Þriðjudagur 22.09.2009 - 04:57 - FB ummæli ()

Smjörkrukkan

Fyrir mörgum árum fékk móðir mín senda krukku frá Naný frænku sem bjó í Ameríku. Krukkan, sem var úr keramiki, var byltingarkennd uppfinning varðandi geymslu á smjöri. Venjulegt smjör, eins og allir vita, harðnar sé það geymt í kæli og verður erfitt viðureignar þegar smyrja skal því á brauð. Þessi krukka var þeim eiginleikum gædd að smjörið í henni harðnaði hvorki né þránaði. Nú skal útskýrt hvers vegna. Krukka þessi var í raun tvær krukkur þar sem önnur krukkan, sú efri, rann ofan í hina, þá neðri. Í þá neðri var sett góð botfylli vatns en í þá efri var sett smjör. Þegar krukkunni var lokað fór efri hlutinn ofan í vatnið og hindraði loftflæði til smjörsins. Þannig var hægt að geyma krukkuna á eldhúsborðinu og smyrja brauðið með lungamjúku ekta smjöri alla daga.

Krukkan sem Naný sendi mömmu var notuð um tíma á heimilinu, en síðan fór hún upp í skáp og ég veit ekki hvað varð af henni. Ástæðan fyrir því að hún fór þangað var sú að við vissum aldrei hvernig átti að nota hana. Mamma stóð í þeirri meiningu að maður ætti að setja klaka í botninn til að halda smjörinu mátulega köldu. Þar sem það er nokkuð umstang að setja klaka í sífellu í krukkuna, datt notkun hennar uppfyrir.

Það var ekki fyrr en ég rakst á svona krukku í búð um daginn og keypti að ég komst að hinu sanna. Það þarf ekki að setja klaka, það er nóg að setja vatn í botninn.

Eins og ég lofaði aðdáendum mínum í síðustu færslu ætlaði ég að láta þá vita hvernig gengi að kaupa stuttbuxur og segja fréttir af ryksugumálum. Það er mér sönn ánægja að greina frá því að ég festi kaup á stuttbuxum á útsöluslánni í búðinni sem ég man ekki hvað heitir. Hef ekki enn komist í að kanna með ryksuguna. Læt vita hvernig það gengur.

Flokkar: Dægurmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur