Föstudagur 25.09.2009 - 06:04 - FB ummæli ()

Brauðbrettagaur

Aðdáandi brauðbretta er ég mikill. Brauðbretti eru í mínum huga heppilegasti hluturinn til að borða mat af. Mannskepnan borðaði trúlega um þúsundir ára af brauðbrettum, eða brauðdiskum og vitaskuld öskum, áður en keramikið varð til. Keramikdiskar, eða brenndir leirdiskar hafa jú verið í umferð um langa hríð, en ég hef það sterkt á tilfinningunni að á norðurslóðum hafi trétau haft vinninginn yfir leirtau. Bæði var auðveldara að búa til trétauið og það brotnaði síður. Ég veit ekki til þess að á forsögulegum tíma hafi verið til brennsluofn á Íslandi, en það gæti verið rangt hjá mér. Ég held að það sé innbrennt í genin mín að þykja þægilegra að borða af tré en leir. Vissulega eru þrif á leirtaui mun auðveldari en á trétaui. Leirtauið fer beint í uppþvottavélina, en ef trétauið fer þangað verpist það og skemmist.

Um daginn keypti ég tvö brauðbretti, annað lítið og hitt stærra. Bæði eru af sömu tegund og með djúpri rauf meðfram ytri brúninni. Mylsna og annað fer í raufina en brauðið og maturinn í þverrraufina. Ég er ánægður með nýju brauðbrettin mín. Lífsgleði mín hefur aukist umtalsvert síðan þau komu í eldhúsið. Genin mín eru glöð og hlæja.

Þó verð ég að viðurkenna að ég borða enn flestar máltíðir af keramikdiskum. En smátt og smátt hyggst ég hverfa frá keramikinu. Heiðrún gerir óspart grín að mér fyrir að vera svona mikill brauðbrettagaur. „Brauðbretti út um allt! Er ekki hægt að fækka þeim aðeins?“ Næst þegar ég kaupi eldhúsinnréttingu ætla ég að hafa borðið úr brauðbrettaviði. Þá er borðið í raun eitt stórt skurðarbretti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur