnað. Það er erfitt að neita fyrir það. Opinber umræða er orðin töluvert ósvífnari og óhuggulegri fjölmiðlar eru ekki alltaf undantekning þar á. Útvarp Saga er eitt dæmi. Morgunblaðið er annað dæmi.

Um langan tíma hefur Morgunblaðið gerst sekt um að ýta undir fordóma í samfélaginu. Síðasta dæmið er sunnudagsmogginn þar sem Vignir Freyr Andersen svarar spurningunni hvort Ísland ætti að taka á móti fleiri flóttamönnum.

Vissulega er tjáningarfrelsi á Íslandi, sem þó er ekki skilyrðislaus réttur, og Vignir má hafa sína skoðun á fólki af erlendu bergi brotnu. Sennilegast hefði verið betra fyrir alla að hann hefði hugsað sig tvisvar um áður en hann líkti flóttamönnum við „plöntu sem vex á öðrum stað en landeigandinn vill.“ Stundum þarf bara fræðslu og upplýsingar til þess að losna við fordóma sem fólk er oft ekki meðvitað um að hafa og ég get boðið Vigni í kaffi til að ræða þau mál. Eða þau mál að móttaka flóttamanna hefur ekki áhrif á hagsmuni öryrkja og aldraðra.

Það er erfiðara að kyngja því að ekki er útlit fyrir að ritstjórn Morgunblaðsins hafi séð nokkuð athugavert við ummæli Vignis. Ef svo hefði verið hefði blaðið ekki birt þessi ummæli. Meðvituð um áhrif sín og völd ákveður ritstjórn Morgunblaðsins að birta ummælin og leggja þannig sitt af mörkunum svo fordómar og þjóðernisrembingur haldi hér áfram að vaxa. Morgunblaðið gerist enn og aftur sekt um að fóðra rasistana með útgáfu sinni og normalísera þannig fordómafulla umræðu í íslensku samfélagi.

…og hafi þeir skömm fyrir!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 9.12.2015 - 17:15 - FB ummæli ()

Opið bréf frá bandarískum múslima.

Hún Sofia Ali-Khan, sem er bandarískur múslimi, fann sig knúna til þess að skrifa opið bréf til samlanda sinna vegna þess að það hatur og það áreiti sem bandarískir múslimar upplifa nú, alla daga og alls staðar, er komið út fyrir öll mörk. Ég ákvað að þýða bréfið hennar Sofiu vegna þess að Bandaríkin eru einungis eitt dæmi um hversu slæmir hlutirnir eru orðnir, hversu mikil hatursorðræðan og áreitnin er orðin og hversu mikið er búið að normalísera umræðu sem byggist á hatri og fordómum gagnvart múslimum. Ég tel að við getum lært mikið af því sem hún Sofia segir, en í bréfinu kemur hún með nokkur dæmi um hvað við getum gert til þess að styðja múslima í baráttu sinni fyrir mannréttindum sínum og tilveru og hvað við getum gert til þess að spyrna gegn uppgangi þessara öfga!

Kæru bandamenn sem ekki eru múslimar,

ég er að skrifa ykkur vegna þess að hlutirnir eru orðnir nákvæmlega það slæmir. Ég hef staðið mig að því að segja of mörgu fólki frá ráði sem ég fékk fyrir mörgum árum síðan frá tónskáldinu Herbert Brun, þýskum gyðing sem flúði Þýskaland 15 ára gamall: „vertu viss um að vegabréfið þitt sé í lagi.“ Það er ekki lengur nóg að hlægja að Donald Trump. Umræðan um múslima er orðin svo slæm og hún er alls staðar, á hverri sjónvarpsstöð, á öllum fréttaveitum. Hún ýtir augljóslega undir daglegt ofbeldi, skemmdarverk, áreiti og mismunun.

Ég vil að þú vitir að hlutirnir eru orðnir það slæmir að ég og fjölskyldan tölum um hvað við þurfum að hafa með okkur ef við þurfum að fara í flýti og hvert við ættum að fara, ef kosningarnar fara á ranga vegu eða ef hlutirnir verða of hættulegir fyrir kosningarnar. Þegar hlutirnir eru ekki jafn óhugnanlegir tölum við um að fara á næstu fimm eða tíu árum eitthvert þar sem löggur bera ekki byssur og hatursorðræða er ekki leyfð í sjónvarpinu.

Ef þú veist það ekki nú þegar þá vil ég að þú vitir að ég var fædd í þessu landi og ég hef búið hér alla mína ævi. Ég hef eytt öllum mínu fullorðinsárum í að vinna með fátækum, fötluðum og þeim sem hafa misst eignarétt sinn og aðstoðað þau við að fá aðgang að réttarkerfinu í landinu. Ég vil einnig að þú vitir að ég er einlægur og stoltur múslimi.

Ég er að skrifa þetta til þess að svara spurningu vinna minna, sem ekki eru múslimar, um hvað þeir geti gert, en  það er mikið sem við getum gert í nafni samstöðu:

Ef þú sérð einhvern áreita múslima, eða einhvern sem gæti verið múslimi, stoppaður, segðu eitthvað, blandaðu þér í málið, kallaðu á hjálp.

Ef þú ert farþegi í almenningssamgöngum, sestu við hliðina á konunni með slæðuna, segðu við hana asalam ‘alaykum (sem þýðir friður sé með þér). Ekki hafa áhyggjur af því að bera það fram vitlaust, hún mun ekki taka það nærri sér. Þú getur líka bara sagt „friður.“ Hún mun brosa, brostu til baka. Ef þú vilt geturu talað við hana, ef þú vilt það ekki geturu samt setið hjá henni og passað að enginn áreiti hana.

Ef þú vinnur með múslima, tékkaðu á honum. Segðu honum að þér finnist fréttaflutningurinn hræðilegur og láttu hann vita að þú sért til staðar fyrir hann.

Ef nágrannar þínir eru múslimar, hafðu auga með þeim. Ef þú ert að labba heim með börnin þín úr skólanum, bjóddu þeim að labba með ykkur.

Talaðu við börnin þín. Þau heyra líka fordómana gegn múslimum. Sjáðu til þess að þau viti hvernig þér líður og segðu þeim hvað þau geta gert þegar þau sjá áreiti eða einelti eða heyra hatursorðræðu í skólanum.

Láttu vita af hatursorðræðu  þegar þú heyrir hana. Ef sú orðræða hvetur til haturs eða ofbeldis gagnvart ákveðnum hóp, láttu vita, hvort sem það er í stofunni heima hjá þér, í vinnunni, með vinum þínum eða á meðal almennings. Það er sérstaklega mikilvægt að þú bendir á þetta á meðal fólks sem þekkir ekki múslima.

Settu á fót fræðslu um íslam, í bókaklúbbnum þínum, skólanum þínum, söfnuði eða matarklúbbi. Hafðu samband við félag múslima, samtök sem vinna þvert á trúarbrögð eða moskuna nálægt þér og athugaðu hvort það sé ekki einhver sem getur komið og svarað spurningum um íslam og bandaríska múslima. Þau munu ekki móðgast. Þau munu þiggja tækifærið til þess að gera eitthvað til þess að sporna við öllum viðbjóðnum.

Skrifaðu greinar og fordæmdu hversu miklir fordómarnir og hatursorðræðan í garð múslima er orðin og lýstu yfir stuðningi við bandaríska múslima á hvaða hátt sem þú vilt.

Hringdu í kjörna fulltrúa í þínu nágrenni, láttu þá vita að þú hafir áhyggjur af hatursorðræðu gagnvart vinum þínum og nágrönnum í fjölmiðlum og stjórnmálum, að það sé óásættanlegt og að þú viljir að þau láti vita af henni og svari í hvert skipti sem þau heyra hana, fyrir þig.

Láttu vita að þú samþykkir ekki íslamófóbíu og að þú styðjir múslima. Það er svo mikið af hatri sem beinist gegn þeim, svo mikið af fólki sem hafa aðgang að fjölmiðlum og stjórnvöldum sem ýta undir þetta hatur. Vinsamlegast hjálpaðu til við að jafna þetta út með stuðningi. Skrifaðu, notaðu facebook eða bloggið þitt til þess að lýsa yfir stuðningi.

Spurðu mig að hverju sem þú vilt, í alvöru. Talaðu við múslimann í þínu lífi. Vertu viss um að þér líði vel með að styðja við vini þína, nágranna eða vinnufélaga sem eru múslimar.

Ég get sagt þér það að auk þess sem múslimarnir berjast nú fyrir borgara- og mannréttindum sínum eru þeir einnig að berjast við mikinn kvíða. Þó svo að mörg okkar treysta á trúnna til þess að styrkja okkur erum við manneskjur. Þetta er ekki auðvelt fyrir okkur. Það sem þú munt gera mun skipta gríðarlega miklu máli fyrir hina bandarísku múslima í kringum þig.

Takk fyrir að lesa og blessi þig í þinni baráttu. Deildu að vild. 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.11.2015 - 23:31 - FB ummæli ()

Ertu rasisti?

Samfélög nútímans eru í stöðugri þróun og breytingar á uppruna, tungumálum, menningu og trúarbrögðum eiga sér víða stað. Fólksflutningar á milli samfélaga eru ekki nýtt fyrirbæri og geta ástæðurnar fyrir þeim verið margvíslegar en með aukinni hnattvæðingu hefur fólk öðlast meira frelsi til að flytja á milli landa. Íslenskt samfélag er ekki undanskilið þessari þróun. Þannig er Ísland vissulega fjölmenningarsamfélag ef hugtakið fjölmenning er notað sem lýsingarorð, en fjölbreytileikinn gerir það að verkum.

Fjölmenning á Íslandi á sér fremur stutta sögu en rannsóknir á málefnum og stöðu innflytjenda hófust ekki að ráði fyrr en um síðustu aldamót eða þegar fjöldi innflytjenda fór að aukast hér á landi. Fjölmenning er ennþá tiltölulega nýtt hugtak í íslensku samfélagi og enn eru margir sem líta á Ísland sem einsleitt menningarlega séð en hugtakið fjölmenning kemur þó æ oftar fyrir í samfélagslegri umræðu, sérstaklega í tengslum við fjölgun innflytjenda.

Hugtakið fjölmenningarlegt samfélag er skilgreint sem samfélag þar sem fjölbreytni ríkir, þar sem fólk af mismunandi uppruna eða menningarsvæðum býr saman í einu samfélagi, ber virðingu fyrir hvort öðru og hefur samskipti sín á milli. Eðlilegt er að í slíku samfélagi fái allir hópar að halda sinni eigin menningu, tungumáli og einkennum en tileinki sér á sama tíma ríkjandi menningu. Slíkt fyrirkomulag er þekkt á Norðurlöndunum.

Þann 1. janúar 2014 voru 27.447 innflytjendur á Íslandi eða 8,4% mannfjöldans. Innflytjendur á Íslandi eru ekki einn einsleitur hópur heldur eru hér á landi yfir 100 mismunandi þjóðarbrot. Samkvæmt Hagstofu er innflytjandi “einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar hans og báðar ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent.

Svo virðist sem enn í dag sé ekki gott að segja hvort Íslendingar séu tilbúnir til þess að innlima innflytjendur í ímynd þjóðarinnar. Árið 2008 unnu Inga Hlín Pálsdóttir og Sigrún Ólafsdóttir skýrslu sem bar nafnið Ímynd Íslands: Staða, styrkur og stefna. Einstaklingar voru valdir í rýnihópa og þeir beðnir um að ræða ímynd þjóðarinnar. Allir hóparnir ræddu um innflytjendur og eftir því sem fram kemur í skýrslunni var enginn sem sá innflytjendur sem hluta af ímynd þjóðarinnar heldur frekar sem innrás sem þurfti að verjast til að Íslendingar héldu sérstöðu sinni.

