Það er ekkert langt síðan það komst í tísku að hafa hjól undir húsgögnum. Þetta eru trúlega áhrif frá verksmiðjum og lagerum þar sem vinnuborð, bekkir og aðrir hlutir hafa lengi verið á hjólum. Mér varð hugsað til þessa fyrirbæris þegar ég þurfti að strauja skyrtu og það var bara til borð-straubretti á heimilinu (straubretti sem er með 20 sm. háum fótum). Er ég leitaði að hentugum fleti undir litla straubrettið rak ég augun í lága bókahillu á hjólum. Með einu handtaki gat ég togað hana frá veggnum og notað sem borð undir straubrettið. Hafði, áður en þessi lausn birtist mér sem lítið kraftaverk, hugsað mér að kaupa kannski venjulegt straubretti, en þær fyrirætlanir eru nú út úr myndinni.
Menn eru mismiklir aðdáendur húsgagna á hjólum. Það eru til dæmis fjögur húsgögn á hjólum í íbúðinni okkar heima á Íslandi, baðborðið, bæði náttborðin og lítið sjónvarpsborð. Faðir minn er mikill hjólahúsgagnakall. Hann setti til dæmis hjól undir sófaborðið og nýlega setti hann hjól undir hægindastólana í stofunni. Stórsniðugt finnst mér, þótt aðrir í fjölskyldunni geri grín að þessu. Ég held að ég hafi ekki erft þessa hjólaáráttu frá honum, en ég veit að bróðir minn er mjög hrifinn af öllu sem er á hjólum. Ég man eftir honum uppveðruðum yfir eldhússtólum sem voru á hjólum. Hann sagði að slíkir stólar væru eina vitið við eldhúsborðið. Þar sem hann ræður öllu heima hjá sér varð ekkert af kaupum.
Í eldhúsinu í íbúðinni sem við dveljumst nú í er lítið borð sem er á tveimur hjólum, en tveir fætur eru hjólalausir. Það er heppilegt fyrirkomulag vegna þess að þá er borðið ekki á fleygiferð um allt eldhúsið. Maður þarf að lyfta öðrum endanum á því til að þoka því úr stað. Sjálf eldhúsinnréttingin er ekki á hjólum, en Þjóðverjar ættu að athuga að setja hjól undir eldhúsinnréttingarnar hjá sér. Þar í landi tíðkast nefnilega að flytja eldhúsinnréttinguna með sér þegar íbúð er seld eða leiga útrunnin.
Svona hjól fást í IKEA veit ég, vegna þess að þar keypti ég þau undir baðborðið á sínum tíma. Þeir sem vilja kaupa enn ódýrari hjól ættu að fara í Góða hirðinn. Þar eru oft hrörleg húsgögn á góðum hjólum. Ég man að ég keypti eitt sinn skenk fyrir slikk sem undir voru þessi fínu hjól. Skenkinn notaði ég aldrei og gaf til Hjálpræðishersins, en hjólunum hélt ég eftir og eru þau nú í geymslunni. Kannski ég setji þau undir klósettið. Það er gott að geta ýtt því til hliðar við þrif.