Víða í útlöndum hafa viðskiptavinir verslana val um hvort þeir fái vörurnar settar í plastpoka eða umhverfisvæna bréfpoka. En í sumum búðum, þeim „mest umhverfismeðvituðu“, er ekki hægt að fá neitt annað en bréfpoka, td. í Trader Joe’s. Reyndar eru alltaf settir tveir pokar saman undir vörurnar í Trader Joe’s vegna þess að einn bréfpoki ber svo lítið. Það er áhugaverð spurning og jafnvel heimspekileg, hvort það sé betra fyrir umhverfið að nota 1000 bréfpoka eða 500 plastpoka fyrir sama magn af vörum. Hvort tveggja má endurvinna, en hvort ætli sé fyrirferðarmeira í 10 hjóla trukknum sem reykspúandi og eldsneytisgleypandi ekur með það í reykspúandi og eldsneytisgleypandi endurvinnsluna?
Ég vel alltaf plastpoka undir vörurnar. Ekki af því að ég hafi neitt á móti bréfpokunum, síður en svo. Þeir eru kósí og flottir. En það stendur á miða niðri í ruslageymslu: Allt rusl á að vera í plastpokum með vel bundið fyrir. Ef ég notaði ekkert annað en bréfpoka í búðinni myndi ég þurfa að kaupa sérstaklega plastpoka undir ruslið. Ég væri með öðrum orðum tvöfaldur umhverfissóði. Fyrst með bréfpokunum og síðan með plastpokunum.
Enda er það svo með þá allra umhverfisvænustu að þeir lauma einni og einni plastpokarúllu í innkaupakerruna þegar þeir fara út að versla í umhverfisvænu búðinni sinni svo þeir geti hent ruslinu án þess að það fjúki út um allt með tilheyrandi sóðaskap. Þetta er það sem kallað er á góðri og gildri íslensku: Hræsni.
Kannski er ég einn um það, en mér finnst eins og það sé ákaflega stutt á milli umhverfisverndar og hræsni. Ágætt dæmi um það eru nýju ljósaperurnar sem Evrópusambandið ætlar að troða í hvert perustæði með lagaboði. Þær eru víst fullar af eiturefnum sem stórvarasamt er að farga með hefðbundnu sorpi. Gamla góða glóperan er kannski ekki eins slæm og af er látið? Hún er að minnsta kosti ekki eins slæm og sumir vilja vera láta.
Og fyrst ég er farinn að tala um umhverfismál get ég ekki sleppt því að skella inn hlekk á Ágúst H. Bjarnason, en á síðu hans er ekkert minna en kostuleg mynd um ísöldina sem var rétt handan við hornið 1977 (með skelfilegum afleiðingum fyrir mannkynið). Röksemdafærslan og tónninn, vísindamennirnir, allur umbúnaðurinn, minnir á mynd sem þrjátíu árum síðar fór um heimsbyggðina eins og eldur í sinu og fjallaði um alheimssteikinguna sem er víst rétt handan við hornið (með skelfilegum afleiðingum fyrir mannkynið).