Þegar hátt í 10% þjóðarinnar eru skilgreindir sem innflytjendur er það mikið áhyggjuefni.

Þegar talað er um fordóma er átt við þegar einstaklingar eða hópar fólks eru dæmd út frá fyrirfram ákveðnum hugmyndum af staðalmyndum sem hafa myndast í samfélaginu og eru yfirleitt mótaðar af umhverfinu og eru t.d. fengnar úr fjölmiðlum, kvikmyndum, bókum eða öðru slíku. Staðalmynd er hugtak sem skilgreint er sem viðtekin skoðun fólks um sérkenni hópa eða einstaklinga sem tilheyra oft minnihlutahópum innan samfélagsins. Dæmi um þetta geta verið skoðanir fólks á byggingu mosku á Íslandi.

Fordómar geta byggt á hegðun, skoðunum eða öðru í fari einstaklings. Kristján Kristjánsson skilgreinir fordóma sem dóm sem felldur er án þess að einstaklingur hafi kynnt sér réttmæti og rök málsins af sanngirni, því hafa þeir sem hafa fordóma ekki góðar ástæður fyrir skoðunum sem felast í dómunum.

Fordómar hafa mismunandi birtingamyndir og geta þeir verið sýnilegir eða ósýnilegir. Ósýnilegir fordómar eru mun algengari í samfélaginu og oft gerir fólk sér ekki grein fyrir þeim. Dæmi um ósýnilega fordóma getur verið að sýna fyrirlitningu í framkomu eða orðalagi eins og t.d. að veita útlendingum lélegri þjónustu, tala ekki við fólk af erlendum uppruna á vinnustað eða líta niður á fólk af erlendum uppruna. Margir myndu túlka slíka hegðun sem rasíska.

Hin hefðbundna skilgreining á rasisma er að margra mati úrelt. Í dag er áherslan ekki endilega á yfirburði eins kynþáttar heldur er lögð áhersla á menningu og aðgreiningu hennar meðal þjóða og fólks af öðrum litarhætti. Hugmyndin um kynþætti skiptir ekki höfuðmáli lengur heldur menningarleg einkenni og hvað aðgreinir þau hvert frá öðru. Stundum er notað hugtakið menningarlegur rasismi yfir þessa skilgreiningu. Nú á dögum þykir slíkur rasismi, sem einnig hefur verið nefndur ný-rasismi, vera sjálfsagðari en þeir voru áður, og kristallast það m.a. í yfirlýstri andúð á innflytjendum, múslimum og útlendingum almennt.

Þeir sem tjá þennan nýja rasisma eru oft afsakandi í framkomu sinni, segjast ekki vera rasistar heldur vilji þeir einungis „ræða málin.“ Að ræða málin í þessu samhengi er einmitt hvort rasískar hugmyndir standist skoðun. Þá er algengt að orðræðan snúist um þessa meintu ógn sem  steðjar af fjölmenningu, auknum innflytjendastraumi, eða ákveðnum þjóðfélagshópum. Vegna þessarar „hættu“ sem þeir telja sig skynja, láta þeir sig slík málefni sérstaklega varða.

Á Vesturlöndum hefur menningarlegur rasismi hlotið ákveðna ómeðvitaða viðurkenningu og fengið byr undir báða vængi á liðnum árum en þannig hafa t.d. stjórnmálaflokkar sem vilja beita sér gegn fjölmenningarsamfélaginu sótt í sig veðrið að undanförnu en það kristallast einnig í hegðun einstaklinga gangvart fólki af erlendum uppruna, með aðra menningu eða trú. Slíkur rasismi er því beintengdur almennri andstöðu gegn fjölmenningu.

Talsmenn þeirra sem sem aðhyllast slíkar skoðanir og eru andsnúnir fjölmenningu benda gjarnan á að afstaða þeirra sé ekki rasísk vegna þess að þeir segjast ekki leggja neina áherslu á kynþætti. Það séu frekar gagnrýnendur þeirra sem séu rasískir vegna þess að þeir eru að mála múslima og aðra trúarhópa upp sem kynþætti. Hins vegar hefur verið bent á að ekki sé hægt að segja að menningarlegur rasismi sé ekki rasismi, einfaldlega vegna þess að hugtakið eigi ekki við um kynþætti. Menningarlegur rasismi er afbrigði rasisma sem skiptir einfaldlega kynþætti út fyrir menningu. Menning er þannig orðin að hinum nýja kynþætti.

Eitt af höfuðeinkennum menningarlegs rasisma og þjóðernispopúlismans sem honum fylgir er að draga upp tvískipta mynd af þjóð sinni eða sínum menningarheimi annars vegar, og útlendingum eða öllum utanaðkomandi hinsvegar; „við“ og „hinir.“ Þetta er svarthvít mynd sem aðgreinir einnig hið „góða“ frá hinu „illa.“ Slíkum málflutningi hefur verið beitt öldum saman af þeim sem haldnir eru útilokandi þjóðernishyggju og útlendingahræðslu, enda er það elsta trixið í bókinni að ala á ótta til þess að fá fólk með þér á einhverja ákveðna skoðun.

Sú þróun sem lýst er hér að ofan á við Ísland og Íslendinga rétt eins og allar aðrar þjóðir Evrópu, hvort sem við erum tilbúin til þess að viðurkenna það eður ei. Við getum án vandkvæða fundið dæmi um ofangreinda hegðun í samfélaginu, hvort sem við skoðum fjölmiðlaumfjöllun, ummæli stjórnmálamanna eða athugasemdakerfin og við höfum jafnvel gerst sek um slíka hegðun sjálf – meðvitað eða ómeðvitað. Af því getum við lært.

Það er íslensku samfélagi til gæfu að hingað flytjist fólk til þess að finna starfskröftum sínum, hugviti og hæfileikum farveg. Þátttaka nýrra íbúa er mikilvæg fyrir samfélagið í heild sinni og því er mikilvægt að leita leiða til að jafna stöðu einstaklinga og hópa í fjölmenningarlegu samfélagi og stuðla þannig að félagslegu jafnrétti og réttlæti og koma í veg fyrir vaxandi rasisma og hegðun tengda honum.

Fordómum fólks getur verið erfitt að breyta og ekki er hægt að eyða staðalmyndum úr samfélaginu en mikilvægt er að leiðrétta þær staðalmyndir sem valda ójafnrétti og óréttlæti gagnvart ákveðnum hópum í samfélaginu því fordómarnir leiða af sér ótta sem síðan getur leitt af sér mun verri hegðun í garð ákveðinna minnihlutahópa en þau dæmi sem tekin eru hér að ofan.

Það er enginn nema við sjálf sem getum breytt þeirri þróun sem á sér nú stað. Ábyrgðin liggur ekki hjá neinum nema okkur sjálfum, við mótum samfélagið. Stöldrum örstutt við og íhugum hvort hegðun okkar einkennist af einhverjum af ofangreindum atriðum. Ef svo er, hugsum okkur tvisvar um áður en við gerumst sek um slíka hegðun aftur. Við þurfum ekki að vera hrædd, við þurfum að vera meira næs. Það kostar ekkert!

Heimildir:
Fjölmenningarleg kennsla: Forvörn gegn kynþáttahatri og fordómum.
Menningarlegur rasismi á Íslandi
Ný-rasismi í reynd

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 20.11.2015 - 20:12 - FB ummæli ()

Rétt og rangt um Daesh (ISIS), Íslam og hryðjuverkaógnina!

as-isis-routs-the-iraqi-army-heres-a-look-at-what-the-jihadists-have-in-their-arsenalÞað er rangt að kalla hryðjuverkasamtökin Daesh hið Íslamska ríki. Í fyrsta lagi er ekki um ríki að ræða. Samtökin ráða yfir ákveðnum landsvæðum í Írak og Sýrlandi (og örlítið í kring) sem þau hafa tekið með valdi og það er einungis til þess fallið að styðja málstað þeirra að tala um ríki. Markmið samtakanna er að endurreisa hið forna kalífat og gera þannig kröfu til yfirvalds í öllum trúarlegum og stjórnmálalegum málefnum allra múslíma í heiminum.

Sjálfir vilja fulltrúar samtakanna alls ekki að þau séu kölluð Daesh sem merkir á arabísku allt frá því að „troða niður” eða „kremja“ eða einhver sem treður skoðunum sínum upp á aðra og því er rækin ástæða til þess að gera svo. Það gæti hins vegar kostað þig tunguna ef þú býrð á yfirráðasvæði þeirra.

Í öðru lagi er ekki rétt að tala um hið Íslamska ríki þar sem aðgerðir hryðjuverkasamtakanna eru ekki í neinu samræmi við það sem Kóraninn, helsta trúarrit múslima, boðar. Sem dæmi má nefna að morð á saklausum borgurum, konum og börnum, öðrum trúarhópum eða trúlausum, fjölmiðlamönnum eða hjálparstarfsmönnum er með öllu bannað samkvæmt Kóraninum.

Eyðilegging á fornminjum eða guðshúsum eins og moskum og kirkjum er stranglega bönnað samkvæmt Kóraninum en þau ber að vernda og því er ekkert sem réttlætir slík skemmdarverk. Annað dæmi er að samkvæmt Kóraninum er bannað að þvinga trú sína upp á aðra, hver og einn verður að finna hana hjá sjálfum sér. Daesh þvingar hins vegar fólk með hræðslu og ótta til þess að taka múslimatrú að hætti Súnnímúslima. Geri fólk það ekki er það miskunarlaust drepið.

Daesh hefur einfaldlega stolið skilgreiningunni á Íslam og múslimatrú og gert hana að einhverju sem styður málstað þeirra. Hryðjuverkamenn verða að hafa einhvern tilgang, eitthvað markmið, til þess að réttlæta gjörðir sínar og til þess að ná sér í fylgjendur og stækka hópinn. Þessi hópur ákvað að nota múslimatrú.

Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Deash.

Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Deash.

Það er ekki rétt að á bakvið samtökin séu einungis einstaklingar sem koma úr erfiðum félagslegum aðstæðum. Daesh hafa á ótrúlega skömmum tíma stækkað og breitt úr sér víða um heim. Um er að ræða ríkustu hryðjuverkasamtök í heimi sem stjórna olíulindum og eru með mannskap í vinnu sem selur fyrir þá olíu og ótrúlegt en satt þá keypt af þeim olíu.

Daesh hefur yfirgripsmikla þekkingu á markaðs- og upplýsingamálum, en þeir gefa td. út mánaðarlega glanstímarit og fara hamförum á samfélagsmiðlum og öðrum miðlum enda eru þeir duglegir við að taka upp allan þann viðbjóð sem þeir gera. Þeir hafa mikla þekkingu á viðskiptum og hernaðaraðgerðum og eiga gríðarlega mikið af vopnum og því er ljóst að mikið liggur að baki starfseminnar og segja má að um hálfgerða viðskiptablokk sé að ræða, enda eru leiðtogarnir flestir klæddir í Armani jakkaföt, Rolex-úr og nýja jeppa undir yfirbragði svartra kufla.

Daesh hefur sett lög á yfirráðasvæðum sínum sem þeir segja vera Sharia-lög. Enn og aftur er það gert til þess að tengja hryðjuverkasamtökin og aðgerðir þeirra við múslima og Íslamstrú. Útlit er hins vegar fyrir að hver og einn dómur falli eftir geðþótta og aðstæðum hverju sinni frekar en lögum og reglum. Dómarnir eru allt frá því að missa hendurnar yfir í að missa höfuðið, oft án þess að nokkuð bendi til þess að fólk hafi gert eitthvað af sér. Slíkt er bannað í Íslamstrú.

Daesh eru á móti öllum sem eru á móti Daesh. Það er ekki gerður greinarmunur á múslimum (sem ekki eru Súnní), kristnum, trúleysingjum, Frökkum eða Írönum. Þeir einfaldlega taka alla af lífi sem eru ekki á sömu skoðun og þeir. Daesh eru mjög öfgafull, ofbeldisfull og hættuleg samtök og lang flestir múslimar vilja ekki á nokkurn hátt láta bendla sig við Daesh.

11ára3Daesh sendir börn og unglinga í þjálfunarbúðir áður en þeir fá vopn í hendurnar í kringum 15 ára aldurinn. Að mestu leyti er um unga drengi að ræða, en í kringum sjö ára aldurinn eru þeir búnir að sverja hollustueið við Kalífatið og leiðtoga þess, flestir búnir að fá grunnþjálfun frá foreldrum sínum og þylja upp fyrir alla sem vilja heyra trúarjátninguna og hversu mikið þeim hlakkar til að fara að myrða fyrir samtökin, fyrir málstaðinn, sem þeir vita eflaust ekki hver er.

Sá straumur flóttamanna sem nú kemur til Evrópu á ekki nokkuð skilt við Daesh, nema að því leyti að þeir eru að flýja vígamenn samtakanna í Sýrlandi og nágrannaríkjunum. Þeir flóttamenn sem nú koma til Evrópu eru að flýja styrjöld, fjöldamorð og aftökur á götum úti þar sem engum er hlíft. Það eru ekki flóttamenn frekar en trúarbrögð sem bera ábyrgð á hryðjuverkunum í París, Tyrklandi eða Líbanon. Það er hatur, fáfræði og óskiljanleg illska mannskepnunnar sem er samankomin í samtökunum Daesh.

Daesh eru best heppnuðustu hryðjuverkasamtök sögunnar. Þeir eru að vinna. Þegar við erum komin með hryðjuverkasamtök sem Al-Qaeda vill ekki láta bendla sig við erum við komin á stað sem erfitt er að skilja. Það er ekki skrýtið að óttinn taki yfir. Hryðjuverk eru með því skelfilegasta sem hægt er að upplifa, sama hver það er sem fremur þau eða hvar þau eiga sér stað. Máttleysið, skilningsleysið og óöryggið sem kemur í kjölfarið eru allt eðlileg viðbrögð við því að mannskepnan geti sýnt svo mikla illsku.

Það sem Daesh vill er að við verðum hrædd, förum að breyta hegðun okkar, tortryggja nágrannann, vopna lögregluna og loka landamærunum. Sama hvort við búum í Írak, Tyrklandi, Frakklandi eða á Íslandi, það skiptir þá engu máli. Því fleiri, því betra, því hryðjuverkamennirnir vilja brjóta upp alþjóðasamfélagið, reka fleyg í sambúð ólíkra menningarhópa í heiminum, drepa lýðræðið, traðka á mannréttindum og eyðileggja þá samstöðu sem við höfum hingað til upplifað. Þeir vilja að yfirvöld skerði frelsi okkar og að átök á milli trúarhópa magnist. Þeir vilja að við förum að berjast innbyrgðis.

Ef við gerum eitthvað allt annað, þá munu þeir tapa!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.11.2015 - 13:14 - FB ummæli ()

Kaffærum þeim í ást og umburðalyndi!

Hryðjuverk eru með því skelfilegasta sem hægt er að upplifa, sama hver það er sem fremur þau eða hvar þau eiga sér stað. Við erum öll sammála um það. Máttleysið, skilningsleysið og óöryggið sem kemur í kjölfarið eru allt eðlileg viðbrögð við því að mannskepnan geti sýnt svo mikla illsku.

Það sem gerist hins vegar næst er mjög mikilvægt.

Að ala á ótta er elsta trixið í bókinni. Við verðum að passa að detta ekki í gildrurnar þegar voðaverkin gerast og gefa þannig hryðjuverkamönnunum og öðrum öfgamönnum nákvæmlega það sem þeir vilja. Að við verðum hrædd, förum að bregða út af vana okkar, breyta hegðun okkar, tortryggja nágrannann, vopna lögregluna og loka landamærunum. Einangra okkur. Ef við gerum það, þá eru öfgarnar búnar að vinna.

Þegar hryðjuverkin eru afstaðin er annar hópur sem tekur við keflinu. Það er hópurinn sem mun reyna að sannfæra þig um að það sé mikilvægt að gera allt að ofangreindu – og það strax. Hópurinn sem nýtir sér slík voðaverk í þeim tilgangi að styrkja pólitískan málstað sinn, sem í dag er sá að flóttamenn eru hryðjuverkamenn, múslimar eru hryðjuverkamenn og innflytjendur eru hryðjuverkamenn og “þetta fólk beri að forðast og alls ekki “bjóða” til landsins okkar” (sem að sjálfsögðu er betra en öll önnur lönd, jafnvel hreinna og auðvitað heilagara).

Ef maður heyrir slíkan hræðsluáróður of oft er hætta á að maður fari að trúa honum og þar af leiðandi að maður fari að breyta sjálfum sér, hegðun sinni og umhverfi sínu. Fleiri munu gera slíkt hið sama og á endanum verður það til þess að breytingin mun fara að hafa áhrif á samfélagið í heild sinni.

Það eru stjórnmálaflokkar og aðrir formlegir eða óformlegir hópar sem nú tröllríða hinum pólitíska vettvangi í Evrópu sem munu nærast á slíku og styrkjast. Hópar og flokkar sem eiga það sameiginlegt að ala á þjóðernishyggju, innflytjendaandúð og andúð á fjölmenningarsamfélaginu, sem búa til sameiginlegan óvin fyrir þjóðina, sem nýta sér voðaverk eins og þau sem áttu sér stað í París í pólitískum tilgangi.

Því er mikilvægt að stíga varlega til jarðar, taka á stöðunni með ró og halda sínu striki. Það gera Parísarbúar, það hljótum við hin að geta gert líka. Hvers vegna er það mikilvægt?

Jú, því í fyrsta lagi eru það ekki flóttamenn sem bera ábyrgð á hryðjuverkunum í París á föstudaginn eða í Líbanon daginn áður. Það eru sömu einstaklingar og flóttamennirnir eru að flýja heimaland sitt vegna sem bera ábyrgð á þessu og öðrum hryðjuverkum.

Það eru ekki trúarbrögð sem bera ábyrgð á hryðjuverkunum í París eða Líbanon. Það er hatur, fáfræði og óskiljanleg illska mannskepnunnar.

Það er heldur ekki umburðalyndi Evrópubúa sem ber ábyrgð á hryðjuverkunum í París. Það er stórhættuleg hugmyndafræði öfgamanna, þröngsýni og þjóðernisrembingur sem verða til þess að slík voðaverk eru framin.

Það er því engin ástæða til þess að komast að þeirri niðurstöðu að flóttamenn séu hryðjuverkamenn, allir múslimar sjálfsmorðsóðir eða að hætta þurfi að treysta náunganum sem hefur annan bakgrunn en þú og sýna fjölbreytileikanum í samfélaginu skilning.

Það sem er mikilvægt að gera er að halda áfram að tala fyrir umburðalyndi, réttlæti og friði í samfélaginu og í heiminum öllum. Við megum ekki falla í gildruna og gefast upp. Við leyfum ekki hryðjuverkamönnunum og öfgunum að sigra.

Það er mikilvægt að halda áfram að berjast, en ekki með því að svara með sama hatri og illsku sem öfgamennirnir standa fyrir. Við þurfum að kaffæra þeim í ást, umburðalyndi og umhyggju! Þannig munum við að lokum sigra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 2.11.2015 - 18:19 - FB ummæli ()

Tíu ástæður fyrir aðild Íslands ESB!

Man einhver eftir því að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu? Man einhver afhverju? Fyrir betri lífskjör? Nýjan gjaldmiðil? Hér eru tíu góðar ástæður fyrir því að Ísland ætti að gerast aðildarríki Evrópusambandsins, sem hafa ekki breyst síðustu árin, þrátt fyrir allt.

Lesa áfram »

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , ,

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur